„Og Guð leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott.“ (1. Mós. 1:31)
Réttindabarátta samkynhneigðra hefur borið margan safaríkan ávöxtinn undanfarin ár.
Tilfinningasambönd þeirra og ástaratlot eru viðurkennd sem einlæg og eðlileg, nema af minnihluta sem gerir það ekki.
Að berja höfði við stein er ekki góð skemmtun, hvort sem um eigið höfuð er að ræða eða ekki.
Þjóðkirkjan hefur verið treg til að blessa tilfinningasamband einstaklinga af sama kyni og kalla það hjónaband; er það silfurskeið í auga margra. Þeir telja að með því sé kirkjan að lítilsvirða einlægni samkynhneigðra í ástarmálum, það sé svo sjálfsagt að jaðrar við mannréttindi að konur tvær eða karlar geti látið blessa um sig hjónaband innan þjóðkirkjunnar.
Í ljósi þess að um ríkistrú er að ræða er krafan skiljanleg – hún er þó örugglega á misskilningi byggð.
Síðastliðið vor felldi prestastefna tillögu um að heimila prestum að blessa tilfinningasamband einstaklinga af sama kyni og kalla það hjónaband; benti samkoman á að prestum væri heimilt að framkvæma guðdómlega hamingjuathöfn þar sem sambandið væri blessað án þess að vera kallað hjónaband, það hugtak væri einfaldlega, samkvæmt Biblíunni, frátekið fyrir ástfanga af gagnstæðu kyni.
Því blasir við að þjóðkirkjan viðurkennir tilverurétt ástar einstaklinga af sama kyni; þeim stendur þó ekki hjónabandið til boða – og virðist ágreiningurinn í raun standa um mismunandi guðdómleikainnihald blessunarforma: Ausa prestar hjón guðsblessun á meðan þeir rétt skvetta nokkrum dropum á samkynhneigða? Hver veit.
En þjóðkirkjan er ekki þjónustufyrirtæki – og er hér með gerð tilraun til að leiðrétta fyrrgreindan misskilning – sem er hollast að koma til móts við skilgreinda kröfu samfélagsins um viðhorf eða verða af viðskiptum ella; trúin er ekki markaðsvara. Þegar kirkjan fer gegn hinni aldagömlu kennisetningu þá er hún að hefla niður trúverðugleika sinn, bókstaflega. Flestum er sama og þykir allt nema óskammfeilið að krefja biskup og presta um sama fálæti. Guðsmenn eru þó á því að (þjóð)kirkjan eigi að vera sjálfstæð og ábyrgðarfull í túlkun sinni á Orðinu og beri ekki að endurspegla sannfæringar samfélagsins, á hverjum tíma, sérstaklega eða fyrst og fremst – sannfæringar samfélags sem bar vitni um síðustu helgi og lýsti yfir, með því að slá öll mannfjöldamet á samkomu í miðborginni: Fullveðja borgurum er frjálst að láta undan girndar- og ástartilfinningum sínum.
Samfélagið hefur staðist meirapróf í umburðarlyndi hvað kynhneigð snertir – og það er pláss fyrir alla í rútunni.
Í framhaldi tekur höfundur fram að hann umber afstöðu (þjóð)kirkjunnar en styður hana ekki.
Að líta á tregðu geistlega valdsins til að bylta hjónabandinu sem vandamál – lýsir miklum vilja til að búa til vandamál og gerir jafnvel lítið úr hinu kaldrifjaða óréttlæti sem samkynhneigðir búa við um Jörðina alla.
Vel færi á að gera nú svo sem Guð á sjöunda degi: Og borgarinn leit allt, sem hann hafði átt þátt í að gjöra, og sjá, það [samfélagið] var harla gott. (Öll syndsamleg afbökun er höfundar, sem ekki er kirkjurækinn en á bleikan „Sorry girls, I´m gay“-bol.)
- Íslensk tunga í alheims(ku) höfði - 17. nóvember 2007
- Að stytta sér leið framhjá viðhorfsbreytingu - 13. september 2007
- Hýr prýði og hjónaband - 18. ágúst 2007