Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, hefur nýlega velt upp þeirri spurningu hvort ríkið eigi að sækjast eftir því að einkaaðili reisi fangelsi á Íslandi. Þetta er áhugaverð spurning sem snertir þá grundvallarspurningu: Hvað er æskilegt starfsvið hins opinbera? Á hið opinbera að reka fangelsi? Á það að reka spítala, slökkvilið, lögreglu og svo framvegis.
Á árum áður var talið eðlilegt að hið opinbera ræki ekki aðeins allt það sem er nefnt hér að ofan heldur einnig banka, prentsmiðju, útgerð, símafyrirtæki, áburðarverksmiðju, síldarbræðslur, sementsverksmiðju, slippstöð og ótal fleira. Að hið opinbera skuli hafa haft alla þessa hluti undir höndum hljómar hálf fáránlega í dag. En ef til vill mun núverandi fyrirkomulag hljóma fáránlega í eyrum komandi kynslóða.
Helstu rök þeirra sem tala fyrir frekari flutningi verkefna frá hinu opinbera til einkaaðila eru að einkaaðilar geti veitt þá þjónustu sem hið opinbera nú veitir á hagkvæmari hátt. Andmælendur þessara sjónarmiða eru oft ósammála hagkvæmnisrökunum. En þeir halda því einnig fram að einkarekstur leiði til lakari þjónustu.
Hagfræðingarnir Oliver Hart (Harvard), Andrei Shleifer (Harvard) og Robert Vishny (Chicago) hafa sýnt að þegar erfitt er að skilgreina fullkomnlega gæði ákveðinnar þjónustu þá hafa báðir þessir hópar líklega eitthvað til síns máls.* Þeir færa fyrir því rök að undir slíkum kringumstæðum hafi einkaaðili sterkari hvata bæði til þess að auka hagkvæmni og einnig til þess að lækka þjónustustig og að einkaaðilinn geti haft of sterka hvata til þess að auka hagkvæmni af því markmið hans er eingöngu að hámarka hagnað en stjórnvöldum (kjósendum) er annt um bæði hagkvæmni og þjónustustig.
Niðurstöður þeirra eru að þeim mun erfiðara sem það er að skilgreina gæði þjónustu í samningum við einkaaðila, þeim mun líklegra er að skynsamlegt sé að hið opinbera veiti þjónustuna sjálft.
* Hart, O., A. Shleifer og R. Vishny (1997): “The Proper Scope of Government: Theory and an Application to Prisons,” Quarterly Journal of Economics, 112(4), 1127-1161.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009