Það er varla til sá maður sem ekki hefur orðið var við átökin fyrir botni miðjarðarhafs. Flestir hafa lýst yfir andúð sinni á deilunni enda hefur hún stigmagnast og er nú orðinn að vettvangi fyrir tilgangslausar hefndaraðgerðir á báða bóga. Það er ekki margt sem hægt er að bæta við það sem áður hefur verið skrifað á Deigluna um deiluna sjálfa, en nýlegar yfirlýsingar Bandaríkjastjórnar eru hins vegar tilefni til nánari athugunar.
Bandaríkin hafa dregið taum Ísraela síðan þau fóru að seilast til áhrifa á svæðinu á tíma kalda stríðsins. Demókratar og Rebúblikanar hafa verið sammála um nauðsyn þess að styðja Ísraelsríki, enda hafa árásir arabaríkjanna í gegnum tíðina gefið tilefni til þess. Það kom því flestum á óvart þegar George W. Bush yngri gekk lengra en flestir aðrir forsetar þegar hann lýsti því yfir að Ísraelar ættu að hverfa með herlið sitt frá bæjum Palestínumanna. Jafnframt samþykkti Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktun gegn stríðsrekstri Ísraela. Þetta lýsir ótrúlegum kjarki hjá Bush enda næsta víst að fjölmargir af hans stuðningsmönnum vilja ekkert frekar en að Palestína verði þurrkuð út.
Á sínum tíma var mikið gert úr árangri Clinton við lausn deilunnar en dugleysi stjórnar hans átti ekki hvað síst þátt í því að friðarsamkomulagið brást. Clinton stjórnaði ávallt í krafti skoðanakannana og almenningsálits og því hafði hann ekki kjark til að bregðast við af hörku. Bush hefur hins vegar í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september verið óhræddur við að taka umdeildar ákvarðanir þótt þær séu ekki allar jafnvel ígrundaðar. Vonandi munu Bandaríkin blanda sér enn meira í deiluna á næstu vikum og mánuðum því það er vandséð að nokkrir aðrir en Bandaríkjamenn geti tryggt frið á svæðinu.
Eins og áður sagði hafa margar ákvarðanir Bandaríkjastjórnar í kjölfar hryðjuverkaárásanna vakið hörð viðbrögð. Þetta á einkum við um aukna öryggisgæslu sem oft á tíðum jaðrar við ofsóknir. Andstæðingar Bandaríkjanna hafa gert sér mat úr þessu og telja að þarna geti þeir komið höggi á land frelsisins. Ármann Jakobsson múrverji með meiru skrifaði til dæmis grein í DV þar sem hann lýsti því hvernig kona hefði verið handtekin á flugvelli í landi frelsisins fyrir það eitt að segja brandara. Þetta taldi hann skýrt merki um það hvernig allar hugsjónir væru fótum troðnar. Það hlyti að vera sjálfsagður hluti af einstaklingsfrelsi að mega segja skrýtlur. En hver var svo þessi óborganlegi brandari sem konan var handtekin fyrir að segja? Jú, hún sagðist vera með sprengju í skónum sínum. Skemmtilegur brandari það.
- Danmörk er uppseld - 5. ágúst 2005
- Þegar Evrópa sveik okkur - 21. maí 2005
- Gettu betur, syngdu best og dettu samt úr leik - 20. janúar 2005