Fyrir tæpu ári síðan hlaut Háskólinn í Bremen stærsta fjárframlag úr höndum einkaaðila í sögu Þýskalands. Upphæðin var 250 milljónir dollarar og kom úr höndum þýsks auðjöfurs sem hefur lengst af alið manninn á Englandi. Þótt hann hefði numið við Hamborg og síðar Stanford ákvað Klaus J. Jacobs að láta þennan unga háskóla í fæðingarborg sinni njóta góðs af árangri sínum.
Ástæðan? Jú, Háskólinn í Bremen er eini alhiða háskólinn í Þýskalandi sem rekinn er af einkaaðilum og fjármagnaður með frjálsum framlögum og skólagjöldum einvörðungu. Þennan skóla sér Jacobs fyrir sér hafa það sem til þarf til að varpa þýsku háskólasamfélagi inn í 21. öldina og koma þeim á ný meðal hinna fremstu í heiminum í dag.
Jacobs – sem auðgaðist í kaffi- og súkkulaðiiðnaðinum – segist vona að gjöf hans setji fordæmi í Þýskalandi og meginlandi Evrópu, þar sem lunginn af háskólunum er ríkisrekinn og stendur hinum einkareknu háskólum Bandaríkjanna langt að baki bæði hvað varðar gæði og fjárframlög. Þýskaland ver rúmu einu prósenti af landsframleiðslu í æðri menntun á meðan sama hlutfall í Bandaríkjunum er 2,6%. Hann segir að það sé mikill auður í höndum einkaaðila og fyrirtækja í Þýskalandi, og hann vilji gjarnan sjá þann auð fara meira inn í þekkingarstofnanir (New York Times 8. nóv. 2006).
Hér á Íslandi átti sér stað nú nýverið mjög svipaður viðburður þegar Róbert Wessman, forstjóri Actavis, ákvað að leggja fram milljarð króna sem hlutafé og framlag í nýstofnaðan Þróunarsjóð Háskólans í Reykjavík. Kannski ekki jafn stór gjöf og sú sem Háskólinn í Bremen hlaut fyrir ári síðan, en hugsunin á bak við hana virðist vera sú sama. Að beina hinum mikla auð sem býr í atvinnulífinu aftur inn í þekkingarsamfélagið sem skapaði það.
Ef háskólarnir á Íslandi eiga einhvern tímann að eiga möguleika á því að komast í röð þeirra fremstu má sennilega negla niður tvær helstu forsendurnar sem eftirfarandi: Fjármagn og frelsi. Fjármagn til að eyða í rannóknir og mannauð og frelsi til að ákveða eftir eigin höfði hvernig þeim er eytt og þurfa ekki að lúta duttlungum stjórnmálamanna eða dragbítandi lögskipuðum hlutverkum.
Það er mikið verk framundan ef háskólarnir á Íslandi eiga einhvern tímann að skapa sér nafn meðal þeirra bestu. Jafnvel það að komast inn á topp 500 listann – sem margir teldu fljótt á litið vera nokkuð auðunnið (enda er Ísland nú einu sinni best í heimi) – myndi kalla á fimm sinnum meiri fjárútlát af hálfu Háskóla Íslands í rannsóknir en nú er (og áður hefur verið bent á hér á Deiglunni). Og jafnvel þótt það myndi nást eru aðrir mælikvarðar sem skora þarf mun hærra á.
Og sem ríkisrekinn háskóli má efast um að því fjármagni verði alltaf varið út frá því meginmarkmiði að koma Háskóla Íslands í fremstu röð á alþjóðavettvangi, enda eru á hann lagðar miklar samfélagslegar skyldur sem tæplega vinna þessu markmiði mikið gagn (þótt þjóðfélagið sem slíkt njóti eflaust góðs af á einn eða annan hátt).
Háskólinn í Reykjavík hefur hins vegar fullt frelsi til að eyða því fjármagni sem í hann er lagt til að stefna að þeim markmiðum sem hann einn hefur ákveðið, án aðkomu hins opinbera og afskipta af stefnumörkun. Það er fyrst og síðast það sem gerir hann sennilega vænlegri kandídat, þegar til langs tíma er litið, að komast í fremstu röð. Að minnsta kosti að komast inn á topp 500 eftir ekkert allt of langan tíma.
En til þess þarf hann enn meira fjármagn en hið góða og þakkarverða framlag Róberts Wessman. Og atvinnulífið á að taka við sér og styðja duglega við bakið á þekkingarsamfélaginu, hvort sem það kýs að styrkja Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Bifröst eða Atlantic Center of Excellence. Það er þeirra að ákveða.
Þekkingarsamfélagið þarf einnig að taka mið af því að við erum nú einu sinni míkrósamfélag og sameina krafta sína undir færri gunnfánum. Þannig nær það best að spila úr því hlutfallslega litla fjármagni sem hér er.
Og vinnan við að afla fjármagns þarf að vera síendurtekið ferli og lifandi ferli: Aðspurður af hverju hann veitti ekki sínum alma mater, Háskólanum í Hamborg, þá fjármuni sem fóru til Bremen svaraði Klaus J. Jacobs: „Þeir spurðu mig ekki“.
- Hálendisfrumvarpið er dautt, lengi lifi hálendisfrumvarpið - 10. júní 2021
- Gamalt vín á nýjum belgjum - 7. apríl 2021
- Borgarlína á toppnum - 20. febrúar 2021