Allir vita að enginn drakk áfengi á Bannárunum, ósjálfráða ungmenni og forráðamenn þeirra virða útivistartíma, friðaðir fuglar geta flogið óttalausir yfir landinu, svört atvinnustarfsemi þrífst ekki,…
Lög eiga oft ekkert í sannfæringar borgaranna.
En stundum eru sett góð lög sem styðja við samfélagið, styðja viðhorf borgaranna og styrkja með því samfélagið innan frá.
Annað slagið eru sett vond lög sem eru tilraun til að innræta með borgurunum viðhorf sem þjóna óljósri framtíðarhugmynd um betra samfélag. Það er ekki gott þegar löggjafinn tekur sér stöðu hátt fyrir ofan umboðsveitendur og stráir yfir þá nokkrum kornum af snilld sinni; þar virðist mér hann vera kominn inn á verndarsvæði foreldra/uppalenda og er allt nema trúverðugur.
Hugmyndir um lög um kynjakvóta í stjórnum opinberra fyrirtækja (og jafnvel breiðvirkari kynjajafnréttislög) munu sjálfsagt hafa tilætluð áhrif – á stólaskiptingu milli kynja í stjórnum opinberra fyrirtækja – en þau munu í engu breyta viðhorfum til kynjajafnréttis; afar hæpið er að augu manna, sem eru svo ólánsamir að hafa ekki áttað sig á ágæti þess að hafa hæfa karla sem og hæfar konur í áhrifastöðum, galopnist. Þeir einstaklingar eru undir hæli viðhorfa sem eru saumuð í persónuleika þeirra.
Flest er nefnilega utan seilingar löggjafans. Margt af því varðar djúpgerð borgaranna, sem verður ekki breytt nema hægt og hægt, en næstum örugglega ekki með lögum, og mun ekki skila sér fullkomlega fyrr en í afkomendum þeirra sem fjalla um viðfangsefnið hverju sinni. Það er ekki skynsamlegt að ætla að spara samfélaginu viðhorfsbreytingu með lagasetningu, stytta sér leið framhjá henni, af því hún þykir taka óásættanlega langan tíma að eiga sér stað; viðhorfsbreyting kostar nákvæmlega þann tíma sem hún kostar, og hvorki er hægt að semja um verð né gjaldmiðil.
Með því að lögfesta mjög ýtarlega æskileg viðhorf er hætt við að mörgum þyki málið afgreitt, áfangastað náð, og ekki réttlætanlegt að veita tíma og fé í þá átt.
Betur færi á að vökva umræðu og rannsóknir, fræðast og bregðast við.
Þar eð flestir eru á því að samfélag fullkomins jafnréttis sé ákjósanleg niðurstaða þá er þess virði að reyna af fullri alvöru að fara leiðina sem liggur þangað. Það er útilokað að byrjunarreitur þess ferðalags sé í pontu Alþingis eða á ráðuneytisskrifstofu, líklegra að hann sé í orðum og fordæmi foreldra framtíðarinnar.
p.s. Í pistlinum gefur höfundur sér að kynjamisrétti finnist í samfélaginu, misrétti sem á rætur í kynjaviðhorfum um að karlar séu betri í sumu og konur í öðru.
- Íslensk tunga í alheims(ku) höfði - 17. nóvember 2007
- Að stytta sér leið framhjá viðhorfsbreytingu - 13. september 2007
- Hýr prýði og hjónaband - 18. ágúst 2007