Undanfarið hafa okkur Íslendingum birst auglýsingar af ótrúlega ódýrum tölvum. Verðið hefur lækkað úr því að ódýrustu tölvurnar kostuðu 70 þúsund í fyrra en í ár virðist verðið vera um 50 þúsund krónur. Þessar tölvur eru þó ágætist tölvur og ef væri fyrir þyngra stýrikerfi, þá væru þær fullkomlega góðar.
Eins og góðar húsfreyjur vita hvenær best er að kaupa fötin, vita góðir nördar hvenær best er kaupa tölvurnar en verðið rétt áður en skólar hefjast á haustin er almennt töluvert lægra en það sem gengur og gerist á öðrum tímum ársins. Í ár bregður svo við að þetta verð er lægra en undanfarin ár. Dollarinn hefur verið hagstæður undanfarið, og verð erlendis hefur lækkað en verðlækkunin sem við sjáum núna er hins vegar mun meiri en sem þessu nemur.
Helsta ástæða lækkunarinnar er væntanlega að tölvuverslunum hefur fjölgað í landinu. Fjölmargar litlar verslanir hafa komið til, en einni hefur ein stærri komið inn með miklum krafti. Þar að baki er áralöng reynsla af rekstri slíkra verslana og því menn sem vita hvað þeir eru að fara út í.
Á sínum tíma komu BT á markaðinn og lækkuðu þá verðið verulega og breyttu markaðanum með miklum markaðsherferðum og lægra verði. BT hefur einhvera hluta vegna haldið stöðu sinni sem ódýra tölvubúðin í huga margra, þrátt fyrir að þeir hafi ekki verið sérstaklega ódýrir í mörg ár. Miðað við stöðuna í dag, þá virðast þeir fyrst og fremst lifa á fornri frægð og því hversu duglegir þeir eru að senda bæklinga heim til fólks.
Það er merkilegt að horfa á verslanir eins og EJS, sem hafa greinilega ákveðið að taka ekki þátt í þessari verðsamkeppni eins og undanfarin ár. Hins vegar kynna þeir fyrst og fremst tölvur í fjölmörgum litum.
Þessi þróun er eðlileg og fullkomlega í samræmi við þróun annara markaða, þar sem fjöldaframleiðsla víkur fjölbreyttari útgáfu og sérútfærslum fyrir einstaklinga líkt og það sem skó og gallabuxnafyrirtæki eru nú farin að bjóða upp á.
Það er nánast öruggt að fjölmargar verslanir eru annað hvort að tapa eða hagnast mjög lítið um þessar myndir. Það er því spurning hvaða breytinga er að vænta á þessum markaði. Væntanlega munum við sjá breytingar á þessum markaði þar sem einhverjar búðir munu heltast úr lestinni, aðrar munu einfaldlega aðlaga sig að þessum breyttu aðstæðum.
Þetta eru gleðitímar fyrir neytendur sem geta keypt tölvubúnað á hreint ótrúlegum kjörum, flestar tölvubúðirnar bjóða upp á frábæra verðlista þar sem hægt er á örskotsstundu að bera saman verðin. Þær verslanir sem ekki bjóða upp á verðlista gera það oftast af ástæðu. Nú er bara
að fara út og versla.
- Það er njósnað um þig - 24. febrúar 2021
- Nútímamaður - 11. júlí 2020
- Langa dimma vetur - 10. júlí 2020