Fjölmiðlar flytja fréttir. Það eru margir fjölmiðlar á Íslandi og orðræðan hefur verið á þá leið að fjölmiðlamarkaðurinn sé full mettur og ekki sé pláss fyrir fleiri miðla. Samt er sjaldan nokkuð í fréttum í þessum ónýtu miðlum. Miðlarnir keppast um að blogga og slúðra, nokkuð sem flestir Íslendingar eru færir um.
Fjölmiðlamarkaðurinn hefur breyst mikið á síðustu árum, reyndar hefur hann sjaldan verið í einhverri kyrrstöðu, en ákveðin eðlisbreyting í ranga átt hefur átt sér stað að undanförnu.
Orðið frétt, eða news á ensku, er fyrir mér eitthvað nýtt. Einfalt dæmi um frétt er því breyting á núverandi ástandi eins og það er komið stríð á Selfossi. Ef réttir eru flóknar, eins og til dæmis stríðsfréttir geta verið, þarfnast þær oft fréttaskýringa sem rekja atburðarásina og kafa djúpt ofaní orsök og afleiðingu atburðarins. Á bak við frétt er einhver sem segir frá og einhver sem skrifar söguna, báðir aðilar eiga að vera nafngreindir og taka ábyrgð á orðum sínum.
Að blogga, fyrir mér, er ekki það sama og segja fréttir. Þar er talað án ábyrgðar því þú þarft ekki einu sinni að vera til í kjötheimum til þess að blogga. Blogg er vettvangur þar sem einstaklingar eða hópar geta gert hvað sem er, til dæmis segja sögur og slúðra um náungann.
Hægt er að hafa ýmsar skoðanir á bloggi og ætla ég svo sem ekki að dæma það hér að öðru leit en því að ég held að það blogg æði sem greip landann fyrir um tveimur árum síðan er eins og önnur æði, dæmt til þess að brenna út í núverandi mynd. Það virðist þó vera að dagblöðin ætli að halda þessari blogg menningu gangandi.
Í nokkur ár hefur verið ákveðin gæða munur á fjölmiðlunum á Íslandi. Morgunblaðið, með öllum sínum ómannlegheitum, hefur haft virðingu þeirra sem eldri eru en 50 ára. DV hefur ekki haft neina virðingu. Sjónvarpið alltaf eitthvað hálf misheppnað, flækt í viðjar ríkisvaldsins en að reyna að vera æðislega hipp og kúl en samt um leið að sinna menningarlegu hlutverki sínu og vera fyrir ömmu og afa sem eru voða lítið hipp og kúl. Fréttablaðið hefur verið wannabe Moggi. Stöð tvö reynir svo að vera villtari en Sjónvarpið, gefur skít í menningu og reynir að fá mannlegu hliðina inn í fréttirnar. Blaðið eitthvað að klóra í einhverja bakka en virðist alltaf missa takið á bakkanum um leið.
Það sem hefur hinsvegar breyst er að allir næstum allir miðlarnir hafa hrapað niður þessa goggunar- eða gæðaröð. Það er svo bloggið, sem er á botninum, hafi sogað miðlana niður í svaðið með sér.
Það er ekki frétt ef einhver heyrir einhvern segja eitthvað við einhvern eða um einhvern. Það er kjaftasaga eða blogg og enginn sómasamlegur fjölmiðill birtir slíkt og dulbúið sem frétt. Þetta er í hæsta lægi óunnið fréttaefni. Ef fréttamaðurinn hefur engan til þess að segja fréttina og er ekki tilbúinn til þess að setja nafnið sitt við hana er hann líklega að blogga um eitthvað sem ekki er sæmandi að birta á prenti. Það er ekki nokkrum prentmiðli sæmandi að blogga um fólk og atburði án ábyrgðar.
Það er ekki Kastljósinu heldur ekki sæmandi að blogga um að eigandi bakarís segi að viðskiptavinum hafi fækkað eftir að þeldökkt afgreiðslufólk hafi tekið til starfa í bakaríinu. Þessu var varpað fram á fordómafullan hátt og án ábyrgðar í Kastljósinu í vikunni. Ekki voru nein gögn eða tölur sem sýndu þetta og sönnuðu og Kastljósið féll með núll í einkunn á aðferðafræði prófinu með því að hleypa þessu í loftið eins og frétt á meðan þetta er hreint og klárt blogg. Þessi frétt minnti meira á það hvernig DV var hérna fyrir einhverju síðan en á það hvernig trúverðugur fjölmiðill á að starfa.
Ábyrgðarlaust blogg á ekki heima á prenti á forstofugólfi landsmanna. Fjölmiðlar sem vilja láta taka sig alvarlega eiga að flytja ábyrgar og fordómalausar fréttir og íslenskir neytendur fjölmiðla eiga ekki að sætta sig við það láta óábyrgan fréttaflutning dynja á sér.
- Hoppandi beljur að vori - 17. maí 2020
- Eftir það var ekkert eins og áður - 4. apríl 2020
- Velkomin í martröð úthverfanna - 20. mars 2020