Skjótt skipast veður í lofti. Í dag tekur við nýr fjögrra flokka meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur, undir forystu Dags B. Eggertssonar. Það eru tíðindi þegar fjórir flokkar (eða fimm ef Íslandshreyfingin er talin með) taka ákvörðun um að fara í samstarf – það þarf meira en málamiðlun, það þarf nánast teningakast til að komast að niðurstöðu í málum. Þegar menn finna lyktina af völdum er ýmislegt reynt og ljóst er að málefnin leika ekki lykilhlutverk hjá tilvonandi meirihluta í borginni. Núverandi staða er ekki heillavænleg fyrir borgarbúa þar sem fyrir liggur að flokkarnir fjórir sem mynda verðandi meirihluta eiga fátt annað sameiginlegt en það að vilja koma stærsta stjórnmálaafli Reykjavíkur frá völdum í borginni. Aðrar skýringar hafa ekki heyrst fram að þessum degi.
Áhugavert var að fylgjast með framgöngu fulltrúa F-listans í málinu sem er reyndar líka varaformaður Íslandshreyfingarinnar, en sá listi á að hafa leitt samningaviðræðurnar og átt frumkvæði að þeim. Þrátt fyrir tækifærismennsku meðlims Frjálslyndaflokksins tók það hana og fyrrverandi flokksfélaga hennar ekki sérlega langan tíma að sannfæra borgarstjórnarflokk Framsóknarflokksins, Vinstri-græn og Samfylkinguna um að samstarf þessara fjögrra flokka væri hið eina rétta skref í stöðunni. Þrátt fyrir að fulltrúi viðkomandi flokks væri löngu búin að segja sig úr Frjálslynda flokknum með tilheyrandi klofningi og búin að stofna nýjan stjórnmálaflokk og vera í framboði fyrir hann í alþingiskosningum ásamt því að gegna trúnaðarstöðu varaformanns Íslandshreyfingarinnar. Það skipti engu máli í þessu samhengi svo ekki sé nú minnst á hinn F flokkinn sem kallaði sig reyndar EXBÉ í síðustu borgarstjórnarkosningum sem var nýbúinn að svíkja þáverandi samstarfsfélaga sína í borginni.
Það sér hver maður að þetta er borðleggjandi upphaf að góðu og traustu meirihlutasamstarfi.
Allir fá sína titla – þeir sem verða ekki stjórar verða pólískir staðgenglar eða formenn, þannig skiptast hlutverkin.
• Dagur B. Eggertson verður borgarstjóri
• Svandís Svavarsdóttir verður pólitískur staðgengill borgarstjóra og leiðir starf meirihlutans í sameinuðum borgarstjórnarflokki
• Margrét Sverrisdóttir verður forseti borgarstjórnar
• Björn Ingi Hrafnsson verður áfram formaður borgarráðs
DAGljóst
Þær breytingar sem við getum treyst á að fylgi nýjum meirihluta í borginni eru að útgjöld munu aukast og skuldasöfnun borgarinnar mun vaxa jafnt og þétt eins og hún fékk að gera árin 12 þar á undan. Nú þegar hafa verið boðaðar útgjaldaaukningar á borð við gjaldfrjálsan leikskóla. Það verður áhugavert að fylgjast með hinum nýja fjórflokka meirihluta borgarinnar sem tekur við starfi sínu í dag og mikilvægt að hann mæti öflugu aðhaldi frá einbeittu og samtaka liði borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna
- Þessi blessaða veira er fordómalaus, reynum að vera það líka - 30. mars 2021
- Má ég faðma þig? - 13. janúar 2021
- Til hamingju Frú Vigdís - 15. apríl 2020