Sú staða hefur komið upp á hverju hausti undanfarin ár að ekki tekst að manna leikskóla, frístundaheimili og jafnvel skóla. Þannig hefur ekki verið hægt að taka á móti um 300 börnum sem þegar höfðu fengið pláss á leikskólum Reykjavíkur vegna manneklu. Þá eru ekki talin með þau börn sem enn bíða pláss.
Allir hljóta að vera sammála um að þetta ástand sé óviðunandi en samt gengur illa að finna lausnir á vandanum. Formaður leikskólaráðs Reykjavíkur viðraði hugmyndir um að skoða bæri einkarekstur og jafnvel kanna vilja atvinnurekenda til þess að koma á fót leikskóla fyrir starfsmenn sína. Hugmyndum sem þessum hefur verið misvel tekið. Formaður Félags leikskólakennara kom fram í fjölmiðlum í síðustu viku og sagði að aukinn einkarekstur og stofnun fyrirtækjaleikskóla myndu ekki leysa neinn vanda. Með því að bjóða út reksturinn væru sveitarfélögin að fría sig ábyrgð frá málaflokknum. Þá sagði formaðurinn að stórátak og sátt þyrfti í þjóðfélaginu um að borga kennurum og umönnunarstéttum miklu hærri laun vilji menn á annað borð að þessi þjónusta verði trygg.
Vel er hægt að taka undir orð formanns Félags leikskólakennara um að kjör kennara og umönnunarstétta séu ekki ásættanleg. En þar sem svo hefur lengi verið og einhver bið virðist ætla að verða á því stórátaki sem formaðurinn kallar eftir er ef til vill ástæða til þess að skoða annað rekstrarfyrirkomulag og nýjar leiðir í leikskólamálum.
Ein leiðin, sem sífellt fleiri virðast spenntari fyrir, er einmitt rekstur fyrirtækjaleikskóla. Helstu andstæðingar slíkra hugmynda hafa bent á að fyrirtækjaleikskólar myndu stuðla að aukinni stéttaskiptingu í þjóðfélaginu. Þá sagði formaður Félags leikskólakennara í viðtali að slíkir skólar myndu starfa út frá hagsmunum fyrirtækja en ekki foreldra óháð þjóðfélagsstöðu eins og opinberir skólar reyni. Að sjálfsögðu þarf að vega og meta kosti og galla slíks fyrirkomulags en næsta víst yrði að tilkoma fyrirtækjaleikskóla hefði góð áhrif á kjör leikskólakennara. Þá má ekki gleyma fjölmörgum kostum fyrir starfsmenn fyrirtækjanna, svo sem nálægð við vinnustaðinn, öruggt leikskólapláss o.s.frv.
Í grein í tímaritinu The Economist var um daginn fjallað um aukið valfrelsi foreldra í skólamálum. Þannig virðast tilraunir með að skattpeningar fylgi hverju barni um sig gefa góða raun. Einkaaðilar, jafnvel fyrirtæki, starfrækja þá skólana en ríkið fjármagnar. Að sjálfsögðu þurfa rekstraraðilarnir að standast ákveðna staðla sem settir eru af hinu opinbera. Í greininni kom fram að foreldrar í Hollandi hafa allt frá árinu 1917 haft valfrelsi um að láta skattpeningana fylgja barni sínu í þann skóla sem þeir kjósa að því gefnu að skólinn uppfylli opinbera staðla. Þá hafa foreldrar í Svíþjóð haft sama valfrelsi allt frá árinu 1992. Nú er svo komið að um 70% barna í Hollandi ganga í einkarekna skóla, fjármagnaða af ríkinu. Sambærileg tala er 10% í Svíþjóð. Í báðum löndunum er minna fé lagt til menntamála á hvern íbúa heldur en til dæmis í Bretlandi, en þó koma bæði löndin betur út en Bretland í samanburði.
Er ekki kominn tími til að íslensk stjórnvöld fari að skoða fleiri kosti í rekstri leikskóla og jafnvel grunnskóla hér á landi? Árleg mannekla á haustin og alltof löng bið eftir leikskólaplássum sýnir að eitthvað er að því kerfi sem við búum við. Staðreyndin er sú að vel yfir 300 börn komast ekki að á leikskólum í Reykjavík. Það er jafnframt staðreynd að þeir foreldrar sem fá ekki leikskólapláss fyrir börn sín greiða það sama fyrir þjónustuna og aðrir, í formi skatta, en fá ekkert í staðinn. Það er enginn hvati innbyggður í kerfið til þess að leysa þetta vandamál. Ef föst krónutala fylgdi hverju barni þá væri ábyggilega til staðar fólk, fyrirtæki eða sveitarfélög, sem væru tilbúin að leysa þetta vandamál.
- Árleg mannekla - 18. september 2007
- Lítilla breytinga að vænta - 5. maí 2007
- Jarðgangagerð, opinber störf og niðurgreiðslur - 17. mars 2007