Afmörkun landgrunns milli ríkja með mótlægum eða aðlægum ströndum er mikilvægt viðfangsefni. Hatton-Rockall svæðið er dæmi um svæði þar sem ríki með mótlægum ströndum þurfa að afmarka landgrunnið.
Þegar ríki ákveða að afmarka landgrunn sitt utan 200 sjómílna frá grunnlínum þurfa þau annars vegar að ákvarða markalínu gagnvart mótlægum eða aðlægum ríkjum ef þau eru fyrir hendi og hins vegar ákvarða ytri mörkin gagnvart alþjóðlega hafsbotnssvæðinu. Af orðalagi 1. tl. 83. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna má draga þá ályktun að viðkomandi ríki fari sjálf með afmörkun landgrunns sín á milli. Hatton Rockall-svæðið er dæmi um svæði þar sem þarf að afmarka markalínu milli mótlægra ríkja og telst umdeilt þar sem kröfur Íslands, Danmerkur (fyrir hönd Færeyja), Bretlands og Írlands til þess skarast.
Heppilegasta leiðin og sú leið sem er einföldust fyrir landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna, viðvíkjandi afmörkun landgrunns fyrir utan 200 sjómílur frá grunnlínum, er að strandríkin komist að samkomulagi um hvernig skipta eigi umdeilda svæðinu á milli þeirra eða að þau komist að samkomulagi um að svæðið verði sameiginlegt nýtingarsvæði þeirra áður en greinargerð er send til nefndarinnar. Samkvæmt 1. tl. 83. gr. skal afmörkun landgrunns milli mótlægra eða aðlægra ríkja komið í kring með samningi á grundvelli þjóðaréttar, eins og getið er í 38. gr. samþykktar Alþjóðadómstólsins, svo að sanngjarnri lausn verði náð. Tilvísunin til 38. gr. merkir að ríki skulu byggja samninga sína á þeim réttarheimildum sem dómstólnum ber að beita í úrlausnum sínum, þ.e. réttarvenju, alþjóðasamningum, grundvallarreglum laga, dómum og kennisetningum bestu sérfræðingum ýmissa þjóða. Þótt að miðlínunnar sé ekki getið í 1. tl. 83. gr. hefur hún nokkurt venjugildi og er hún iðulega notuð til viðmiðunar í samningaviðræðum ríkja og dómaframkvæmd um afmörkun efnahagslögsögu og landgrunns. Er þá fyrst dregin miðlína og síðan teknir til athugunar hinir ýmsu þættir sem eru til þess fallnir að færa hana til. Einkum er hér litið til landfræðilegra aðstæðna. Efnahagslegar aðstæður virðast hins vegar skipta minna máli, enda taka þær fremur breytingum í tímans rás.
Í 2. tl. 83. gr. hafréttarsamningsins segir að ef ekki sé unnt að ná nokkru samkomulagi innan hæfilegs tíma skuli hlutaðeigandi ríki fara eftir reglunum sem kveðið er á um í XV. hluta. Í 2. kafla XV. hluta samningsins er fjallað um skyldubundna málsmeðferð sem leiðir til bindandi úrskurða. Þar er ráð fyrir því gert að á ríkjum hvíli sú skylda að leggja deilur sínar um túlkun eða beitingu samningsins til bindandi úrlausnar dómstóls ef ekki hefur tekist að leysa þær eftir öðrum leiðum. Í i-lið a-liðar 1. tl. 298. gr. samningsins er ríkjum hins vegar heimilað að gefa yfirlýsingu um að þau samþykki ekki slíka bindandi lögsögu í deilum sem m.a. lúta að mörkum landgrunnsins milli ríkja. Ísland hefur gefið slíka yfirlýsingu, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 7/1985. Hér þarf ríki með öðrum orðum ekki að hlíta tilsögn alþjóðlegs dómstóls um það hvar það skuli draga landgrunnsmörkin gagnvart öðru ríki. En þótt slík skylda hvíli hér ekki á ríkjum verða þau að samþykkja, samkvæmt ósk gagnaðila, að slík deila gangi til bindandi sáttaumleitana samkvæmt 2. kafla V. viðauka við hafréttarsamninginn sem fjallar um skyldubundna tilvísun til sáttameðferðar samkvæmt 3. kafla XV. hluta samningsins. Um sáttanefndina er nánar fjallað í ii-lið a-liðar 1. tl. 298. gr. hafréttarsamningsins. Þar segir að þegar sáttanefndin hefur lagt fram skýrslu sína þar sem skýrt skuli frá ástæðunum sem hún er reist á skuli aðilarnir gera samning á grundvelli þeirrar skýrslu; ef þessar samningaviðræður leiði ekki til samnings skuli aðilarnir með gagnkvæmu samþykki láta málið sæta einni þeirra tegunda málsmeðferðar sem kveðið er á um í 2. kafla, nema aðilarnir komi sér saman um annað. Hér getur þó ekki verið um neina skyldu að ræða. Ekki er hægt í krafti þessa ákvæðis að þvinga aðila til þess að ná samningum. Hér er aðeins um þá skyldu að ræða að taka þátt í samningaviðræðum og sýna vilja til að ná samningum. Náist ekki samkomulag um að leita þeirra úrræða, sem boðið er upp á í 2. kafla, né heldur samkomulag um aðrar leiðir, lýkur málinu þar án samkomulags um mörkin. Ríki geta þó að sjálfsögðu tekið upp samningaviðræður á nýjan leik síðar.
Í 1. mgr. reglu 46 í starfsreglum landgrunnsnefndarinnar kemur fram að ef deila um afmörkun markalína milli ríkja með mótlægum eða aðlægum ströndum er fyrir hendi eða í öðrum tilfellum óleystra landmæra- og hafsvæðadeilna sé heimilt að leggja fyrir nefndina greinargerð og skuli hún skoðuð í samræmi við I. viðauka við starfsreglurnar. Í töluliðum I. viðauka eru slegnir ýmsir varnaglar til að tryggja fullveldisrétt ríkja við skoðun nefndarinnar á slíkum greinargerðum, t.d. að samþykki viðkomandi ríkja þurfi að liggja fyrir og að tillögur nefndarinnar skuli ekki hafa áhrif á stöðu ríkja sem eru aðilar að landamæra- eða hafsvæðadeilu.
Strandríki geta lagt fyrir landgrunnsnefndina svokallaða hlutagreinargerð (e. partial submission). Í hlutagreinargerð er fjallað um hluta landgrunns sem strandríki gerir tilkall til. Í þess konar greinargerð er ekki fjallað um umdeild svæði. Í 3. tl. I. viðauka við starfsreglurnar er fjallað um hlutagreinargerðir. Í honum segir að strandríki geti lagt upplýsingar um einungis hluta landgrunns síns fyrir nefndina í því skyni að hafa ekki áhrif á álitamál um afmörkun markalína milli ríkja á öðrum hlutum landgrunnsins sem heimilt er að leggja fram greinargerð um síðar. Leggja má upplýsingar um síðarnefndu svæðin fyrir nefndina seinna meir þrátt fyrir ákvæði 4. gr. II. viðauka við hafréttarsamninginn um að strandríki sem hafa í hyggju að ákveða ytri mörk landgrunns síns utan 200 sjómílna skuli leggja upplýsingar um mörkin fyrir nefndina innan 10 ára frá gildistöku samningsins. Samkvæmt ákvæðinu eru engin tímamörk sett í því sambandi. Ísland, Noregur og Danmörk/Færeyjar munu leggja hlutagreinargerð fyrir nefndina um Síldarsmuguna en samið var um skiptingu svæðisins síðasta haust. Ísland getur gert slíkt hið sama varðandi Reykjaneshygg sem og um landgrunnið á Hatton Rockall-svæðinu að því gefnu að samið hafi verið um skiptingu Hatton-Rockall svæðisins.
- Fara fyrirætlanir E.C.A. Program gegn samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar? - 24. mars 2010
- …að vera eða vera ekki herloftfar… - 23. mars 2010
- Friðlýsingahugmyndir stangast á við hafréttarsamning SÞ - 19. maí 2009