Ýmsar hugmyndir hafa komið fram að undanförnu um hvernig bregðast megi við „ástandinu í miðbænum“. Ein þeirra er að fjölga öryggismyndavélum í miðbænum (sem ég kýs að kalla eftirlitsmyndavélar). Það sem er sláandi í þessari umræðu, er að afskaplega fáir virðast hafa nokkuð við það að athuga að eftirlitsmyndavélum sé fjölgað. Þá virðast sömuleiðis afskaplega fáir hafa nokkuð við það að athuga að leitað hafi verið á 100 manns í miðbæ Reykjavíkur fyrir stuttu með þeim árangri að fíkniefni fundust á sex og vopn á tveimur.
Það er afskaplega auðvelt að réttlæta fjölgun eftirlitsmyndavéla í miðbænum með því að öryggi hins almenna borgara verði þar með meira. En hvers vegna höfum við þá ekki bara myndavélar á hverju húsi eða að minnsta kosti á hverju horni? Verðum við þá ekki enn öruggari?
Sömuleiðis gæti lögreglan leitað á öllum sem koma í miðbæinn. Af hverju er allt í lagi að leita á 100 (ef það er þá allt í lagi) en ekki öllum?
Það virðist einhvern veginn svo lítið mál að setja upp eina og eina myndavél í viðbót eða leita á einum og einum í viðbót. Þó við treystum ríkisvaldinu hér og nú til að fara með þær upplýsingar sem safnað er um okkur á degi hverjum og lögreglunni til að misbeita ekki valdi sínu um of, þá þýðir það ekki að alltaf megi ganga lengra og lengra.
Það er virðingin fyrir mannréttindum sem gerir okkur að siðmenntuðu þjóðfélagi.
Það er hluti þess að búa í frjálsu þjóðfélagi þar sem mannréttindi eru virt að geta gengið um götur bæjarins án þess að eiga það á hættu að lögreglan leiti á þér af minnsta tilefni. Kostnaðurinn við frelsið er hins vegar að inn á milli eru svartir sauðir sem kunna að gera eitthvað af sér. Þeir verða aldrei allir teknir úr umferð.
Það má líka þessu við þau grundvallarréttindi að enginn skal teljast sekur fyrr en sekt hans er sönnuð. Við viljum frekar að 10 sekir gangi um götur bæjarins en að einn saklaus sitji í fangelsi. Sömuleiðis viljum við frekar að 10 manns séu með fíkniefni í miðbænum en að leitað sé á öllum.
Séu menn ekki sammála þessu þarf að endurskoða þær grundvallarhugmyndir sem gera okkur að því frjálsa þjóðfélagi sem við erum í dag, þar sem mannréttindi eru í heiðri höfð. Grunninn sem okkur finnst sjálfsagður í okkar litla þjóðfélagi í dag, en var það ekki fyrir nokkrum áratugum síðan og er það ekki víða um heiminn.
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020