Af atburðum síðustu helgar stendur einkum tvennt upp úr. Kvíðinn fyrir að hlusta á fréttir á mánudagskvöld um hve margir hefðu látist í umferðinni og hve mörgum hefði verið nauðgað reyndist að mestu óþarfur, í fyrsta skipti í mörg ár. Hitt, er af öðrum toga og snýr að skrípaleiknum á Akureyri.
Að Akureyri fyrst; það er ekki öfundsvert að vera í bæjarstjórn Akureyrar þegar kemur að Verslunarmannahelgi. Einhvern veginn er eins og allir hafi gleymt því í umræðunni undanfarna daga að eftir Verslunarmannahelgar undanfarinna ára hefur umræðan um Akureyri snúist að því hvílík hörmung hátíðin „Ein með öllu“ hefur verið fyrir bæjarbúa. Bílar hafi verið rispaðir, menn gert þarfir sínar í garða bæjarbúa eða með öðrum orðum „allt í rúst“. Það eru sjálfsagt bæjarbúarnir sem áttu bílana og garðana sem hafa undanfarna daga hringt í bæjarstjórann og þakkað framtakið þessa helgi, eins og fram kemur í yfirlýsingu bæjarstjórans frá því í gær.
Það telst þó vart í samræmi við sjálfstæðisstefnuna sem bæjarstjórinn starfar væntanlega eftir að banna ákveðnum aldurshópi aðgang að tjaldstæðum bæjarins. Ef ekki er hægt að halda hátíðinni og hátíðargestum í skefjum með öðrum og vægari úrræðum þá verður ekki séð að ástæða sé til að halda slíka hátíð.
Að bílslysum og nauðgunum sem hafa hvílt þungt á þessari helgi þá verður að spyrja hvort forvarnir og umræða séu virkilega farnar að skila árangri. Umferðarráð, lögreglan, Stígamót og karlahópur Feministafélagsins eru hluti af þeim sem hafa haldið uppi umræðu um þessi mál undanfarin ár. Það er vissulega erfitt að meta hvort umræðan sé farin að skila árangri eða hvort hér sé eingöngu um tilviljun að ræða – að helgin hafi að því er virðist gengið nokkuð vel fyrir sig og að fréttum að dæma hafi umferðin ekki gengið jafn vel í tugi ára. Við höfum hins vegar ekki efni á því að taka sénsinn á því að umræðan sé ekki að skila árangri og verðum að halda á lofti umræðu og fræðslu um góða hegðun í umferðinni og þeirri hörmung sem felst í nauðgun. Það vill enginn sjá annað ár í umferðinni eins og árið 2006 þegar banaslys voru 28.
Deiglan óskar ykkur góðrar helgar og biður ykkur um að haga ykkur vel þessa helgi líkt og þá síðustu.
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020