Hvað sem segja má um ágæti hins nýja 3G kerfis Símans hefur sú leið sem valin var til að auglýsa það ekki verið öllum að skapi. Einna helst hafa kirkjunnar menn gagnrýnt uppátækið og ef til vill ekki að ósekju. Myndsímtal milli Júdasar og Jesú er vissulega fyndið og vekur athygli en er samt á frekar gráu svæði.
Höfundur auglýsingarinnar hefur líklega vitað að þetta myndi hneyksla trúrækna Íslendinga og var það staðfest í fréttum Sjónvarps í gærkvöldi, því handritið var að sögn borið undir biskupsembættið. Biskup virðist hafa lagt blessun sína yfir þetta fyrirfram en aðeins óskað eftir því að farið yrði varlega.
Höfundur auglýsingarinnar sýnir mikla fagmennsku og nærgætni með því að bera handritið undir æðsta yfirvald þjóðkirkjunnar. Það verður þó ekki sagt um þetta sama yfirvald því þrátt fyrir að biskup hafi ekki séð endanlega útgáfu auglýsingarinnar áður en hún fór í loftið (sem væri raunverulega fásinna) þá hefði handritið átt að gefa nokkuð skýra mynd af útkomunni.
En hvað sem þessu líður þá hefði Síminn og höfundar auglýsingarinnar getað gert ráð fyrir því að auglýsingin myndi fara öfugt ofan í hluta þjóðarinnar. Ef til vill hefur markmiðið verið að vekja athygli með hneykslun og sé svo þá hefur það tekist nokkuð vel.
Það má hugsa sig tvisvar um hvort auglýsingar ættu að hneyksla. Þær eiga að sjálfsögðu að vekja upp tilfinningar af einhverju tagi og hneykslun er ein þeirra. Í umræddri auglýsingu er vissulega verið að nota eina þekktustu sögu Biblíunnar en það er þó ekki á neinn hátt í niðrandi merkingu.
Trúin er mikilvæg fyrir hvern og einn sem hana iðkar en sömuleiðis litast menning og samfélag okkar af henni. Mönnum ber að sjálfsögðu að fjalla um trú, kristna eða aðra, af vegsemd og virðingu en þó má aldrei tapa gleðinni.
Smekklegur húmor, hver svo sem undirtónninn kann að vera, er aldrei verri – svona til þess að lífga upp á tilveruna. Auglýsing Símans gekk kannski nærri sumum og er það vel skiljanlegt, en hún sýndi þó í það minnsta ekki Jesú á krossinum hringja myndsímtal í föður sinn. Það hefði líklega þýtt vítisvist fyrir höfunda hennar.
Við gerð auglýsinga sem og annars staðar ber auðvitað að feta hinn gullna meðalveg. Hvað sjónvarpsefni varðar er þó erfitt að taka tillit til allra í hverju tilviki og væri stillimyndin líklega mest sýndi þátturinn ef það væri ætlunin. Auglýsingum á gráu svæði fjölgar sífellt en líklega er trúin viðkvæmara málefni en flest önnur og því vakna þau viðbrögð við þessu sem raun ber vitni.
Umrædd auglýsing Símans er ágæt fyrir margra hluta sakir, léttur húmor án svívirðinga. Hún vekur athygli, hneykslar suma, gleður aðra og eflaust er mörgum alveg sama. Þegar öllu er á botninn hvolft kom Síminn nýrri vöru á framfæri á afgerandi hátt og líklega endum við öll á því að fá okkur 3G síma hvort sem okkur líkar betur eða verr.
- Siðlaust guðlast - 5. september 2007
- Þess vegna er Laugavegurinn dauður - 6. mars 2007
- Hvað á RÚV að þýða? - 12. febrúar 2007