Fréttir bárust af því í vikunni að stór bandarískur banki hyggst kaupa allt að þriðjungs hlut í íslenska orkufjárfestingarfélaginu Geysir Green Energy. Örugglega er það hið best mál fyrir eigendur Geysis Green að fá öflugan fjárfestir inn í hluthafahópinn. En það fannst ekki öllum. Nokkrir stjórnmálamenn og aðrir með stjórnunaráráttu, sem reyndar eiga ekki hlut í fyrirtækinu, risu upp á afturlappirnar og töldu þetta hið versta mál. Ástæðan er sú að Geysir Green á nefnilega stóran hlut í Orkuveitu Suðurnesja og þar með ættu útlendingar óbeint hlut í Hitaveitunni. Guðni Ágústson og fleiri andófsmenn gerðu svo ekki frekar grein fyrir því af hverju það er slæmt að útlendingar eigi óbeint í orkufyrirtæki.
Já, af hverju er það slæmt? Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, telur í samtölum sínum við fjölmiðla að þetta snúist fyrst og fremst um eignarhald á auðlindum. Gott og vel. Það er barátta sem enn þarf að heygja við vinstri menn og sannfæra kjósendur um að hagmunum almennings er best borgið ef ríkið hætti að skipta sér að orkuiðnaðnum með beinu eignarhaldi og láti einkaaðilum eftir að vernda og nýta náttúruna á grundvelli eignaréttarins. En Árni gerir ekkert í því að útskýra af hverju erlendir fjárfestar eru verri en íslenskir. Hvað er svona sérstakt við íslenska fjárfesta sem gerir þá nær algóða í samanburði við erlenda?
Svarið er að það er enginn munur á íslenskum fjárfestum og erlendum sem máli skiptir. Þetta er ekkert annað er gamalgróin hræðsla þeirra sem vita ekki betur. Aðilar innan verkalýðshreyfingarinnar eru margir hverir hræddir við að útlendingar steli vinnu af Íslendingum. Þessi afstaða er ekki einskorðuð við verkalýðshreyfinguna og á ekki einungis við um erlenda verkmenn. Í gildi eru lög um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991. Þar eru margvíslegar takmarkanir settar fyrir fjárfestingu erlendra aðila.
Þannig mega þeir einu stunda veiðar í efnahagslögsögu Íslands og eiga eða reka fyrirtæki til vinnslu sjávarafurða sem eru íslenskir ríkisborgarar eða íslenskir lögaðilar og lúta yfirráðum íslensk lögaðila. Erlendum aðila er einungis heimilt að eiga 25% hlut í slíkum útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjum. Í frumvarpi með lögunum er þetta rökstutt þannig að fiskimiðin skulu ávallt vera í eigu Íslendinga sökum mikilvægi auðlindarinnar. Af þeim sökum er talið nauðsynlegt að útgerðin komist ekki í hendurnar á útlendingum og þar með eignarhald á aflaheimildum. Þessi rök eiga svo reyndar alls ekki við um vinnslu á sjávarafurðum en engu að síður þykir löggjafanum rétt að leyfa ekki útlendingum að eignast fiskvinnslufyrirtæki. Svona eiginlega af því bara.
Í lögunum er þessu til viðbótar lagðar takmarkanir við fjárfestingu útlendinga í orkuiðnaði þar sem segir að íslenskir ríkisborgarar og aðrir íslenskir aðilar mega einir eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita önnur en til heimilisnota. Sama á við um fyrirtæki sem stunda orkuvinnslu og orkudreifingu. Þá eru settar takmarkanir við eignarhaldi erlends aðila í íslenskum flugrekstri.
Þessi útlendingahræðsla er til skammar. Þess fyrir utan sem allar takmarkanir á frjálsum viðskiptum sóun dýrmætum fjármunum og brengla eðlilega viðskiptahætti. Ísland er ekki eyland í heimi alþjóðaviðskipta og alþjóðasamstarfs. Ef einhver minnsta hætta er á að óprúttnir erlendir aðilar ætli sér að stela fiskimiðunum eða orku landsins má hæglega slá þann varnagla í lögum að nýta skulu auðlindirnar á Íslandi í þágu lands og þjóðar. Eignarhald fyrirtækja í þessum atvinnugreinum skiptir litlu máli og ætti síður að gera það ef slíkir varnaglar væru í lögum.
- Stjórnarhættir sjávarútvegsfyrirtækja - 26. maí 2021
- Dokkan og Ríkið - 18. febrúar 2021
- Villuljós og vinnuleit - 15. desember 2020