Markaðurinn
Næst mesti titringurinn í landinu, á eftir umræðunni um enska boltann, snéri í vikunni að falli krónunnar og hlutabréfamarkaðsins. Íslenski markaðurinn, og krónan líka í raun og veru, hefur tekið dýfur öðru hvoru síðustu ár. Þetta hefur oft verið kallað “leiðréttingar” í umræðunni og markaðurinn oftast jafnað sig aftur á nokkrum vikum.
Núna horfir svo við að allur heimurinn virðist taka þátt í óróanum og seðlabankar Evrópu og Bandaríkjanna m.a. hafa gripið til aðgerða til að stuðla að því að jafnvægi náist aftur. Það er um margt áhugavert að fylgjast með hvernig þróun sem þessi fer af stað og gengur yfir og hvernig þættir á mörkuðum virkar hver á annan.
Í þessu tilfelli er helst bent á ástand á bandaríska húsnæðismarkaðnum sem upphaf dýfunnar vegna “verri” lána sem nú eru að falla á lántakendur. Bankar halda að sér höndum með lánsfjármagn, fyrirtækin hafa því minni aðgang að peningum, það hindrar þeirra uppbyggingu sem og herðir rekstrarólina, hlutabréf þeirra lækka í verði, hluti fjárfesta fer á taugum og selur hlutabréf, sem aftur veldur miklu framboði umfram eftirspurn sem lækkar verðið enn meira og svo framvegis.
Málið er kannski ekki alveg svo einfalt, en þetta er ein leiðin til að líta á það. Það á víða við að þegar ein kýrin mígur, þá míga þær allar. Sumir líta ekki á málin sem krísu, heldur að nú hafi myndast fullt af kauptækifærum á markaðnum. Í því samhengi rifjaðist upp fyrir undirrituðum viðtal við íslenskan verðbréfamiðlara á Wall Street í kjölfar atburðanna 11. september 2001, þar sem hlutabréf höfðu hríðfallið á mörkuðum í Bandaríkjunum. Hans sýn á ástandið var í grunninn: “Það er ótrúlega mikið af góðum kauptækifærum á markaðnum núna.” Hver veit ?
Alfreð og landsliðið
Það var ánægjulegt að heyra að Alfreð Gíslason hafi ákveðið að taka slaginn eina keppni í viðbót með íslenska handboltalandsliðið. Alfreð var óskakostur flestra handboltaáhugamanna, en var vissulega í erfiðri stöðu vegna stöðu sinnar sem þjálfari þýska liðsins Gummersbach. Í raun er það ótrúlegt að lið eins og Gummarsbach leyfi þjálfara sínum að sinna öðru samskonar starfi á sama tíma. Liðið er í fremstu röð í Evrópu og því í mörg horn að líta á þeim bænum og allt annað en sjálfgefið að ná svona máli í gegn. HSÍ, Alfreð og Gummarsback eiga því öll þakkir skyldar fyrir að veita þessu máli framgang. Já og ekki má gleyma fjölskyldu Alfreðs sem sér sjálfsagt lítið af kallinum sérstaklega þegar nálgast Evrópumótið í janúar.
Nýr sæstrengur
Fyrirtækið Hibernia Atlantic hefur að sögn fréttamiðla áform um að leggja nýjan sæstreng til Íslands. Það er að sönnu fagnaðarefni að einkafyrirtæki sé að velta þessum málum fyrir sér. Það hefur að sönnu það margsýnt sig í gegnum árin að tenging Íslands við umheiminn hefur ekki verið nóg stabíl, sem hefur verið sérstaklega bagalegt fyrir þau fyrirtæki hvers rekstur hvílir að miklu leyti áreiðanlegum gagnatengingum til útlanda. Vonandi verður sem fyrst af þessum áformum.
Enski boltinn
Umræðan um verðlagningu á enska boltanum hefur verið hávær. Í huga undiritaðs stendur þrennt upp úr í þessari umræðu. Í fyrsta lagi eru rétthafar á sýningum frá enska boltanm með verðmæta vöru í höndunum, vöru sem þeir í raun geta verðlagt nokkuð frjálslega án þess að það minnki eftirspurnina svo nokkru nemi. Það hlýtur að vera réttur þeirra að verðleggja vöruna eins og þeim sýnist og eðlilegt að fyrirtækið nýti gullkálfinn til að selja aðra í fjölskyldunni.
Í öðru lagi er alveg ljóst að verðið á enska boltanum sem vöru hefur hækkað. Það nægir að taka einfalt dæmi. Stakur mánuður hefur hækkað úr um 3.000 kr í um 4.400 kr Þetta er 47% hækkun, auk þess sem þeir sem taka staka áskrift af Sýn 2 fá ekki aðgang að hliðarrásunum, nema gera 12 mánaða samning. Fyrir þá sem eru tilbúnir til að festa sig hækkar reikningurinn úr 2.500 kr í 10 mánuði, eða 25.000 kr fyrirtímabilið, í 4.170 í 12 mánuði, eða um 50.000 kr. Þetta er um 100% hækkun.
Í þriðja lagi er ljóst að rétthafar enska boltans hafa auglýst verðið á honum með því að birta það verð sem bætist við reikning áskrifenda sem eru með aðrar stöðvar hjá fyrirtækinu. Þessi framsetning er loðin sem sést best á því ef dæmið er skoðað út frá þeim sem er fyrir með, segjum Sýn og Sýn 2, en bætir við Stöð 2. Sama dæmið, en annar fær Sýn2 á kostakjörum, en hinn Stöð2 og báðir borga það sama í heildina. En nóg um það. Boltinn er að fara í gang, það virðist eiga leggja mikið í umfjöllunina um enska boltann og það er gaman.
Látum þetta duga af atburðum og fréttum vikunnar. Góða helgi.
- Hitamál vikunnar - 11. ágúst 2007
- Allt vitlaust á vellinum - 12. júní 2007
- Stjórnarjafnan - 4. mars 2007