Það sem komið hefur fram í umfjöllun fjölmiðla í vikunni um kaup ríkisins á nýrri Grímseyjarferju og viðbrögð í kjölfarið er ekki beint uppörvandi fyrir skattborgara Íslands. Stjórnvöld gerðu ráð fyrir 150 milljónum til kaupa á notaðri ferju en kostnaðurinn við ferjuna er kominn upp í tæplega 400 milljónir. Og kunnuglegur söngur um að mest um vert sé að læra af reynslunni er kyrjaður í fjölmiðlum.
Auðvitað er alltaf gott að læra af reynslunni, það þarf ekki hjálpfúsa stjórnmálamenn til að benda á jafn augljósan hlut. En er það forsvaranlegt að það gerist trekk í trekk að enginn sé kallaður til ábyrgðar þegar stofnanir fara jafnvel hundruði milljóna fram úr fjárhagsáætlunum? Það er því miður ekkert einsdæmi um að hið opinbera fari frjálslega með skattfé borgara. Í lok síðasta árs stóð t.a.m. sjötti hver fjárlagaliður í halla samkvæmt nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga.
Í skýrslunni segir Ríkisendurskoðun að ábyrgð forstöðumanna stofnana sé skýr og fari rekstur umfram fjárheimildir eigi þeir að sæta áminningu eða brottrekstri ef um endurtekin eða stórfelld umframútgjöld er að ræða. Og segir hún það teljast brotalöm á verklagi við framkvæmd fjárlaga að það heyri til algjörra undantekninga að ráðuneyti beiti slíkum viðurlögum.
Í 14. grein stjórnarskrárinnar segir að ráðherra beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Í erindi sem Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi flutti fyrir tveimur árum leggur hann svo út af þessari stjórnarskrárgrein: “Þrátt fyrir þetta víðtæka orðalag verða ráðherrar þó varla gerðir ábyrgir vegna athafna embættismanna eða annarra ríkisstarfsmanna, nema eitthvað hafi skort á af hendi þeirra, svo sem eftirlit með þeim eða fyrirmæli til þeirra.” Miðað við þessa skýringu ríkisendurskoðanda mætti leiða að því líkur að ráðherra beri ábyrgð í Grímseyjarferjumálinu þar sem ekki er annað að sjá en að eftirliti ráðuneytisins með framkvæmdinni hafi verið ábótavant.
Í samtali við fjölmiðla vill fjármálaráðherra ekkert gefa út á það sem Ríkisendurskoðun hefur að segja um að brýna þurfi á refsingum fyrir fjárlagabrjóta heldur vilji hann helst að menn haldi sig innan ramma svo hvorki þurfi að grípa til áminninga né brottrekstra. Afhverju veigrar ráðherra fjármálaráðuneytisins sér við því að tjá sig um þetta aðhaldstæki stjórnsýslunnar með því að fjárlögum ríkisins sé framfylgt? Það er ekki furða að þessu úrræði sé lítið beitt ef að ráðherrar vilja helst ekkert af því vita.
Það er alltaf hægt að segja að í staðinn fyrir að leita að einhverjum sökudólgi ætti fólk frekar að taka höndum saman við að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur. En að ætlast til þess að fólk sé ábyrgt gerða sinna er engin heygafflalógík heldur bara eðlileg krafa skattborgara þessa lands að stjórnvöld ráðstafi skattfé á skynsamlegan hátt og hafi aðhald með framkvæmdinni. Hjá einkafyrirtækjum er viðbúið að fólk sitji ekki lengi í starfi sínu ef það verður uppvíst að því að fara hundruð milljóna fram úr fjárhagsáætlunum.
Ítrekað fara ríkisstofnanir fram úr fjárheimildum eins og kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem talar um „agaleysi“ í framkvæmd fjárlaga. Annaðhvort förum við að sætta okkur við framúrkeyrslu á fjárlögum og virðingarleysi gagnvart skattfé borgara sem ófrávíkjanlegt lögmál eða við förum að krefjast þess að íslenskir stjórnmálamenn og embættismenn fari að taka ábyrgð.
- Vinnum upp mannfagnaði - 11. maí 2021
- Sameiginlegir hagsmunir - 6. apríl 2021
- Draumaverksmiðju-kryddið - 9. mars 2021