Hér er ekki ætlunin að reyna að skera úr um hver sá hvaða lista með hvaða nöfnum hvenær og hvaða mál hafi verið kynnt fyrir hverjum hvenær í tengslum við stofnun og þróun Reykjavík Energy Invest. Ekki svo að skilja að málsmeðferðin og trúverðugleiki einstakra yfirlýsinga skipti ekki máli, heldur vegna þess að þessi atriði tengjast ekki endilega stóru myndinni í málinu sem er hlutverk hins opinbera á markaði. Það verður að greina á milli málsmeðferðar og undirbúnings málsins annars vegar og eiginlegra efnisatriða málsins hins vegar.
Orkuveita Reykjavíkur hefur lengi verið viðloðandi einhvers konar útrásarstarfsemi. Fyrirtækið átti um skeið hlut í fyrirtæki sem heitir Virkir hf. sem seinna sameinaðist Jarðhita ehf. í Enex, en á vegum þessara félaga hefur Orkuveitan beint og óbeint tekið þátt í ýmiss konar verkefnum víða um heim. Hvort kalla mætti þá starfsemi útrás er álitamál, ef til vill væri réttara að tala um þá starfsemi sem verkefni Orkuveitunnar erlendis. Í það minnsta er ljóst að Orkuveitan hefur verið viðloðandi slík verkefni um margra ára skeið.
Almenn samstaða er um það milli flokka að ekki eigi að einkavæða þá starfsemi Orkuveitunnar sem lýtur að hennar grunnþáttum hennar, þ.e. sölu á heitu og köldu vatni. Hins vegar hefur margoft komið fram, sérstaklega frá þeim sem telja að hlutverk ríkisins á markaði eigi að vera sem minnst, að óæskilegt sé að Orkuveitan standi í annars konar starfsemi, jafnvel í samkeppni við önnur fyrirtæki, t.d. á fjarskiptasviði eða í risarækjueldi. Þessa þætti í starfsemi OR vildi borgarstjórnarmeirihluti sjálfstæðismanna reyna að selja og koma úr umsjón Orkuveitunnar og skal engan undra. Í raun gilda svipuð sjónarmið um útrásarverkefni í endurnýjanlegri orku – það væri eðlilegt að koma slíkum verkefnum úr höndum Orkuveitunnar og yfir til einkaaðila. Málið vandast hins vegar ef verkefni tengd útrásinni eru ekki nægjanlega vel afmörkuð innan fyrirtækisins, þ.e. ef þau eru rekin á víð og dreif innan um aðra starfsemi þess. Því var í ekki óeðlilegt að farið hafi verið út í að stofna sérstakt félag utan um þessa starfsemi.
Hvernig væri til dæmis ef Námsgagnastofnun hefði í mörg ár, samhliða útgáfu námsbóka, staðið í útgáfu og markaðssetningu á íslenskum glæpasögum erlendis. Þessi verkefni hefðu verið unnin hér og þar innan stofnunarinnar en nýir stjórnendur vildu nú reyna að koma starfseminni út úr fyrirtækinu með þeim rökum að útgáfa glæpasagna ætti ekki þar undir. Hvernig ætti að fara að því að koma slíkri starfsemi úr höndum stofnunar og yfir til einkaaðila? Það hlyti að þurfa að byrja á að setja einhvern ramma utan um starfsemina, t.d. með sérstöku félagi sem tæki yfir þessi verkefni. Í fyrstu kynni hið opinbera að vera eini eða langstærsti hluthafinn en smám saman væri eðlilegt að það drægi sig út. Þetta væri eðlileg aðferðarfræði við að koma þeim verkefnum sem á hennar könnu eru út úr fyrirtækinu. Ljóst er þó að aðkoma hins opinbera að slíku félagi ætti að vera dvínandi í þeim skilningi að það ætti að minnka hlut sinn sem fyrst og koma sér út úr starfseminni. Aðkoma ríkisins væri fyrst og fremst til að koma félaginu á laggirnar. Í öllu falli ætti það ekki að gerast, sem virðist hafa komið upp hjá REI, að hið nýstofnaða félag fari allt í einu að fitna eins og púkinn á fjósbitanum fyrir tilstilli aukinna fjárveitinga inn í félagið. Það virðist þó vera nákvæmlega það sem gerðist þegar stjórn OR ákvað í september sl. að auka verulega við umfang starfseminnar og gera þar með á því ákveðna eðlisbreytingu.
Þau rök heyrast í umræðunni að stofnun REI til að byrja með hafi verið mistök. Engu að síður er vandséð hvaða aðrar leiðir hefði átt að fara við að koma verkefnum Orkuveitunnar á þessu sviði í afmarkaðan búning. Auðvitað má hugsa sér aðrar leiðir við að úthýsa þeim verkefnum sem opinberar stofnanir eða fyrirtæki hafa á höndum, t.d. með því að losa sig við alla þá starfsmenn sem hafa unnið í þessum verkefnum undanfarin ár eða skipa þeim að hætta alfarið að sinna því sem þeir hafa verið að sinna. En sú leið teldist seint vera sérstaklega skynsamleg því hið opinbera hafði, hvað sem allri hugmyndafræði líður, náð að búa til nokkur verðmæti í þessu verkefni. Þannig var því háttað með útrásarstarfsemi Orkuveitunnar, hún hafði skapað nokkur verðmæti og það þurfti enga spákúlu til að segja sér að á tímum loftslagsbreytinga og aukinnar meðvitundar stjórnvalda og almennings um hættur sem kunna að fylgja þeirri þróun, yrði þekking á sviði endurnýjanlegrar orku afar verðmæt. Þau verðmæti hafa verið byggð upp undanfarin ár og áratugi, m.a. af starfsmönnum Orkuveitunnar sem hafa þegið laun og nýtt starfsaðstöðu hjá fyrirtækinu. Það væru í raun mistök að reyna ekki að koma slíkri starfsemi í eðlilegt horf, með því að setja hana inn í sérstakt afmarkað félag og freista þess að auka verðmæti þess áður en hið opinbera drægi sig alfarið úr rekstri.
Svo er það aftur önnur spurning hve lengi borgin ætti að bíða með að selja sinn hlut í REI. Ætti að gera það strax eða ætti að bíða um sinn og sjá hvort gengi bréfanna hækki? Það felst mikil áhætta í því að bíða og með sömu rökum og að ríkið ætti ekki að standa í áhættufjárfestingum mætti segja að ríkið ætti almennt ekki að taka að sér hlutverk spákaupmanns á markaði sem tekur sjénsa og bíður eftir réttu tækifæri. Það eina sem við vitum um framtíðina er að við vitum ekki neitt um hana og það er ekki skynsamlegt til langframa að ætla sér að hanga á hlutabréfum í þeirri von að þau hækki og hækki.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021