Bloggað til vinsælda

Helgarnestið er að þessu sinni tileinkað blogginu og hvernig þeir sem ætlar sér að verða vinsælir bloggarar geta stytt sér leiðina.

Í Helgarnestinu að þessu sinni verðu fjallað um hvernig menn geta orðið frægir og vinsælir bloggarar. Aðdáendur bloggs fylgdust með því hvernig hin tilbúni bloggkarakter Bolur Bolsson náði því að verða vinsælasti bloggari landsins á einni viku. Boli var hins vegar bolað út af stjórnendum Moggabloggsins, eftir að hafa brotið flestar reglur Moggabloggsins. Í kjölfarið á þessu var kerfið lagað þannig að ekki væri jafn auðvelt að misnotakerfið, en enn er moggabloggið besta bloggkerfið til að blogga til vinsælda.

Bloggið hefur í gegnum tíðina verið misvinsælt, þannig er betra að byrja þegar það er blogg-gúrka í gangi og fáir vinsælir bloggarar í gangi. Mitt sumar er t.d. góður tími til að komast á toppinn. Í byrjun sumars hefði þurft tugi þúsunda gesta á viku til að slá út klám fengnu sjónvarsþuluna, en í lok sumars dugðu Bol nokkur þúsund gestir.

Til að komast á toppinn eins og Bolur gerði þarf til að byrja með a blogga mjög oft, blogga lítið, blogga í mörgum flokkum og á hverjum einasta degi. Menn verða að byrja snemma á daginn að blogga, til að koma sér snemma inn á lista yfir „vinsæl blogg“ innan dagsins, sem birtist á forsíðu mbl.is. Þegar búið er að halda sér inn á toppnum í ákveðin tíma, fara menn að birtast á topp 50, en margir finna bloggara til að skoða af þeim lista. Þetta þýðir að vinsældir leiða af sér frekari vinsældir.

Annar liður sem er nýr og áhugamenn um vinsældir geta nýtt sér eru „heitar umræður“ sem birtist á forsíðu mbl.is. Þar eru sýnd blogg sem eru með margar athugasemdir. Oftast eru það bloggfærslur sem eru út í hött, eða fara virkilega í taugarnar á lesendum sem koma og gera þá nægjanlega arga til að röfla. Að sjálfsögðu svara menn með álíka dónalegri athugasemd til að halda röflinu gangandi.

Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að tengja bloggfærslur við fréttir en þetta beintenging við lesendur Moggans. Regla Bols var að blogga við hverja einustu frétt (eða svo gott sem) en það er nægjanlegt að blogga bara um ákveðnar fréttir og velja þær. Það vita það allir að blogga um frétt um kvótasvindl eða verðbólgu selur ekki. Gott framhjáhald er þyngdar sinnar virði í gulli þegar kemur að heimsóknum og getur ein frétt skilað þúsundum heimsókna.

Fyrirsagnirnar þurfa að sjálfsögðu að vera krassandi, það þýðir lítið fyrir að vera með langar og leiðinlegar fyrirsagnir. Þegar bloggað er um fréttir sjást fyrirsagnirnar og því þarf það að vekja athygli. Klám, ofbeldi og almennt hneyksli selur.

Rúsínan í pylsuendanum er svo auðvitað að fara inn á blogg vinsælustu bloggarna og lýsa yfir heimsku þeirra í athugasemdakerfinu. Fátt vekur meiri athygli en að komast í gott rifrildi á athugasemdakerfi vinsæls bloggar, helst að viðkomandi sjái sig tilneyddan að svara færslunni með link og nýrri færslu.

Auðvitað eru til önnur ráð sem skipta auðvitað einhverju máli eins og að vera með skemmtilega færslur eða skrifa um efni sem fólk hefur áhuga á að lesa um. Ef menn eru að leita að vinsældum (og sérsakalega til skamms tíma) er algjör óþarfi að vera að velta fyrir sér smáatriðum eins og hvort vit sé í skrifunum.

Nú þegar upplýst hefur verið um leyndardómi að vera vinsæll bloggari er bara að skella sér af stað og byrja að blogga. Frægð og vinsæld bíður handan við hornið.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.