Velmegunarvandamál er hugtak sem oft skýtur upp kollinum í almennri umræðu á Íslandi. Uppgangur íslenska hagkerfisins fer varla framhjá neinum og skynsamlegar ráðstafanir, umbætur í ríkisrekstri og síðast en ekki síst framtak einkaaðila hefur orðið til þess að við erum nú á meðal ríkustu þjóða heims.
En það þýðir auðvitað ekki að öll vandamál okkar séu úr sögunni. Ýmis teikn eru á lofti í hagkerfinu um niðursveiflu. Gera má ráð fyrir að útflutningur eigi eftir að dragast eitthvað saman vegna niðurskurðar þorskkvótans, viðskiptahallinn er í hæstu hæðum og skuldir heimilanna aukast stöðugt, að því er virðist til að fjármagna einkaneyslu. Þrátt fyrir mjög háa stýrivexti og verðbólgu virðist ekkert lát á þenslunni sem einkennt hefur íslenskt hagkerfi síðustu misseri.
Í því ljósi er áhyggjuefni þegar ríkisútgjöld aukast eins og lagt er til í nýju fjárlagafrumvarpi og hefur verið reyndin í ríkisrekstrinum síðustu ár.
Þó að ríkisstjórnin státi af miklum afgangi í frumvarpinu verður ekki hjá því litið að afgangurinn er að mestu leyti, ef ekki öllu, skýrður með auknum skatttekjum. Það hefur því komið á daginn að umsvif ríkisins eru að aukast.
Auðvitað er víða þörf á auknum fjármunum til viðhalda öflugu velferðarkerfi og liggur beinast við að benda á einn stærsta lið ríkisútgjaldanna, heilbrigðismál. Svo virðist sem viðvarandi skortur sé á starfsfólki í umönnunarstörf og miðað við núverandi heilbrigðiskerfi verður ekki stoppað í það gat án þess að hækka laun. Framhjá því verður þó ekki litið að lítið hefur áunnist í því að gefa starfsmönnum heilbrigðisgeirans kost á því að njóta kosta einkaframtaksins sem myndi án efa lækka kostnað spítalanna og bæta kjör í heilbrigðisgeiranum. Vandamálum spítalanna virðist einungis hafa verið mætt með auknum fjármunum og lítið farið fyrir úrbótum sem stuðla að betri nýtingu þeirra peninga sem í þá er lagt.
Sá útgjaldaliður sem vekur þó mesta athygli og hækkar mest milli ára eru samgöngumál sem vaxa m.a. vegna mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar við niðurskurði þorskkvótans. Kvótaskerðingin var mikið áfall fyrir Íslendinga og sérstaklega slæm fyrir dreifðari byggðir landsins. Aðdáunarvert er að sjávarútvegsráðherra hafi tekið svo ábyrga afstöðu með langtímahagsmuni þjóðarinnar í huga og dregið úr þorskveiðum.
Lán er þó í óláni að grípa þurfti til þessara aðgerða á tímum þar sem allir vinnufærir einstaklingar í landinu geta fundið atvinnu. Atvinnuleysi er nánast ekki til staðar og þarf ekki að hafa áhyggjur af því að niðurskurðurinn auki það mikið.
Auðvitað væri æskilegt að allir gætu fundið sér atvinnu í sinni heimabyggð, en til þess að taka á móti nýjum tímum og breyttum atvinnuháttum verður vinnuafl þjóðarinnar að vera sveigjanlegt. Ríkið hefur ekki verið leiðandi í því að skapa atvinnu úti á landi og hvernig dettur nokkrum manni í hug að það geti orðið það í framtíðinni? Þrátt fyrir að það hafi verið byggt álver fyrir austan, og uppi séu áform um eitt eða tvö til viðbótar, er ólíklegt að áliðnaðurinn verði sú líflína landsbyggðarinnar sem margir stjórnmálamenn vona. Því er ólíklegt að mótvægisaðgerðirnar skili miklu til lengri tíma og sumar þeirra virðast jafnvel geta valdið skaða, ekki síst þegar ríkið neyðist til að taka frá stóran hluta vinnuafls til opinberra framkvæmda á meðan skortur er á fólki til einkaframkvæmda.
Að sjálfsögðu er ekki hægt að vera á móti því að hjálpa þeim misstu atvinnu sína í kjölfar kvótaskerðingarinnar, en því miður er ekki hægt að auknar vegaframkvæmdir úti á landi sé raunveruleg lausn og gæti í besta falli tafið flutning fólks á ný atvinnusvæði með tilheyrandi kostnaði.
Við stöndum frammi fyrir þeirri bláköldu staðreynd að á meðan hvirfilvindar einkaframtaksins þenja segl þjóðarskútunnar til hins ýtrasta stendur ríkisstjórnin í brúnni og gefur í. Á svona tímum ættum við að sjá ríkið draga úr útgjöldum og halda að sér höndum í stað þess að keppa beint við einkaaðila um vinnuafl og verkefni.
Án efa munu gefast tækifæri fyrir stjórnmálamenn til að gera hvað þeir geta til að blása lífi í hagkerfið og koma þjóðarskútunni á réttan kjöl í harðara árferði. Til þess að það verði hægt er nauðsynlegt bíða með ný verkefni, vera aflögufær og neyðast ekki til að skera niður ríkisútgjöld í niðursveiflu sem stofnað var til í góðæri
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021