Ísland féll um tvö sæti milli ára á frelsislista Fraser-stofnunarinnar í ár, þ.e. úr því níunda í það ellefta en Fraser-stofnunin ber saman ýmsa þætti í þjóðfélagsgerð ólíkra ríkja og kynnir svo niðurstöðurnar árlega. Þrátt fyrir að falla um tvö sæti nú hefur gengi Íslands á þessum lista undanfarna áratugi verið gott og sagt ákveðna sögu um þær breytingar sem orðið hafa hér á landi. Árið 1980 vorum við í 64. sæti listans, árið 1990 í 26. sæti og fórum upp í 9. sæti í fyrra. Þetta er í samræmi við þær jákvæðu breytingar á viðskiptalífinu sem ráðist hefur verið í. En hvernig skyldi standa á því að Ísland falli nú um tvö sæti á listanum?
Staða hverrar þjóðar á listanum byggir á fimm þáttum; umfangi ríkisvaldsins (þ.e. ríkisútgjöldum, sköttum og fjölda ríkisfyrirtækja), lagaumhverfi og vernd eignarréttarins, aðgengi að traustu fjármagni, frelsi í alþjóðaviðskiptum og reglum um lána- og vinnumarkað og viðskiptalífið.
Lægri einkunn en Norðurlöndin
Það sem fyrst og fremst dregur Ísland niður er einkunn okkar fyrir frelsi í alþjóðaviðskiptum, eða öllu heldur skort á frelsi. Í samanburði við aðrar þjóðir lendir Ísland í 108. sæti með einkunnina 5,8. Á þessum mælikvarða erum við miklu neðar á listanum en flestar þær þjóðir sem við berum okkur saman við. Þannig eru t.d. Danir í 17. sæti, Finnar í 24. sæti og Svíar í 18. sæti. Þessar þjóðir eru með einkunnina 7.5 – 7.7.
Sé rýnt enn frekar í þessar niðurstöður kemur í ljós að einkunn fyrir frammistöðu þjóða í alþjóðaviðskiptum byggir á nokkrum undirmælikvörðum. Sá þáttur sem dregur okkur hvað mest niður og gefur okkur raunar einkunnina núll, er flækjustig tollakerfisins. Þessi mælikvarði leggur ekki mat á hve háir tollarnir eru, heldur hversu margbreytilegir og flóknir þeir eru. Því meira sem flækjustigið er, þeim mun lægri er einkunnin. Miðað við einkunnina eru íslenskir tollar augljóslega allt annað en einfaldir.
Tollskrá með 97 undirköflum
Sé íslenska tollskráin skoðuð (eins og maður gerir) er ekki laust við að þessi afstaða Fraser-stofnunarinnar verði skiljanlegri. Skráin yfir það hvaða tolla við borgum telur hvorki meira né minna en 21 flokk með 97 undirköflum. Hver undirkafli hefur svo nokkur undirnúmer og hvert undirnúmer er svo með nokkur flokkunaratriði. Þegar litið er yfir skrána er ekki laust við að sú tilfinning vakni að höfundar hennar séu einhvers konar ofurmenni í skipulagi sem hafi haft það markmið að að skilgreina allt sem hægt sé að flytja inn til landsins.
Þannig myndi sá sem vildi flytja inn skó t.d. þurfa að fletta upp flokki XXII (Skófatnaður, höfuðfatnaður, regnhlífar, sólhlífar, göngustafir, setustafir, svipur, keyri og hlutar til þeirra; unnar fjaðrir og vörur úr þeim; gerviblóm; vörur úr mannshári), velja kafla nr. 64 (Skófatnaður, legghlífar og þess háttar; hlutar af þess konar vörum) og velja svo undirnúmerið 6401 (Vatnsþéttur skófatnaður með ytri sóla og yfirhluta úr gúmmíi eða plasti, enda sé yfirhlutinn hvorki festur á sólann með spori, hnoðaður á, negldur, skrúfaður, tappaður á né með áþekkri aðferð) og svo loks yrði flokkur 6401.1000 ef til vill fyrir valinu (Skófatnaður með táhlíf úr málmi) en þar kemur fram að almennur tollur af þess konar skófatnaði er 15%. Nema hvað?
Er þetta armbandsúr sjálftrekt?
Og ef einhver vildi flytja inn armbandsúr, yrði sá hinn sami líka að fara í gegnum tollskrána til að kanna hvað hann ætti að borga háan toll. Þá yrði að fletta upp flokki XVIII (Áhöld og tækjabúnaður til optískra nota, ljósmyndunar, kvikmyndunar, mælinga, prófunar, nákvæmnivinnu, lyflækninga eða skurðlækninga; klukkur og úr; hljóðfæri; hlutar og fylgihlutir til þeirra) og velja því næst 91. kafla (Klukkur og úr og hlutar til þeirra) og því næst yrði fyrir valinu númerið 9101 (Armbandsúr, vasaúr og önnur úr, þar með talin skeiðúr, með kassa úr góðmálmi eða málmi klæddum góðmálmi). Ef umrætt úr væri svo sjálftrekt yrði númer 9101.2100 (Sjálftrekt) valið en þar kemur fram að almennur tollur sé 0%!
Með öðrum orðum var öll þessi flokkunarvinna til þess eins að kveða á um að það væri enginn tollur af sjálftrektum úrum. Kannski betra samt að hafa flokkinn til staðar, svona ef þannig vildi til að einhver fyndi sterka þörf hjá sér til að hækka tolla á sjálftrekt armbandsúr.
Veltum einu fyrir okkur. Ef alþjóðaviðskipti hefðu verið fundin upp í dag, hvernig yrði tekið í tillögu um að leggja á allan innflutning til landsins sérstakt gjald, toll, sem almenningur geti kynnt sér í rafrænni tollskrá upp á 97 kafla með nokkur hundruð undirköflum, sem kveða á um misháa tollprósentu fyrir ólíkar vörur? Trúlega ekki mjög vel.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021