Ungur maður, ung kona og barn þeirra, sem konan hélt í fangi sínu, voru skotin til bana í bíl sínum af einkennisklæddum byssumönnum um hábjartan dag í Írak. Eftir langvinna kúlnahríð var handsprengju hent inn í bílinn. Hún sprakk og tætti í sundur lík fjölskyldunnar ungu. Áfram hélt orrustan og talið er að allt að tuttugu manns hafi fallið í valinn áður en yfir lauk.
Þessi atburður varð í Bagdad þann 16. september síðastliðinn og hefur orðið tilefni mikillar umræðu um notkun bandarískra stjórnvalda á einkareknum öryggisfyrirtækjum í stríðsrekstrinum í Írak. Það eru nefnilega ekki bandarískir hermenn sem hleyptu af voðaskotunum að fjölskyldunni í bíl sínum heldur starfsmenn hins einkarekna verktakafyrirtækis Blackwater.
Blackwater er eitt af fjölmörgum verktakafyrirtækjum sem starfa við öryggisgæslu í Írak. En haldi einhver að í hugtakinu „öryggisgæsla“ felist eingöngu að rúnta um borgina á hvítum smábíl með vasaljós og GSM síma að vopni – eins og starfsmenn Securitas á Íslandi – þá fer sá villur vegar. Verktakarnir í Írak eru hermenn – í raun málaliðar – sem eru þrautþjálfaðir til þess að framkvæma hættulegar aðgerðir á nákvæmlega sama hátt og hermenn í hefðbundnum ríkisreknum herjum gera. Þeir eru þungvopnaðir og sagðir betur búnir og þjálfaðir heldur en flestir hermenn Bandaríkjanna í Írak. Enda hafa þessir einkaherir meðal annars það verkefni að gæta öryggis erindreka Bandaríkjastjórnar á íraskri grund – en þeir eru einmitt eftirsóttasta skotmark andspyrnumanna gegn hernámi landsins.
Það segir auðvitað ýmislegt að sjálf Bandaríkjastjórn skuli ekki treysta her sínum fyrir erfiðustu verkefnum í stríðinu. Helstu talsmenn einkarekstrar gætu hugsanlega bent á þetta sem enn eina sönnun á yfirburði einkarekstrar yfir hinn opinbera. Það sé betra að einkafyrirtæki á borð við Blackwater, Zapata, Paratus og Aegis taki við af hinum gamaldags ríkisreknu herjum (já – þessi fyrirtæki heita öll nöfnum sem gætu allt eins verið heiti á Steven Seagal myndum).
En getur verið að hámarksafköst séu – aldrei þessu vant – ekki réttur mælikvarði þegar ákveða þarf með hvaða hætti eðlilegt er að haga einkarétti ríkisvalds til þess að beita ofbeldi? Það hefur komið í ljós að algjör óvissa ríkir um réttarstöðu þeirra verktaka sem hafa það verk með höndum að taka þátt í stríði og skjóta óvini og stundum óbreytta borgara. Sögur af ógeðfelldri og glæpsamlegri hegðun starfsmanna málaliðaherja í Írak ganga fjöllum hærra. Meðal annars munu þeir hafa beint vopnum sínum að bandaríska hernum. Og – það sem er mun alvarlegra – líkur eru til þess að sumir þessara málaliða hafi farið yfirum og myrt almenna borgara í einhvers konar sjúklegum skemmtitilgangi.
Ef þetta reynist rétt vaknar sú spurning hvað hægt sé að gera. Málaliðarnir virðast standa utan alls réttar. Þeir lúta ekki amerískum herlögum. Þeir lúta ekki íröskum lögum – og ef þeir eru sóttir til saka í alþjóðadómstóli mun það ekki hafa áhrif þar sem Bandaríkin viðurkenna ekki lögsögu slíkra stofnana og Írakar sjálfir drógu umsókn sína um aðild að Stríðsglæpadómstólnum til baka árið 2005, að sögn vegna þrýstings frá Bandaríkjunum. Mennirnir sem ganga um þungvopnaðir í Írak standa því ofar lögum og rétti.
Þetta er óþolandi ástand. Engin ákvörðun stjórnvalda er til alvarlegri en sú að fara í stríð og fórna lífum eigin þjóðar og annarra fyrir málstað. Það eru góðar ástæður til þess að tryggja að slíkum ákvörðunum fylgi öll sú lýðræðislega og sakaábyrgð sem hugsast má. Og það eru góð rök fyrir því að draga sem mest úr getu stjórnvalda til þess að beita þeim meðölum. En ef stjórnvöld geta einfaldlega skýlt sér á bak við „verktaka“ – rétt eins og um væri að ræða auglýsingahönnuði eða veisluþjónustu – og þannig háð stríð utan dóms, laga og lýðræðis – þá er illa komið fyrir okkur.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021