Um komandi áramót eru kjarasamningar lausir. Væntanlega hefur ekki farið framhjá neinum að þrýstisamtök á borð við Alþýðusamband Íslands hafa nú uppi háværar kröfur um hækkun lágmarkslauna. Verkalýðsfélag Akraness viðraði þá hugmynd á ársfundi Alþýðusambandsins nú um helgina að hækka lágmarkslaunin upp í 170.000 krónur á mánuði. Það er hvorki meira né minna en 36% hækkun frá því sem nú er lögbundið. Einnig vill sama félag semja til tveggja ára, vafalaust til að þurfa ekki að bíða meira en tvö ár til frekari launahækkana.
Allir sem hafa lært agnarögn í hagfræði vita það að þrýstisamtök á borð við verkalýðsfélög eru einn þeirra þátta sem getað stuðlað að atvinnuleysi. Séu lágmarkslaun hækkuð þrengir það óneitanlega að atvinnurekendum með hækkandi launakostnaði og getur orsakað færri nýráðningar eða jafnvel uppsagnir. Öllum er því ekki greiði gerður með almennum launahækkunum.
Hins vegar þarf þetta ekki endilega að vera tilfellið á Íslandi. Atvinnuleysi á Íslandi er sem kunnugt er hverfandi stærð. Eftirspurn eftir vinnuafli hefur verið afar sterk á þeim þensluárum sem hafa gengið yfir að undanförnu. Þá ekki síst eftir ófaglærðum starfsmönnum sem myndu einhverjir finna fyrir 36% hækkun lágmarkslauna, ef af henni yrði. Hins vegar myndi svo rífleg launahækkun ýta undir aukinn verðbólguþrýsting í hagkerfinu, enda getur tekið nokkurn tíma að vinda ofan af spenntum vinnumarkaði.
Baráttan við verðbólguna í skugga þanins hagkerfis hefur verið hatrömm á síðustu árum meðal annars haldið stýrivöxtum himinháum. Nú sér loksins fyrir endann á þeirri baráttu, og greiningaraðilar telja að Seðlabankinn muni ná verðbólgumarkmiði sínu á næstu tveimur árum. Hins gæti launahækkun á borð þá sem hér hefur verið rædd ekki beint hjálpa til.
Það hlýtur að vera í þágu þeirra sem þiggja laun í námunda við lágmarkslaun að verðbólgu sé haldið niðri. Almennar launagreiðslur eru nafnstærðir sem geta brunnið upp með aukinni verðbólgu. Það er því mikilvægt að hækka laun hóflega á hverjum tíma, svo raunverulegur ávinningur þeirra sem eiga hlut að máli sé hámarkaður.
Hvort núverandi laun séu mannsæmandi eður ei, eða hvort persónuafsláttur og skattleysismörk séu viðeigandi er ekki viðfangsefni þessa pistils. Ekki er verið að mæla fyrir því að lágmarkslaunum sé haldið föstum. Hér er einfaldlega bent á þá einföldu staðreynd að nafnlaunahækkun skilar sér að mjög takmörkuðu leyti ef of geyst er farið í hlutina og verðlagi leyft að rjúka upp ennþá hraðar. Þess vegna er ráðlegra að ráðast hægar í almennar launahækkanir – öllum til hagsbóta.
- Grætt á gjaldeyrishöftum - 18. september 2009
- Fjárlagahallinn er nú meiri kallinn - 27. maí 2009
- Hverjum er um að kenna? - 25. apríl 2009