Helgin var lituð björtum litum enda setti Gay Pride hátíðin mikinn svip á hana. Dagblöðin fjölluðu um málefni samkynhneigðra, tekin voru viðtöl við þjóðþekkta einstaklinga úr þeirra röðum og myndir og auglýsingar prentmiðlana tóku mið af hátíðarhöldunum.
Markmiðið með hátíðinni er margþætt, til að mynda að flytja boðskap ástar og kærleika og ekki síst að vekja athygli á málefnum og réttindabaráttu samkynheigðra og gleðjast yfir því sem unnist hefur í þeim efnum. Þó að það hljómi í raun skrítið, þá er þarft að minna reglulega á þessi mál og ekki síst að minna okkur á að kenna þeim sem yngri eru, og börnum okkar, að fjölskyldur geta verið af margvíslegum toga – og að ástin sigrar.
Tæplega fjögurra ára snáði, sonur greinarhöfundar, rak þó upp stór augu þegar hann sá myndskreyttar síður dagblaðanna sem meðal annars sýndu tvær brúðir að giftast. „Aah!“ , sagði hann. „Tvær prinsessur að giftast, þetta er ekki rétt, það á alltaf að vera einn prins og ein prinsessa.“ Svo virðist sem að foreldrarnir hafi gleymt því að líta sér nær og kenna sínu eigin barni um margbreytileika tilverunnar. Ábyrgðin liggur greinilega hjá hverju og einu okkar, og svo virðist sem að mikil brotalöm hafi orðið í þessu tilfelli. Heimur litla snáðans einskorðast við hans litla heim, mömmu og pappa, afa og ömmur, leikskólann og ævintýrin sem lesin eru fyrir hann. Úr þessum jarðvegi er sprottin heimsmynd hans og hugmyndir um giftingar og ævintýrin sem fjalla um prins sem bjargar prinsessu, fær hana að launum og að auki hálft konungsríki og saman lifa þau í alsælu það sem eftir er ævinnar.
Þetta var ágæt áminning og reyndar tilefni til að fræða barnið um margrbreytileikann og ástina sem einskorðast ekki við eingöngu við það sem hann þekkir í dag, heldur fer hún sínar leiðir og tekur á sig margar myndir; prins og prinsessu, prinsessur og prinsa.
- Svarið við áskorunum framtíðarinnar en ekki lausnin á vanda nútímans - 2. júní 2020
- Lifum við á fordómalausum tímum? - 9. maí 2020
- Má ég, elskan? - 21. júní 2008