Hýrir knattspyrnumenn

Þessa dagana er verið að sýna í Smiðjunni á Sölvhólsgötu leikritið Heteróhetjur: Með fullri virðingu fyrir Ashley Cole. Sýningin er hluti af ArtFart leiklistarhátíðinni. Sýningin kemur skemmtilega á óvart en inn á milli kynferðislegra atriða leynist ljúfsár ástarsaga.

Þessa dagana er verið að sýna í Smiðjunni á Sölvhólsgötu leikritið Heteróhetjur: Með fullri virðingu fyrir Ashley Cole. Sýningin er hluti af ArtFart leiklistarhátíðinni. Sýningin kemur skemmtilega á óvart en inn á milli kynferðislegra atriða leynist ljúfsár ástarsaga.

Höfundur og leikstjóri verksins er Heiðar Sumarliðason en honum tekst mjög vel til með að skapa söguna sem segir frá ástarsambandi varnarmanna í ensku úrvalsdeildinni. Aðalpersónur verksins eru Ashley Cole og William Gallas en þeir eru leiknir af þeim Hilmi Jenssyni og Hilmari Guðjónssyni. Hugmyndin að leikritinu er sögð hafa kviknað kringum sögusagnir af meintri samkynhneigð Ashley Cole og því þegar varnarmennirnir tveir skiptu um lið. Annar fór frá Arsenal til Chelsea og hinn frá Chelsea til Arsenal.

Höfundur leyfir sér að búa til skemmtilega sögu í kringum það hvað varð til þess að leikmennirnir skiptu um lið. Leikritið er því skáldskapur sem byggir þó á raunverulegum persónum og atburðum. Félagarnir tveir, Hilmir og Hilmar, fara á kostum og eiga hrós skilið fyrir að koma persónum sínum jafn vel til skila og raun ber vitni. Það er sannarlega ekki á allra færi að túlka samkynhneigt par frammi fyrir spéhræddum Íslendingum sem fara að hlæja í hvert skipti sem strákarnir snertast eða kyssast. Það er því við hæfi að sýningin sé í gangi á meðan Gay Pride stendur sem hæst.

Leikstjóranum tekst að skapa trúverðuga sögu um ástarsamband leikmannanna tveggja. Kynni þeirra byrja með daðri á skemmtistað, svo kemur eitt kvöld sem eitthvað gerist í fyrsta skipti milli þeirra, því fylgir byrjunarstig sambands þar sem fólk kemst varla fram úr rúminu og er með stjörnur í augunum. Síðan byrja að koma brestir í sambandið og leikmennirnir reka sig á hindranir sem fylgja nánum kynnum. Þeir eiga lítið sameiginlegt og sjá ekki fyrir sér að sambandið geti enst, enda ekkert grín fyrir leikmenn í úrvalsdeildinni að koma út úr skápnum. Að lokum er það svo afneitunin sem verður ástinni yfirsterkari.

Heteróhetjur: Með fullri virðingu fyrir Ashley Cole er sýning sem fáir ættu að láta framhjá sér fara. Hún er þó kannski ekki við hæfi ungra barna þar sem hún inniheldur gróft orðbragð og kynferðisleg atriði. Aðrir ættu að leggja leið sína í Sölvhólsgötu og sjá eftirtektarverða sýningu og tvo unga, efnilega leikara sem eiga eftir að láta mikið að sér kveða í framtíðinni.

Upplýsingar um sýninguna og miðapantanir eru á síðunni
http://www.myspace.com/heterohetjur

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.