Á sama tíma og offita er sívaxandi heilsufarsvandamál í hinum vestræna heimi, verða viðhorfin í garð offeitra sífellt neikvæðari og þeir litnir hornauga vegna síns sjálfskapaða vítis. Svo virðist hinsvegar sem að matarfíkn eigi sér ákveðnar líffræðilegar skýringar.
Hormónið sem leikur eitt lykilhlutverkið í því að bæla matarlyst kallast leptín. Við eðlilegar kringumstæður seyta fitufrumur okkar leptíni sem síðan ferðast með blóðinu til heilans þar sem það dregur úr hungri. Í kjölfar nýlegra rannsókna er nú talið að leptínið gegni bælihlutverki sínu með því að búa svo um í heilanum að upplifun okkar á því hversu girnileg ákveðin fæða er dempist. Þannig höfum við hömlur. Þá þykir sýnt að líklega sé hægt að rekja hömluleysi offitusjúklinga til þess að þeir geti hreinlega orðið ónæmir fyrir hormóninu.
Þessi áhrif leptíns uppgötvuðust þegar á fjörur lækna rak tvo unglinga sem vegna erfðasjúkdóms framleiddu alls ekkert leptín. Unglingarnir tveir höfðu óseðjandi matarlyst sökum þessa skorts og vildu endalaust vera að borða, enda vóg 14 ára drengurinn 103 kg og 19 ára stúlkan 128 kg. Gerðar voru á þeim ýmsar rannsóknir og sýndi heilaskann að ákveðinn hluti heila þeirra brást sterkar við bragðdaufum fæðutegundum (t.d. brokkolí) heldur en heilar þeirra sem höfðu eðlilega leptínframleiðslu. Á svipaðan hátt gáfu þau aðspurð bragðdaufum fæðutegundum óvenjulegar háar einkunnir, á skala sem spannaði allt frá spergilkáli til súkkulaðiköku.
Þetta þykir, eins og áður kom fram, gefa til kynna að hormónið bæli niður matarlyst með því að dempa upplifun manna á því hversu kræsilegar ákveðnar fæðutegundir eru.
Með segulómun var síðan fylgst með viðbragði í heila þeirra við að sjá myndir af bragðdaufum mat eins og spergil- og blómkáli. Heilar unglinganna brugðust við myndunum á svipaðan hátt, hvort sem að þau höfðu borðað áður eða ekki. Hinsvegar kom í ljós að myndirnar vöktu sterk viðbrögð á heilasvæði því sem talið er knýja áfram eiturlyfjafíkn. Reyndar fengu heilbrigð viðföng í þessari rannsókn einnig slíkt viðbragð – en aðeins á fastandi maga.
Viku eftir að unglingarnir tveir byrjuðu að fá inngefið leptínhormón, sýndi samskonar segulómun fram á að viðbrögð á fíknarsvæði heilans komu aðeins fram þegar að þau höfðu ekkert fengið að borða í marga tíma. Þarna höfðu þau loks fengið hemil og það slökknaði á fíknarsvæðinu eftir inntöku matar.
Í framhaldi af þessari meðferð skiptu unglingarnir einnig um skoðun á bragðdaufum mat eins og t.d. spergilkáli og blómkáli og gáfu þessari fæðu mun lægri einkunn en áður. Þau gáfu hinsvegar köku og öðru góðgæti áfram háa einkunn. Í heilbrigði virtist líkaminn þannig hreinlega hafa innbyggða velvild gagnvart ákveðinni fæðu umfram aðra – köku umfram kál.
Með áframhaldandi meðhöndlun, laus við viðstöðulausa hungurtilfinningu, komust þau á endanum niður í eðlilega líkamsþyngd, og var drengurinn t.d. kominn niður í 50 kg eftir eitt ár.
Telja má að niðurstöður þessar ættu að hvetja til jákvæðara viðhorfs til fólks sem glímir við offitu. Sú staðreynd að við höfum greinilega einhvern innbyggðan líffræðilega veikan blett gagnvart ákveðinni fæðu gæti útskýrt hvers vegna sumt fólk hefur miklu sterkari löngun en aðrir í slíkt.
Líklegast er því að offitusjúklingar séu á einhvern hátt orðnir ónæmir fyrir áhrifum leptíns, þannig að jafnvel þó svo að heilbrigð leptínframleiðsla fari fram í líkama þeirra þá sé eitthvað í efnaskiptarunu þeirri sem kemur skilaboðunum áfram í heilanum sem hefur breyst – þannig að hamlandi áhrif þess komist ekki til skila.
Hvað hefur valdið þessum breytingum er síðan annað mál og óþekkt, en hvort sem það er sjálfskapað eður ei, er ljóst að offita er erfið viðfangs og að líta slíkt hornauga eða bera aumingjaskap á offeitt fólk, er ofureinföldun á margflóknu ástandi.
Heimildir:
New Scientist
- Afstæðar og óbærilegar raunir - 25. mars 2021
- Konan sem vissi ekki að hana vantaði jarðskjálfta - 22. október 2020
- Offita og aumingjaskapur - 15. ágúst 2007