Metsölubókin Leyndarmálið, eða The Secret, eins og hún kallast á frummálinu, hefur slegið í gegn um víða veröld og fengið mikið umtal. Bókin hefur nú verið þýdd á íslensku og verið kynnt töluvert mikið hér á landi. Bókin vakti forvitni greinarhöfundar sem kynnti sér efni hennar.
Höfundur bókarinnar kynnir í inngangi hennar hvernig hann uppgötvaði leyndarmálið en það gerði hann við lestur 100 ára gamallar bókar. Hvorki koma fram nánari upplýsingar um þá gömlu bók né frekari heimilda getið. Enda myndi fólk þá eflaust fremur kaupa hina gömlu bók en þá nýju, sem er væntanlega ekki það sem höfundurinn hafði í huga þegar hann hóf að rita sína bók.
Greint er frá því hvernig snillingar í gegnum tíðina vissu leyndarmálið, en ekki almenningur. Höfundur Leyndarmálsins vildi kynna leyndardóminn þannig að hann gæti nýst flestum. Það er því fyrst núna sem alþýða manna víða um lönd getur kynnt sér leyndarmálið, nú þegar það er gert opinbert í þessari bók. Handhafar leyndarmálsins í áranna rás eru nefndir eins og Newton, Beethoven og fleiri, en þeir eru sagðir hafa nýtt sér leyndarmálið til að ná árangri. Hvernig höfundur bókarinnar veit að þeir voru handhafar leyndardómsins er ekki tekið fram, heldur er vitnað í fleygar setningar sem þeir létu frá sér um árangur, málinu til stuðnings.
Sagt er lítillega frá því hvernig höfundur bókarinnar hóf að leita uppi þá einstaklinga í nútímanum sem einnig vissu um leyndarmálið og smátt og smátt gróf hann upp menn og konur sem vissu leyndarmálið og voru að lifa lífi sínu samkvæmt því. Vitnað er í handhafa þessa mikilvæga leyndardóms, en af einhverri ástæðu þá var lang flesta þeirra að finna í Bandaríkjunum.
Ekki trúverðugt
Samkvæmt því sem kemur fram í bókinni er kúnstin sú að laða til sín góða hluti með hugsun og lifa sig í botn inn í þá hluti sem maður vill eignast í lífinu. Greint er frá því hvernig margir fæla frá sér auð og velgengni með því að laða óvart að sér óæskilega hluti með neikvæðum hugsunum. Þannig er hægt að fæla frá sér skuldirnar með því að velta sér ekki upp úr þeim og að sama skapi laða að sér miklar tekjur með því hugsa um þær. Með hugsuninni einni saman er hægt að galdra til sín gull og græna skóga – allt sem hugurinn girnist. En þetta gerist ekki að sjálfu sér, því maður þarf að hugsa mjög mikið þannig að galdurinn virki. Þannig er tekið sem dæmi, að ef maður vill eignast flottan bíl, þá er ekki nóg að hugsa um bílinn, heldur krefst þetta mikillar einbeitningar við að lifa sig inn í það að keyra hann. Þá svínvirkar þetta.
Bókinni á að taka sem afþreyingu, ekki heilögum sannleik. Tekið er á hinu marg sannreynda: Þeir sem setja sér markmið og stefna (og vinna) einbeittir að því að ná markmiðum sínum, munu öðlast velgengni og verða hamingjusamari en aðrir. Aftur á móti er það útskýrt í bókinni hvernig fólk fékk áreynslulaust upp í hendurnar hærri tekjur, stærri hús og flottari bíla með það eitt að vopni að hugsa þessa hluti til sín. Horft er fram hjá því að vinna þurfi að markmiðum til að ná þeim.
Leyndardómurinn við að lækna sjálfan sig
Í bókinni er mestu púðri eytt í að útskýra hvernig hægt er að nota þessa tækni til að laða til sín hluti og peninga. Seinni hluti hennar fjallar aftur á móti um hin óefnislegu gæði,sem maður á að geta laðað til sín með hugsuninni einni saman.
Það fer fyrst að halla verulega undan fæti þegar umfjöllun um sjúkdóma hefst. Sagðar eru sögur af fólki sem hefur sigrast á banvænum sjúkdómum með viljanum einum saman. Það hugsaði sig heilbrigt á ný. Vissulega getur andleg líðan haft áhrif á líkamlegt atgerfi en að halda því fram að slíkt geti læknað bráðdrepandi sjúkdóm er algjör vitleysa. Ég efast ekki um að fjölmargir sem kynna sér efni bókarinnar hafi átt nákominn ættingja eða þekkja einhvern sem hefur látist af völdum alvarlegra sjúkdóma. Læðist að manni sá grunur að viðkomandi hafi hreinlega ekki haft nægan lífsvilja. Ekki verið nógu öflugur í að ímynda sig heilbrigðan á ný og því látist úr krabbameini. Þvílík mistök að klikka á svona smáatriði í miðri lyfjameðferð.
Efni bókarinnar ber að nálgast sem afþreyingu en ekki vísindi, en framsetning hennar vekur efasemdir, því látið er eins og um mikinn sannleika sé að ræða. Niðurstaðan er sú að jákvæð hugsun geri okkur gott. Það er bara vonandi að enginn taki þetta bókstaflega og segi upp vinnunni.
- Svarið við áskorunum framtíðarinnar en ekki lausnin á vanda nútímans - 2. júní 2020
- Lifum við á fordómalausum tímum? - 9. maí 2020
- Má ég, elskan? - 21. júní 2008