Frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er nú í opnu umsagnarferli á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins. Ef þetta frumvarp verður að lögum mun það verða lögfest að konur séu annars flokks borgarar sem þurfi meðhjálp, og það frá femínistanum sjálfum Jóhönnu Sigurðardóttur.
Á Íslandi í dag eru færri konur í stjórnunarstöðum í viðskiptalífinu, í einhverjum stöðum eru konur með lægri laun en karlar fyrir sömu vinnu, það eru færri þingkonur en þingmenn og það eru fleiri bankastjórar en bankastýrur. Staðan er hins vegar líka þannig að í háskólum á Íslandi í dag eru fleiri konur en karlar sem er breyting frá því sem áður var.
Atvinnuþátttaka kvenna varð ekki almenn fyrr en á síðustu öld og árið 1983 voru aðeins 70% kvenna sem unnu úti nú er sú tala miklu hærri. Fyrsta kona kom á Alþingi í gegnum sérstakan kvennalista árið 1922 og frá því að fyrsta konan tók sæti á þingi og til 1983 voru aðeins þrjár konur eða færri á Alþingi – stundum engin. Í dag eru 21 þingkona á Alþingi. Það hefur því mikið unnist á þessum tíma þó að ekki séu jafnmargar konur og karlar á öllum sviðum atvinnulífsins. En er það takmarkið?
Í nýja frumvarpinu sem félagsmálaráðherra hefur látið gera eru fjölmörg nýmæli sem miða að því að hafa jafnmargar konur og karla á sem flestum sviðum atvinnulífsins. Til að mynda er það lagt til að samhliða jafnréttisáætlunum, sem fyrirtækjum með 25 eða fleiri starfsmenn sé skylt að gera, verði jafnframt gerð framkvæmdaáætlun þar sem fram kemur hvernig fyrirtæki hyggist framfylgja jafnréttisáætlun sinni.
Ég sem hélt að takmarkið væri ekki að gera það að kvöð að ákveðið markar konur yrðu að vera í ákveðnum stöðum, hvort sem þær eða aðrir vildu hafa þær þarna eða ekki, heldur að skapa jöfn tækifæri til þess að konur og karlar gætu gert það sem þau vildu.
Stórir sigrar hafa unnist í jafnréttisbaráttunni og í dag njóta konur og karlar jafnar tækifæra til þess að gera það sem þau helst óska. Hins vegar má ekki sofna á vaktinni og leyfa öðru kyninu, fötluðum, samkynhneigðum eða neinum öðrum að vera beittur misréttis.
Fullkomið jafnrétti hefur kannski ekki náðst en er það takmarkið að jafnmargar konur og karlar séu lögfræðingar, og jafnmargir séu hjúkrunarfræðingar? Svarið er hvorki nei eð já. Ef jafnmargir vilja vera lögfræðingar, þá er ekkert sem á að geta komið í veg fyrir það og sama á að gilda um hjúkrunarfræðingana en ef fleiri karlar vilja vera hjúkrunarfræðingar eiga þeir líka að fá að vera það í friði, þó það sé verr borgað en lögfræðistaðan.
Ef þetta frumvarp verður að lögum er verið að lögfesta það að konur þurfi meðhjálp og aðstoð. Það er í raun verið að gefast upp og segja að konur séu annars flokks borgarar, að þær þurfi að aðstoða svo þær geti staðið jafnfætis körlum. Þetta lítillækkun og óvirðing við konur.
Ég ber meiri virðingu fyrir mér og kynsystrum mínum og hef trú á því að við þurfum ekki lögbundna meðhjálp frá félagsmálaráðherra.
- Hoppandi beljur að vori - 17. maí 2020
- Eftir það var ekkert eins og áður - 4. apríl 2020
- Velkomin í martröð úthverfanna - 20. mars 2020