Viðeyjarstjórn? Seyðisfjarðarstjórn? Viðreisnarstjórn eða Samstöðustjórn? Hvað mun nýja SUS stjórnin verða kölluð?
Um helgina var kosin ný stjórn í Sambandi ungra sjálfstæðismanna á sambandsþingi sem haldið var á Seyðisfirði. Þórlindur Kjartansson hlaut glæsilega kosningu í embætti formanns og Teitur Björn Einarsson var kjörinn fyrsti varaformaður með miklum meirihluta atkvæða.
Flestar ríkisstjórnir Íslands hafa hlotið nöfn eða í það minnsta viðurnefni og það var mikið í deiglunni rétt eftir að núverandi ríkisstjórn var mynduð hvaða viðurnefni hún fengi. Ég vil leyfa mér að lyfta nýrri stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna upp á álíka plan og ríkisstjórninni og gefa henni viðurnefnið Samstöðustjórnin.
Þó að sjálfstæðismenn séu sameinaðir útávið hafa ungir sjálfstæðismenn hafa lengi skipst í fylkingar og deilt innbyrðis um menn og málefni. Þegar deilan um menn er orðin svo hörð að lítið tóm gefst fyrir rökræður um málefnin milli verður að stokka upp og endurskoða stöðuna svo að orkan fari í það að bæta málefnastöðu okkar í stað þess að þrasa um menn eða titla. Ungliðastarf Sjálfstæðisflokksins á að vera opið þeim sem áhuga hafa og vilja starfa innan flokksins óháð því hvaða fylkingu þeir tilheyra.
Margt gott hefur reyndar komið út úr þessum deilum ungliðahreyfingarinnar og gott starf hefur verið unnið síðustu ár á þessum vetfangi. Til dæmis kunna ungir sjálfstæðismenn það manna best að fara í kosningabaráttu og sannaðist það í síðustu Alþingiskosningum þegar ungir sjálfstæðismenn báru hitann og þungan af því sem gert var í kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins.
Víðtæk sátt hefur náðst um þessa nýju stjórn sambands ungra sjálfstæðismanna, sem Þórlindur Kjartansson leiðir, en í henni eru stjórnarmenn sem áður hafa verið í sitthvorri fylkingunni og deilt sín á milli. Það er kominn tími til að ungir sjálfstæðismenn hætti í valdabaráttu, titlatogi eða pissu-keppni í frjálshyggju, eins og einn ungur sjálfstæðismaður orðaði það í ræðustól á þinginu um helgina, og fari að vinna saman og takast á um málefni svo þeir haldi áfram að vera skrefinu á undan öðrum ungliðahreyfingum landsins.
Ég er ein af þeim sem kosinn var í þessa nýju Samstöðustjórn og hlakka til að vinna með öllum meðlimum nýju stjórnarinnar hvort sem þeir áður tilheyrðu einhverju öðru liði eða ekki.
- Hoppandi beljur að vori - 17. maí 2020
- Eftir það var ekkert eins og áður - 4. apríl 2020
- Velkomin í martröð úthverfanna - 20. mars 2020