Hræðslan við að opna kjaftinn

Þegar það kemur að því að þú þarft að fara til tannlæknis birtist ótti sem maður man eftir frá því maður var lítill, „ætli þetta verði vont? Hvað ætli hann þurfi að gera við mig? Má ég ekki bara sleppa við þetta?“ Nú þegar maður er orðinn eldri kemur nýr ótti „hvað ætli þetta kosti í þetta skiptið?”

Nú veit ég ekki hvað það er en af einhverjum ástæðum er hvergi auglýst hvert verð tannlækna er. Þú verður bara að setjast í stólinn, opna kjaftinn og vona það besta. Samkvæmt lögfræðingi Persónuverndar getur hann ekki séð að það sé bannað að gefa upp upplýsingar um verð á ákveðinni þjónustu. Hvers vegna er þetta þá ekki opinbert? Tryggingarstofnun ríkisins hefur ekki viljað setja þetta á sinn vef vegna þess að hún hefur talið þetta vera á gráu svæði en hún ætlar nú að kanna hvort stofnunni sé heimilt að veita þessar upplýsingar.

Ég hafði alltaf talið að það væri vilji tannlækna að hafa þetta opinbert, þeir viljað að fólk gæti valið sér tannlækni eftir að hafa safnað að sér einhverjum upplýsingum. Í siðareglum Tannlæknafélags Íslands stendur meira að segja í 13.gr. Tannlæknir virðir rétt almennings til að velja sér tannlækni og skal ekki taka þátt í að takmarka frelsi eða getu fólks til að velja sér tannlækni. Því brá mér aldeilis þegar ég las orð formanns tannlæknasambands Íslands Sigurjón Benediktsson í Blaðinu á laugardaginn þar sem hann segir að allt samkeppnisumhverfi í tannlækningum muni raskast veiti Tryggingarstofnun upplýsingar um verð.

Nú spyr ég mig bara, raskast allt samkeppnisumhverfi ef upplýsingar eru uppi á borðinu um hvað allt kostar? Hvernig er það hægt? Samkeppni er ekki til staðar ef fólk getur ekki tekið upplýsta ákvörðun. Það sem gerist ef verðið er leynt er að tannlæknir getur rukkað það sem honum sýnist. Eftir að þú hefur sest í stólinn og opnar munninn ertu í raun á hans valdi. Þú veist ekki hvað hann er að gera upp í munninum á þér, hann lagar, skoðar það sem þarf og það kostar einhverja upphæð. Þú sem neytandi varst ekki með neinar hugmyndir um verð áður en þú settist í stólinn og veist bara þegar þú ert enn dofinn eftir deyfinguna að þú þarft að borga einhverja upphæð. Þessi orð Sigurjóns formanns TFÍ eru til varnar góðri stöðu tannlækna á Íslandi.

Svíar hafa nú ákveðið að birta verð tannlækna á netinu svo að neytendur geti borið saman verð og hvet ég Tryggingarstofnun Íslands til að fylgja fordæmi Svía og birta verð íslenskra tannlækna hið snarasta.

Heimildir:
Blaðið laugardaginn 22. september 2007
Tannlæknafélag Íslands http://www.tannsi.is/

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.