Alþingi kom saman fyrir viku síðan. Umræður um fjárlagafrumvarpið 2008 voru fyrirferðarmiklar í síðustu viku eðli máls samkvæmt. Minna hefur farið fyrir hinum 67 þingmálum sem lögð hafa verið fram. Kastljósi fjölmiðlanna hefur skiljanlega frekar verið beint að ótrúlegri þátttöku OR í áhættufjárfestingum víða um heim. Önnur ástæða er sú að flest þingmálin eru æði óspennandi. Þó er nokkur mál sem vert er að gefa gaum að.
19 þingsályktunartillögur hafa verið lagðar fram. Flestar tillögurnar koma frá stjórnarandstöðuþingmönnum og fjalla um þeirra áherslumál eins og varðveislu Hólavallagarðs, fullvinnslu á fiski hér á landi og hlutdeild sveitarfélaga í skatttekjum.
Þá hafa 18 fyrirspurnir til ráðherra ríkisstjórnarinnar verið settar fram. Aftur er það stjórnarandstaðan sem lætur til sín taka. Skemmtilegasta spurning kemur frá Jóni Bjarnarsyni, þingmanni VG, en hann spyr umhverfisráðherra hvort farið hafi fram nýlega heildarúttekt á lífríki og vistkerfi Hvalfjarðar. Fleira áhugavert mætti tína til en alls engin þörf er á því.
Lagt hafur verið fram 31 frumvarp til laga. 5 af þessum lagafrumvörpum eru stjórnarfrumvörp og eru fjögur komin frá viðskiptaráðherra og eitt frá fjármálaráðherra, sjálft fjárlagafrumvarpið. Áður hefur verið fjallað um fjárlagafrumvarpið hér á Deiglunni. Jákvætt er að gert er ráð fyrir afgangi í frumvarpinu. Flest annað í tengslum við frumvarpið er gagnrýnisvert. Sem dæmi mætti nefna að óskiljanlegt er að ekki er gert ráð fyrir skattalækkunum og því svo haldið fram að skattalækkanir auki á þenslu. 48 milljarða króna útgjaldaaukning ríkisins milli ára hefur hins vegar enginn áhrif á þenslu í þjóðfélaginu að mati fjármálaráðherra!
Nokkur áhugaverð og góð frumvörp hafa þó verið lögð fram. Öll eru þau lögð fram af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Fyrsta ber að nefna frumvarp til breytingar á áfengis- og tóbakslögum þar sem lagt er til að einokun ríkisins á sölu með annað áfengi en sterkt verði afnuminn. Þetta frumvarp hefur verið lagt fram á síðustu fjórum þingum en ekki hlotið afgreiðslu. Tími er nú kominn til að þetta mál verði afgreitt sem lög frá Alþingi. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins er sérstaklega minntir á ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum.
Annað frumvarp sjálfstæðismanna, þeirra Péturs Blöndal, Sigurðar K Kristjánssonar og Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, er til fyrirmyndar. Frumvarpið gerir ráð fyrir að búnaðarmálagjaldið verði aflagt. Innheimta gjaldsins fellur inn í skattkerfi hins opinbera og er ekkert annað en forneskjulegur skattur á veltu einnar atvinnugreinar. Fleiri svona skattabanafrumvörp mættu gjarnan líta dagsins ljós. Frumvarp um afnám stimpilgjalds yrði t.d. vel þegið.
Þriðja frumvarpið sem vert er að nefna og brýnt er að verði samþykkt sem lög frá Alþingi er frumvarp 11 sjálfstæðismanna um að opinber birting og framlagning álagningar- og skattskráa landsmanna verði lögð af. Veigamestu rökin að baki frumvarpinu eru þau að birting álagningar- og skattskráa brýtur gegn rétti einstaklinga til friðhelgi einkalífsins. Löggjöf sem gerir ráð fyrir einkaskattrannsóknum borgaranna gegn hverjum öðrum er frekar ógeðfelld og verður að breyta.
Óskandi er að fleiri frumvörp eins og hér hafa verið nefnd verði lögð fram á yfirstandandi þingi og þau samþykkt. Hætta er hins vegar á að þingstörf verði með hefðbundnum hætti í vetur og stutt er í að yfir þingheim hellast afgreiðslufrumvörp frá ríkisstjórninni og þingmannafrumvörp mörg hver komast ekki að. Þá má reikna með að fyrirspurnum stjórnarandstöðu verði ekki stillt í hóf og fréttaflutningi af slíkum vinsældarsandkassaleik stjórnarandstöðu verði því síður stillt í hóf. En það er bara vika liðinn og ótímabært að vera of svartsýnn á framhaldið.
- Stjórnarhættir sjávarútvegsfyrirtækja - 26. maí 2021
- Dokkan og Ríkið - 18. febrúar 2021
- Villuljós og vinnuleit - 15. desember 2020