Landbúnaðarkerfið á Íslandi hefur löngum verið í umræðunni og sýnist sitt hverjum. Landbúnaður hefur minnkað verulega í umfangi hvað varðar framlag til landsframleiðslu en byggist það frekar á gleðilegri þróun í átt til fjölbreytni í atvinnulífi, mun fremur en minnkandi framleiðslu. Hagræðing hefur verið gífurleg í uppbyggingu og stækkun búa og tæknivæðing í samræmi við það.
Fyrir stuttu var kynnt ákvörðun Mjólkursamsölunnar um að leggja niður mjólkurbúið á Egilsstöðum og að alla framleidda mjólk á því svæði skyldi flytja á Akureyri til vinnslu. Fyrirtækið Mjólka hefur lýst yfir áhuga á að setja upp starfsstöð sína á Egilsstöðum og er það ánægjulegt að fyrirtæki sem hefur ekki í neina ríkissjóði að sækja, skuli sýna heimaaðilum þann stuðning að vilja leggja í það verkefni..
Fyrir margt löngu voru settar fram hugmyndir um að landið skyldi skiptast niður í ákveðin framleiðslusvæði í landbúnaði, og þá skyldi taka mið af landkostum hvers svæðis fyrir sig. Þessi svæði skiptust niður í samræmi við núverandi landshlutaskiptingu, þe.a.s. Suðurland, Austurland, Norðurland, Vesturland og Vestfirði.
Miðað við þessa skiptingu skyldu svo framleiðendur einbeita sér að þeirri framleiðslu er hentaði hvað best á þeim svæðum. Sem dæmi skyldi mjólkurframleiðsla fara fram á Suður-og mið Norðurlandi þar sem eru góðar aðstæður til ræktunar og fjarlægðir til úrvinnslu eru hvað stystar. Á öðrum svæðum skyldi nýta þann landkost sem væri fyrir hendi til sauðfjárræktunar og annarrar framleiðslu sem getur leyft sér að hafa fjalllent landslag og harðbýlli svæði með tilliti til samgangna.
Ástæða þess að þetta er rifjað upp er að nú virðist sem að sú staða sé að koma upp að stefnan sé tekin á þetta tiltekna fyrirkomulag. Mjólkurbú Flóamanna er staðsett á Selfossi, í hjarta Suðurlandsundirlendis. Á Akureyri er einnig öflugt mjólkurbú sem annar eftir þessar breytingar einnig Austurlandi.
Sem niðurstaða hlýtur að teljast líklegt að þessar breytingar séu varfærin spor í átt til þess að færa okkar landbúnað til þess horfs sem gerist í nágrannalöndum. Að stefnan sé sett á að hagræði sé náð með skipulagsbreytingum til að takast á við mögulegan innflutning, sé hann á næsta leyti. Það hlýtur aftur á móti að teljast furðulegt að vissar greinar innan landbúnaðarins séu keyrðar áfram á þeirri styrkjamenningu sem ríkir en á meðan eru aðrar greinar eru algjörlega óháðar ríkisstyrkjum og hafa sýnt að eru fullfærar um að spjara sig sem slíkar. Réttasta leiðin að mati pistlahöfundar til enn frekari hagræðingar hlýtur að vera að allur landbúnaður færist til þess horfs.
- Hækkandi matvælaverð - 15. júní 2008
- Jeg laver Øl– Lífsreynslusaga - 20. nóvember 2007
- Í upphafi skal endinn hugsa - 26. október 2007