Baráttan um landgrunnið VIII – SÍLDARSMUGAN OG REYKJANESHRYGGUR

Í þeim miklu deilum sem hafa staðið um Hatton-Rockall hefur oft á tíðum gleymst í þjóðmálaumræðunni að Ísland á einnig rétt til landgrunnsins í suðurhluta Síldarsmugunnar og á Reykjaneshrygg.

Í þeim miklu deilum sem hafa staðið um Hatton-Rockall hefur oft á tíðum gleymst í þjóðmálaumræðunni að Ísland á einnig rétt til landgrunnsins í suðurhluta Síldarsmugunnar og á Reykjaneshrygg.

Íslendingar hafa á undanförnum árum átt tæknilegt samstarf við Norðmenn, Dani og Færeyinga um mælingar á landgrunninu í Síldarsmugunni. Þann 1. júní 2006 sagði Geir H. Haarde frá því að vikurnar áður hafi farið fram óformlegar viðræður milli Íslands, Noregs og Færeyja um hugsanlega skiptingu landgrunnsins í Síldarsmugunni. Þokast hafi í samkomulagsátt og vonir stæðu til þess að unnt yrði að ljúka málinu á næstunni. Þann 20. september 2006 var undirritað samkomulag um skiptingu landgrunns utan 200 sjómílna milli Íslands, Færeyja, meginlands Noregs og Jan Mayen í suðurhluta Síldarsmugunnar. Sú skipting landgrunnsins er þó með fyrirvara um að aðilum takist hverjum fyrir sig með greinargerð til landgrunnsnefndarinnar að sýna fram á tilkall sitt til jafnstórs hafsbotnssvæðis og samkomulagið kveður á um að hann skuli fá í sinn hlut. Í Morgunblaðinu þann 27. maí 2000 var haft eftir Sveinbirni Björnssyni, deildarstjóra auðlindadeildar Orkustofnunar, að miðað við þá vitneskju sem menn hafi í dag um hafsbotninn í Síldarsmugunni sé ólíklegt að þar megi finna olíu í jörðu. Hafsbotninn sé hluti af úthafsskorpu þar sem lítið sé um olíu og að fyrsta kastið sé þetta í raun landvinningastefna í Síldarsmugunni.

Ísland er eina ríkið sem gerir tilkall til landgrunnsréttinda á Reykjaneshrygg. Vegna 6. tl. 76. gr. hafréttarsamningsins sem kveður á um að ytri mörk landgrunnsins á neðansjávarhryggjum skuli ekki vera lengra en 350 sjómílur frá grunnlínunum sem víðátta landhelginnar er mæld frá getur Ísland ekki gert tilkall til landgrunnsins á Reykjaneshrygg lengur en 350 sjómílur. Ekki eru miklar vonir bundnar við að olía finnist á Reykjaneshrygg. Ísland hefur ekki sent greinargerð til landgrunnsnefndarinnar varðandi Reykjaneshrygg en gerir það væntanlega von bráðar.