Fáum ætti að dyljast sú staðreynd að peningaflæði í knattspyrnuheiminum hefur aukist gríðarlega undanfarin ár. Ensku liðin hafa mest á milli handanna en það virðist litlu skila til uppeldisstarfs á ungum og efnilegum heimamönnum.
Íslendingar hafa ekki farið varhluta af innrás peningamanna inn í enska knattspyrnu, þvert á móti er hún nú orðin liður í útrás íslenskra risafjárfesta. Kaup Björgólfs og Eggerts á knattspyrnuliðinu West Ham þýða að samtals átta af tuttugu liðum ensku Úrvalsdeildarinnar eru í eigu erlendra fjárfesta. Þessi tala er líklegri til að hækka en lækka og nýverið birtust fréttir um hugsanlegan áhuga Hannesar Smárasonar og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar á Newcastle United.
Þessi þróun hefur án nokkurs efa aukið gæði ensku Úrvalsdeildarinnar enda hafa viðkomandi lið nú bolmagn til þess að fá til sín bestu knattspyrnumenn heims. Hver stjórstjarnan á fætur annarri hefur gengið til liðs við lið deildarinnar og nú er svo komið að alþjóðlegir landsliðsmenn þurfa að verma varamannabekki sumra stórliðanna. Fyrir áhorfendur og aðdáendur knattspyrnu er þetta mjög skemmtileg þróun enda aldrei verið auðveldara að fylgjast með knattspyrnu í hæsta gæðaflokki. Þessi þróun er þó ekki jákvæð í alla staði og er hreint út sagt ógnvænleg fyrir enska landsliðið.
Breska ríkisútvarpið tók nýverið saman tölfræði um flæði erlendra leikmanna inn í ensku Úrvalsdeildina. Tölurnar gefa vægast sagt slæma mynd af þeirri framtíðarsýn sem ráðamenn enska landsliðsins þurfa að horfast í augu við.
Aðeins 37% byrjunarliðsmanna í fyrstu umferð ensku Úrvalsdeildarinnar í ár voru enskir. Árið 1992 voru 76% byrjunarliðsmanna heimamenn.
56% byrjunarliðsmanna í fyrstu umferðinni voru ekki frá Bretlandseyjum, þessi tala var 10% árið 1992.
69% þeirra marka sem skoruð hafa verið á þessu tímabili voru skoruð af erlendum leikmönnum, meira að segja tvö af þremur sjálfsmörkum.
Eins og þessar tölur sýna þá er hlutfall enskra knattspyrnumanna í Úrvalsdeildinni ótrúlega lágt. Að baki þessu liggja nokkrar ástæður svo sem; gríðarleg aukning í peningaflæði félaganna, rýmri atvinnulöggjöf fyrir erlenda knattspyrnumenn og hár verðmiði á enskum knattspyrnumönnum. Því má segja að enska knattspyrnan sé að fylgja þróun á venjulegum atvinnumarkaði. Erlent vinnuafl streymir inn í landið enda hægt að fá sambærilega leikmenn erlendis fyrir mun minni fjárhæð en heimamenn.
Sú staðreynd sem blasir við enskum knattspyrnuforkólfum í dag er að ungir og efnilegir heimamenn fá lítil sem engin tækifæri til að þroskast og öðlast leikreynslu í efstu deild. Þessir leikmenn eru yfirleitt lánaðir til liða í neðri deildum þar sem þeim hættir til að staðna og ná aldrei þeirri getu sem þeir hafa burði til. Afleiðing þessa hlýtur síðan að leiða til minni breiddar meðal enskra knattspyrnumanna þar sem aðeins þeir allra bestu komast að hjá góðum liðum.
Þessi þróun er þegar farin að há enska landsliðinu. Liðið á í dag gríðarlega mikilvægan leik í undankeppni Evrópumóts landsliða sem hreinlega má ekki tapast ef liðið á að komast í lokakeppnina. Hins vegar hrjá leikmannahópinn bæði meiðsli og leikbönn og þar sem breiddin er lítil munu í dag nokkrir óreyndir og í hið minnsta einn meiddur leikmaður klæðast enska landsliðsbúningnum.
Að öllu óbreyttu gæti komið upp sú staða að eftir 10 ár verði það fögnuðarefni ef enska landsliðið kemst á stórmót. Nokkuð sem stuðningsmenn landsliðsins líta á sem formsatriði í dag.
Til gamans má geta þess að samkvæmt nýjustu tölum um uppgefnar fjárhæðir sem ensk félög hafa greitt í félagaskiptum árið 2007, þá nær sú upphæð 537 milljónum punda eða 70,8 milljörðum króna.
Tölfræðin var fengin af fréttavef BBC
- Fimm til að fylgjast með - 17. ágúst 2011
- Raunveruleika útgáfan af FM (CM) afturkölluð af UEFA - 15. júlí 2011
- Þorláksmessa knattspyrnuaðdáenda - 10. júní 2010