Á dögunum kom Stefán Eiríksson lögreglustjóri fram í Kastljósi Ríkisútvarpsins og sagði að eitthvað yrði undan að láta ef opnunartíma skemmtistaða yrði ekki breytt. Fólk myndi hreinlega flytja úr miðbænum ef kvörtunum íbúa yrði ekki sinnt og farið að þessum kröfum þeirra.
Nú veit ég ekki hvað Stefán hefur fyrir sér í þessu en það má væntanlega slá því föstu að hann hefur ekki haft fasteignaverð og þróun þess til hliðsjónar. Í gríðarlegri hækkun fasteignaverðs síðustu ára hefur miðbærinn verið í fararbroddi og fasteignaverð þar hækkað meira en á öðrum svæðum. Þá þarf ekki að vísa til ofurverðs á borð við það sem nefnt hefur verið í tengslum við nýjar íbúðir í Skuggahverfi, heldur á þetta jafnt við um gamlar kytrur.
Það er því umhugsunaratriði fyrir greiningardeild lögreglunnar hvaða hagfræðilegu áhrif aðgerðir þeirra hafa og hvort enn sé á fasteignaverðið bætandi. Einhverjir teldu það hugsanlega til helst til góðs ef meint ástand í miðbænum yrði til þess að slá á þessa hækkun sem að margra mati hefur verið fram úr hófi.
Þessi orð Stefáns hljóta að dæma sig sjálf og eru væntanlega tilraun til frekari réttlætingar á harkalegum aðgerðum lögreglu í miðbænum. Sögur af aðförum og meðferð á sumum hinna handteknu eru með þvílíkum eindæmum að ætla mætti að meiri ástæða væri til að hræðast lögregluna en svæsnustu slagsmálahunda. Kannski það sé verið að auka fælingarmátt lögreglunnar til að hræða fólk úr miðbænum.
Flestir vita og hafa ágæta sálarró yfir því að miðbæjarlífinu fylgir ónæði um helgar. Þrátt fyrir þessa vitneskju hefur fasteignaverð þar hækkað umfram aðra staði. Það bætti mjög ástandið í miðbænum þegar opnunartími skemmtilstaða var rýmkaður og því sérstakar þessar hugmyndir um afturhald til frekari hafta. Það er líka áhugavert að það meinta aukna ónæði sem rætt er um er bein afleiðing úthýsingar reykingafólks. Þannig vilja laganna verðir nú leysa vanda sem sprottinn er með frekari lagasetningu, með frekari laga- og reglnasetningu og mannfjöldastjórnun. Atvinnuskapandi fyrir þá, sem hlýtur að vera gott.
Það er fullharkalegt að seta fólk í járn fyrir að henda rusli í götu eða míga á vegg, sektir ættu að duga til að kenna flestum að gæta sín í þeim efnum. Það er líka blóðugt að sjá skattpeningum varið til að greiða sérsveitarmönnum til að handtaka venjulega borgara fyrir svo smávægileg brot. Í mínum huga eru þessar aðgerðir og hugmyndir varhugaverðar. Borgararnir eiga aldrei að sitja hjá þegar embættismenn gera sig líklega til að taka sér of mikil völd.
- Línuleg menntun er liðin tíð - 31. mars 2021
- Afstæði á tímum Covid - 25. febrúar 2021
- Auður og afl og hús og verðtrygging - 30. janúar 2021