Fyrir tæplega átta árum fóru fram prófkjör í Bandaríkjunum vegna forsetakosninganna í nóvember 2000. Þær kosningar urðu í senn umdeildar, sögulegar og afdrifaríkar þegar George W. Bush var dæmdur sigur yfir Al Gore. En áður en Bush var valinn frambjóðandi Repúblikanaflokksins þurfti hann að bera sigurorð af öðrum keppinautum – einkum þó öldungardeildarþingmanninum John McCain.
Í nokkur ár fyrir kosningabaráttuna árið 2000 hafði verið í undirbúningi framboð Bush fjölskyldunnar. Lengi vel var gert ráð fyrir að Jeb Bush, fylkisstjóri í Texas, gerði atlögu að embættinu en á endanum var það litli bróðir, fylkisstjórinn í Texas – George W., sem var sendur úr hlaði með nesti og nýja skó. Miklu var til kostað í kynningu á þessum manni og sagt var að meðal helstu máttarstólpa í Repúblikanaflokknum hafi skapast um þennan mann víðtæk sátt löngu áður en til fyrsta prófkjörsins í New Hampshire kom. Sú hefð Bandaríkjamanna að gefa almennum kjósendum, og stuðningsmönnum, völd til þess að velja frambjóðendur virtist í fyrstu ætla að riðla áformum flokksmaskínunnar. McCain vann sigur í New Hampshire og virtist meðbyr með honum ætla að verða óstöðvandi.
En skjótt skipast veður í lofti. Á eftir prófkjörinu í New Hampshire voru haldin prófkjör í Suðurríkjunum – og fyrst í Suður Karólínu. Þangað mætti McCain með vindinn í seglunum og tilbúinn til þess að halda sigurgöngu sinni áfram. Hann talaði óhikað um þau vandamál sem uppi eru í Suðurríkjunum – gagnrýndi notkun Suðurríkjafánans við opinberar byggingar, neitaði að tala í Bob Jones háskóla (þar sem nemendum af ólíkum kynþætti var bannað að eiga stefnumót) og kallaði eiturspúandi sjónvaprsprédikara „hvatningarmenn tortryggni“. Allt þetta krafðist óvenjulegs hugrekkis hjá bandarískum forsetaframbjóðenda í leit að stuðningi hjá
repúblikönum í Suðurríkjunum.
Enda fór það svo að kosningabarátta McCain mætti óvæntri hindrun í Suður Karólínu. Skyndilega fóru að heyrast fréttir og umtal á íhaldssömum útvarpsstöðum, símhringingar í kjósendur fóru af stað og nafnlausum bréfum var dreift á fjölmiðla og til kjósenda. Sú rógsherferð sem upphófst í Suður-Karólínu gegn McCain í ársbyrjun 2000 er sennilega einhver sú grófasta sem um getur á síðustu árum. Því var haldið fram að eiginkona McCain væri eiturlyfjasjúklingur, að hann sjálfur væri geðveikur, að hann hefði gerst sekur um landráð þegar hann var stríðsfangi í Víetnam og, það ljótasta af öllu, að átta ára ættleidd dóttir hans, frá munaðarleysingjahæli Móður Teresu í Bangladesh, væri í raun afkvæmi frambjóðandans. Sögum af þessu tagi var meðal annars dreift með því að ráða símafyrirtæki til að gera skoðanakannanir þar sem spurt var „Myndi það breyta afstöðu þinni til framboðs McCain ef þú vissir að hann ætti þeldökkt barn í lausaleik?“ Og prófessor við Bob Jones háskóla velti því opinberlega fyrir sér hvort Suðurríkjamenn ætluðu að kjósa giftan mann sem hefði valið að eignast barn í lausaleik. Jafnvel þótt ekkert væri til í þeirri kenningu!
Þessar viðbjóðslegu gróusögur og lygar báru tilætlaðan árangur. Framboð McCain sporðreistist á fáum vikum. Frambjóðandinn sjálfur og stuðningsmenn hans vissu vart hvaðan á þá stóð veðrið – og þegar þeir reyndu að svara þessum árásum voru þeir sjálfir sakaðir um að heyja neikvæða kosningabaráttu og stunda skítkast.
Hverjir það voru sem stóðu á bak við árásirnar hefur aldrei komið í ljós þótt augljóst sé hverjum afleiðingarnar gögnuðust. En niðurstaðan var ekki aðeins að síðasti valkosturinn við Bush í Repúblikanaflokknum heltist úr lestinni – heldur einnig að fjölmargir stjórnmálamenn og stuðningsmenn þeirra fengu góða ástæðu til þess að álykta sem svo að óþverrabrögð og rógsherferðir séu nauðsynleg meðöl til þess að ná árangri í stjórnmálum. Þegar slík vinnubrögð verða að viðtekinni venju í stjórnmálum er voðinn vís. Nafnlaust skítkast og órökstuddur rógburður um pólitíska mótherja kann að bera árangur til skamms tíma, en það er mikilvægt að kjósendur láti slík vinnubrögð ekki borga sig – og vonandi velja stjórnmálamenn frekar ósigur heldur en sigur á grundvelli svindls eða rógburðar.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021