Umræðan um upptöku evrunnar verður sífellt fyrirferðarmeiri á Íslandi. Í meginatriðum snýst málið í fyrsta lagi um hvort við ættum að taka upp evruna og í annan stað ef það þykir fýsilegt, hvenær og hvernig.
Fylgismönnum upptöku evru vex ásmegin með hverri vikunni sem líður enda sífellt fleiri málsmetjandi menn sem telja upptöku hennar góðan kost fyrir íslenskt efnahagslíf. Í síðustu viku lýsti stjórnarformaður Kaupþings því t.a.m. yfir að upptöku evrunnar ætti að skoða fordómalaust. Forstjóri Glitnis tók í sama streng og sagði að langtímahagsmunum Íslands væri best borgið í stöðugra myntkerfi.
Stöðugri mynt kæmi fyrirtækjum landsins vel og þá sérstaklega útflutningsfyrirtækjum og fjármálafyrirtækjum. Stuðningur við upptöku evrunnar er því mikill meðal þessara fyrirtækja. Jafnframt má gera að því skóna að sífellt fleiri fyrirtæki í þessum geirum kjósi að gera upp í erlendri mynt og jafnvel skrá hlutafé sitt í erlendri mynt en í dag er það leyfilegt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Nefna má sem dæmi að Straumur og Marel gera upp í evrum í dag og Kaupþing hyggst taka upp evru á næstunni sem uppgjörsmynt og síðar að skrá hlutafé sitt í evrum.
Næsta skref þessara fyrirtækja gæti svo allt eins verið að greiða starfsmönnum sínum laun í evrum, a.m.k. að hluta til, til að lágmarka gengisáhættu í rekstri sínum. Fyrir starfsmenn getur það verið hagstæður kostur enda þá mögulegt að vera með húsnæðis- og neyslulán í evrum án verulegrar gengisáhættu á lágum vöxtum.
Vel má ímynda sér að verði þróunin þessi myndist þrýstingur á ýmiss innflutningsfyrirtæki að selja vörur í evrum, t.a.m. bifreiðaumboð og söluaðila dýrari neysluvara. Ekkert er því til fyrirstöðu að fyrirtæki hafi tvær verðskrár t.a.m. eina stöðuga evruverðskrá og eina krónuverðskrá sem sveiflast með gengi krónunnar.
Að sama skapi gæti það orðið krafa hjá erlendum ferðamönnum að geta greitt í evrum þar sem óvissa um verð í krónum er allt of mikil. Það væri t.a.m. erfitt að sætta sig við að gistikostnaður hækki um 20% frá því ferð er bókuð þar til hún er greidd örfáum mánuðum síðar.
Þessi ímyndaða þróun sýnir að evran gæti orðið veigamikill gjaldmiðill í íslensku efnahagslífi án þess að hún verði tekin upp sem opinber gjaldmiðill á Íslandi. Verði tregða íslenskra stjórnvalda, við að horfast í augu við umræðuna og skoða það til hlítar hvort taka eigi upp evru, viðvarandi þá má allt eins gera ráð fyrir því að þróunin geti orðið lík þeirri hér að ofan. Að því gefnu að fyrirtæki verði ekki flúin frá landinu í stórum stíl.
Þegar öllu er á botninn hvolft og litið er til umræðunnar í þjóðfélaginu og þróun efnahagsmála í heiminum þá verður svarið við fyrstu spurningunni í innganginum ljósara með hverjum deginum sem líður. Evran verður tekin upp á Íslandi. Spurningarnar sem fylgja í kjölfarið lúta þá að því hvenær og hvernig skuli standa að því. Á að sækja um inngönu í Evrópusambandið með þeim óköstum sem því fylgja eða stefna að einhliða upptöku evrunnar? Þessum spurningum þarf að svara en fyrsta skrefið væri viðurkenning stjórnvalda á því að þessi umræða þurfi að eiga sér stað.
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008