Fólk með hugmyndir er skemmtilegt og það er allt of lítið af því. Þær hugmyndir sem Viðskiptaráð afhenti nokkrum ráðherrum nýrrar ríkisstjórnar á 90 ára afmæli ráðsins í fyrradag eru fyrir margra sakir áhugaverðar. Það væri vissulega frábært ef umsvif hins opinbera væri föst og þekkt stærð. Svoleiðis er það því miður ekki – umvif þess aukast hraðar en góðu hófi gegnir. Aðhald í ríkisrekstri er því ekki aðeins heppilegt. Það er nauðsynlegt.
Grófu línurnar í ríkisrekstri hafa verið nokkuð skýrar í þrjú kjörtímabil: Lægri skattar, minni ríkisumsvif og endurskipulagning regluverks hins opinbera en það er mikilvægt að láta ekki deigan síga. Það væri að æra óstöðugan að gera tillögum Viðskiptaráðs ítarleg skil en hins vegar er rétt að draga fram þær allra bestu.
Þegar fjármálaráðherra var inntur á afmælisfundi ráðsins eftir því hvaða tillaga stæði uppúr að hans mati sagði hann umsvifalaust að hugmynd um að draga úr umsvifum hins opinbera um fimmtung væri alls engin draumsýn. Í mínum huga eru það umtalsverð tíðindi að fjármálaráðherra segi á opinberum vettvangi að hann telji það góða hugmynd að draga úr umsvifum hins opinbera um fimmtung. Og það er virðingarvert.
Ef draga á úr umsvifum hins opinbera þá eru tvær leiðir greiðari en aðrar og þær eru náskyldar. Sú fyrsta er vitaskuld að draga úr tekjum ríkisins og mæta tekjuniðurskurði með því að draga úr þjónustu ríkisins í framhaldinu. Þótt dregið verði úr umsvifum ríkisins er ekki þar með sagt að það muni draga úr umsvifum í hagkerfinu. Þvert á móti. Einkaaðilar munu vonandi koma sterkir inn á þann markað sem ríkið dregur sig út af.
Niðurstaðan verður sú að sama þjónustustig verður í landinu, eini munurinn er að sá greiðir fyrir þjónustuna sem hana nýtir. Fair play í mínum huga.
Annar angi af sama meiði hlýtur að vera sú eðlilega krafa að afnema reglur um lágmarksútsvar sveitarfélaga. Eins og sakir standa er sveitarfélögum meinað að lækka útsvarsprósentu af skattstofni einstaklinga niður fyrir 11,24%. Já, þeim er bannað að heimta lægri útsvarsprósentu! Það er öllum hollt að kynna sér þróun útsvars og tekjuskattsprósentu ríkisins – þar er öfug þróun sem kalla má öfugþróun. Útsvarsprósentan hækkar en tekjuskattsprósenta ríkisins lækkar.
Þróun helstu lykilstærða 2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007
Hámarksútsvarsprósenta 12,70% 13,03% 13,03% 13,03% 13,03% 13,03% 13,03%
Lágmarksútsvarsprósenta 11,24% 11,24% 11,24% 11,24% 11,24% 11,24% 11,24%
Vegið meðaltal útsvarsprósentu 12,68% 12,79% 12,80% 12,83% 12,98% 12,97% 12,97%
Tekjuskattsprósenta ríkis 26,08% 25,75% 25,75% 25,75% 24,75% 23,75% 22,75%
Samtals innheimtuhlutfall 38,76% 38,54% 38,55% 38,58% 37,73% 36,72% 35,72%
Auðvitað eru boð og bönn af þessum toga eins og lélegur brandari í Orvelskri martröð. Með því að afnema reglur um lágmarksútsvar verður sveitarfélögum í alvöru gefinn kostur á að keppa um íbúa með því að bjóða afar mismunandi útsvarsprósentu og þar af leiðandi breitt bil í tekjuskatti einstaklinga.
Þetta mun hafa það í för með sér að þeir sem vilja enga samfélagaslega þjónustu (t.d. ungir karlmenn á þrítugsaldri) geta valið að búa í sveitarfélagi sem veitir lágmarksþjónustu en þeir sem vilja mikla samneyslu geta búið í sveitarfélagi þar sem margfalt meira er fjármagnað af sameiginlegum sjóðum.
Ríkisstjórnin á næstu leiki.
Hraðskák er vel þegin.
- Vonin og óttinn - 20. október 2008
- Ný ríkisstjórn á næstu 90 leiki - 19. september 2007
- Launaskrið á Kalkofnsvegi er gott mál - 12. júlí 2007