Það hefur ekki farið framhjá neinum að margt hefur gengið á í borgarmálum síðustu tvær vikurnar. Uppruni þeirra ólgu er í tveimur opinberum fyrirtækjum, Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavík Energy Invest og samningum þeirra og viðskiptum, bæði sín á milli og við aðra. Ekki eru allir sammála um réttmæti þessara viðskiptagjörninga en flestir virðast sammála um að fullhratt hafi verið farið.
Fyrir utan eignarhlut í Hitaveitu Suðurnesja tengjast eignir REI að engu leyti þjónustu við almenning á Íslandi eða einhvers konar sameign þjóðarinnar. Það dettur engum í hug að reyna að rökstyðja að fjárfestingar í verkefnum í Indónesíu, Djíbútí eða á Filippseyjum þurfi að vera í félagslegri eigu íslensku þjóðarinnar. REI er því klárlega fyrirtæki með það eitt markmið að fjárfesta í áhættusömum verkefnum, og fjárfestingar í þessum löndum eru vissulega áhættusamar, og vona að það skili þeim arðsemi sem áætlanir gera ráð fyrir. Því er lítill munur á því að borgin eigi í REI og því að borgin ætti hluti í Kaupþingi, Google eða Atlantic Petroleum.
Í REI-málinu kristallast flest það sem er slæmt við það að hið opinbera eigi og reki fyrirtæki sem ganga aðeins út á að hámarka hagnað og verðmæti fyrirtækisins. Í grunninn er vandamálið að hagsmunir eigenda fyrirtækisins, þ.e. almennings, og hagsmunir þeirra sem fara með eignarhlut fyrirtækisins og reka það eru ekki nauðsynlega þeir sömu. Einnig setur almannavilji fyrirtækinu ríkari skorður í gegnum kjörna fulltrúa sína. Þetta veldur því að þeir sem stjórna fyrirtækinu og reka það kunna að telja að þeir eigi skilinn stóran hluta í velgengni og úthluti sér hluti í fyrirtækinu á hagstæðum kjörum. Þetta getur líka valdið því að verðmætir starfsmenn fá ekki þau kjör sem þeir þurfa að fá til að þeir haldist hjá fyrirtækinu þar sem slíkt er ekki í samræmi við almannaálit. Þá getur verið að fyrirtækið sé látið renna inn í annað fyrirtæki á of lágu verði, nú eða að mjög verðmætur samruni fari ekki í gegn vegna þrýstings almennings.
Það má vel vera að það sé þess virði fyrir REI að gefa Bjarna Ármannssyni helmingsafslátt af hlut sínum í fyrirtækinu. Hann er reyndur maður í viðskiptalífinu, slík kjör tíðkast þar og til dæmis má nefna að eftirmaður hans í forstjórastól Glitnis fékk mun verðmætari samning hjá Glitni en Bjarni fékk hjá REI. Það má líka vel vera að Rúnar Hreinsson, fyrrverandi kosningastjóri Björns Inga Hrafnssonar, sé hæfileikaríkur og gríðarlegur fengur fyrir REI og að hann sé þess virði að honum sé veittur verðmætur kaupréttarsamningur. Samruninn við Geysi Green Energy kann líka að vera verðmætur fyrir REI. Með aukinni stærð fæst aukinn slagkraftur í fjárfestingum, aukin þekking kemur inn og verð fæst fyrir þá þekkingu sem REI og OR hafa yfir að búa.
En þegar svo mikil almenningsverðmæti ganga kaupum og sölum duga slík “ef” ekki til. Það þarf að vera ljóst að ákvarðanir séu teknar á eðlilegan og gagnsæjan hátt af hæfum aðilum með hagsmuni eigendanna í huga. Traust og trúverðugleiki skiptir öllu. Þetta mikla gagnsæi og kröfur um að sýnt sé fram á að rétt sé að málum staðið setur opinberum fyrirtækjum líka miklar skorður.
Í REI-málinu virðast ákvarðanir ekki hafa verið nógu vel ígrundaðar, ákvarðanatakar mögulega ekki nógu vel upplýstir og ekki endilega til að taka slíkar ákvarðanir. Það er engin sérstök ástæða til að ætla að Björn Ingi Hrafnsson og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sé neitt sérstaklega slyngir fjármálamenn þótt slíkt sé ekki útilokað. Þeir voru kosnir á grundvelli pólitískra stefnumála en ekki ráðnir á forsendum viðskiptahæfileika. Þá er erfitt að útiloka að hagsmunaárekstrar hafi haft áhrif á ákvarðanir og þróun mála.
Allt ofansagt veldur því að mjög erfitt er fyrir hið opinbera að hámarka verðmæti fyrirtækja í sinna eigu. Hætta á hagsmunaárekstrum og spillingu og takmarkaðir möguleikar opinberra fyrirtækja á að gera samninga hratt eru vandamál sem munu ávallt vera til staðar.
Þess vegna er hagsmunum eigendanna best borgið í því að selja fyrirtækið á sem hæstu verði og komast út úr stjórnun fyrirtækisins. Ef pólitískur vilji er fyrir því að hið opinbera fjárfesti í í áhættusömum fjárfestingum væri þá eðlilegra að söluandvirðið yrði notað til að kaupa litla hluti í skráðum fyrirtækjum eins og til dæmis Kaupþingi, Google og Atlantic Petroleum. Þá væru þó neikvæðar afleiðingar aðkomu hins opinbera að stjórnun fyrirtækisins að minnsta kosti ekki að hamla ávöxtun í fjárfestingunum. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að salan sé gagnsæ, upplýsingar um eignir, skuldir, réttindi og skuldbindingar fyrirtækisins skýrar og að öllum sé heimilt að kaupa og að tilboði hæstbjóðanda sé tekið.
En það er alveg ljóst að með sölu hluta í REI til einstaklinga og samruna við Geysi Green Energy er einkavæðing REI hafin. Augljóst framhald af þeim gjörningum hlýtur að vera sala félagsins að öllu eða mestu leyti. Að styðja hið fyrra en ekki hið seinna samræmist hvorki neinum félagslegum gildum né frjálshyggjugildum. Að krefjast slíkrar hálfeinkavæðingar og einskis annars getur ekki annað en vakið upp spurningar um hagsmunaárekstra.
- Hvernig rekur ríki hausinn í skuldaþak? - 5. ágúst 2011
- Goðaveldi Alþjóðasamfélagsins - 13. apríl 2011
- Vill íslenska þjóðin stjórnlagaþing eða -ráð? - 1. mars 2011