Fyrir nokkrum árum fór þingmaður hamförum í ræðustól á Alþingi og kallaði eftir löggjöf um bann við sjálfskuldarábyrgðum einstaklinga í viðskiptum við fjármálafyrirtæki. Þingmaðurinn minntist hins vegar ekki á afnám helsta skuldaklafa sem einstaklingar takast á hendur, nefnilega sjálfskuldarábyrgðir einstaklinga á námslánum ættingja sinna, hjá lánasjóði íslenskra námsmanna í eigu ríkisins.
Stjórnmálamenn eru nefnilega oft gjarnir að kalla á löggjöf og ýmis konar ofregling sem gilda þurfi um viðskipta einstaklinga og einkaaðila, án þess að sjá að sömu rök gildi um starfsemi ríkisins-og jafnvel í meira mæli.
Fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur á síðustu dögum fjallað um lögmæti þess þegar bankar og sparisjóðir innheimta svonefnt FIT-gjald af viðskiptavinum sínum fyrir hverja færslu sem dregin er á tékkareikning umfram innstæðu, hvort sem það er gert með ávísun eða færslu á debetkorti.
Margir kannast við þetta FIT-gjald. Í hvert skipti sem dregið er á reikning umfram innstæðu sendir Reiknistofa Bankanna út tilkynningu um yfirdráttinn með svokölluðum gulum miða. Upplýsa má lesendur um að FIT er skammstöfun fyrir færsluskrá innstæðulausra tékka.
Talsmaður neytenda hefur tjáð sig um að ólíklegt sé að fjármálafyrirtækjum sé heimilt að innheimta gjald sem er hærra en raunkostnaður við innheimtuna. Fjármálafyrirtæki megi því aðeins innheimta kostnað af viðskiptavinum sínum sem nemur raunkostnaði við innheimtu svo sem með útsendingargjaldi tilkynningar. Grunn innheimtu bankanna telur talsmaðurinn vera skaðabótakröfu og því megi bankar ekki innheimta kostnað sem er hærri heldur en kostnaðurinn sem þeir bera í raun og veru af innheimtunni.
Í fréttum RÚV hefur verið haft eftir framkvæmdastjóra samtaka fjármálafyrirtækja sagt að gjaldið séu viðurlög sem bankar innheimti með stoð í ákvæðum tékkalaga, enda liggi allt að þriggja mánaða fangelsi við því að gefa út innstæðulausan tékka.
Á grundvelli þessa hefur síðan verið haft réttilega eftir Róbert Spanó lagaprófessor að fjármálafyrirtæki eða aðrir einkaaðilar geti ekki úthlutað sjálfir refsingum á grundvelli laga.
Slík sjálftaka brýtur enda í bága við almenn hegningarlög
Haft hefur verið eftir viðskiptaráðherra , að hann teldi ástæðu til að endurskoða FIT kostnað og að lagagrunnur fyrir innheimtu sé ekki nægilega traustur og ætlar að beita sér fyrir endurskoðun laga á komandi þingi.
Framkvæmdastjóra samtaka fjármálafyrirtækja, talsmanni neytenda, sem og viðskiptaráðherra skjátlast í þessu efni.
Innheimta FIT-kostnaðar er hvorki skaðabótakrafa eins og talsmaður neytenda heldur fram, né sú að bankar séu að leggja sjálfir á refsikennd viðurlög samkvæmt ákvæðum laga. Kostnaðurinn er það sem nefnt hefur verið samningsbundið févíti, sem samið er um milli aðila. Slíkt févíti lýtur ekki reglum skaðabótaréttar og þarf févítið því ekki að endurspegla raunkostnað svo sem ef um skaðabótakröfu væri að ræða.
Við stofnun tékka og debetreikninga er vísað til skilmála og verðskráa bankanna. Í skilmálum og verðskrá er getið um heimild til innheimtu FIT-kostnaðar. FIT kostnaður byggir þannig að reikningshafi undirgengst skilmála bankans við opnun reiknings.
Tilgangur samningsbundins févítis er sá að koma í veg fyrir að gagnaðilinn framkvæmi eitthvað eða láti eitthvað ógert sem skilgreint er samkvæmt samningnum.Tilgangur innheimtu FIT-kostnaðar er því óumdeilanlega sá að letja viðskiptamenn til þess að draga á reikning umfram innstæðu. Telja verður ástæðu þessa aðallega vera fjórþætta.
Í fyrsta lagi að koma í veg fyrir að viðskiptavinir skammti sér fyrirgreiðslu í formi slíks yfirdráttar án heimildar bankans. Hafa verður í huga að bankinn þarf að fjármagna yfirdrætti viðskiptavina sinna, og verður að hafa einhvern hemil á slíku útláni sem er án hans heimildar. Er hér því um að ræða útlán sem bankinn getur ekki áætlað eða fjármagnað fram í tímann.
Í öðru lagi er verið að letja viðskiptavin til þess að eyða um efni fram og skammta sjálfum sér fyrirgreiðslu eftir smekk og þörfum í eins konar sjálfsafgreiðslu. FIT-kostnaður letur fólk til þess að fara yfir á reikningi og stofna til skulda sem ekki hafa verið samþykktar.
Í þriðja lagi hlýtur ástæðan að vera sú að fjármálafyrirtæki eru að minnka tapshættu sína. Nú gætu margir spurt sig hvort hér sé ekki um þversögn að ræða þar sem FIT-kostnaðurinn sjálfur sé himinhár. Með því að hafa hemil á slíkri sjálfskömmtun viðskiptavina, minnkar bankinn áhættu sína á því að tapa yfirdregnum fjárhæðum sem og að fjárhagur viðskiptavina bíði hnekki svo ekki verði þar úr bætt. Þannig gætu einnig önnur útlán viðskipavinar verið í hættu fari viðskiptavinur verulega yfir á reikningi.
Í fjórða og síðasta lagi verða bankar fyrir kostnaði við yfirdráttinn sem eðlilegt er að viðskiptavinur greiði. Er um að ræða útsendingargjöld tilkynninga og umsýsla sú og eftirlit sem framkvæmda þarf vegna óheimils yfirdráttar.
Innheimta samningsbundins févítis er ekki takmörkuð eða bönnuð af löggjöf og ummæli talsmanns neytenda og viðskiptaráðherra um að lagagrunnur innheimtunnar sé ekki nægilega traustur á ekki við rök að styðjast. FIT-kostnaður er ekki innheimtur samkvæmt heimild í lögum heldur samkvæmt samningi banka og viðskiptavinar. Vissulega væri hægt samkvæmt almennri ógildingarreglu samningalaga að víkja slíkum samningsákvæði til hliðar væri það talið ósanngjarnt.
Það er því engin ástæða fyrir viðskiptaráðherra að beita sér fyrir endurskoðun laga, enda er það trauðla hlutverk löggjafans að setja sértækar lagareglur sem takmarka eða koma í veg fyrir slík samningsákvæði. Það má heldur ekki gleyma því að almennt eru viðskipti frjáls og gjalda ber varhug við að lögfesta reglur gegn frjálsu samningssambandi borgaranna.
Það má einnig benda viðskiptaráðherra að á tímum þenslu og verðbólgu í samfélaginu, er æskilegt að stjórnmálamenn beiti sér fyrir sparnaði í hagkerfinu í stað þess að beita sér fyrir aðgerðum sem hafa hvetjandi áhrif á þenslu. Almennt er einnig talið að það sé lofsvert og æskilegt í samfélagi að stuðla að sparnaði og ráðdeildarsemi, í stað þess að umbuna annars konar hegðun.
Í allri umræðunni um FIT-kostnað hefur mikilvægasta atriðið þó gleymst. Hér er ekki um að ræða gjöld sem viðskiptavinir er rukkaður um fyrir þjónustuna, heldur viðurlög sem hann er beittur brjóti hann gegn ákvæðum samnings um tékkaviðskipti. Viðskiptavinur á sjálfur að vita hver innstæða hans er á reikningi og gæta þess að draga ekki á hann umfram þá innstæðu. Ábyrgðin á slíkum óleyfilegum yfirdrætti er því á ábyrgð hans sjálfs og honum í sjálfsvald sett.
Það verður að gera þá kröfu á embættismenn að þeir kynni sér mál til hlítar áður en þeir fjalla um þau í fjölmiðlum. Ummæli talsmanns neytenda virðist benda til þess að hann hafi litið illa eða losaralega á málið, enda ummæli hans öll í ósamræmi við staðreyndir málsins og þar fyrir utan röng. Er slíkt embættinu til lítils sóma.
Sínum augum lítur hver á silfrið. Deila má um fjárhæð FIT-gjalda bankanna og hvort æskilegt sé að þeir innheimti slík gjöld eða ekki.
Um lögmæti gjaldtökunnar verður hins vegar ekki deilt, sama hvort talsmaður neytenda telji gjaldið ólögmætt eður ei.
- Kveikt er ljós við ljós – burt er sortans svið - 24. desember 2020
- Hæstivirtur forseti,Royal Straight Flush! - 21. febrúar 2008
- Má Kaupþing þetta? - 7. nóvember 2007