Næsta laugardag hefst keppnistímabilið 2007/2008 í ensku úrvalsdeildinni. Knattspyrnuáhugafólk er líkast til farið að iða í skinninu enda verða hátt í 380 beinar útsendingar í boði fyrir áskrifendur Sýnar 2.
Þrátt fyrir allan þennan fjölda af beinum útsendingum frá leikjum tímabilsins liggur í augum uppi að ekki verður hægt að horfa á þær allar. Ástæðan er einfaldlega sú að yfirleitt fara að lágmarki 5 leikir í viku hverri fram á sama tíma. Engu að síður mun eldheitt áhugafólk geta horft á endursýningu frá þeim leikjum sem það kýs að horfa ekki á í beinni útsendingu. Heildartími þessara leikja spannar litlar 570 klukkustundir eða rétt tæpa 24 sólahringa. Til viðmiðunar þá er vinnumánuðurinn (þar sem unnar eru 8 klukkustundir á virkum dögum en ekkert um helgar) um 170 klukkutímar. Allra harðasta knattspyrnuáhugafólksins bíður því ríflega þriggja mánaða vinnutörn þessa knattspyrnuvertíð og þá aðeins við að fylgjast með ensku úrvalsdeildinni. Sýn 2 mun einnig bjóða upp á fjölda leikja úr B-deild enskrar knattspyrnu og haug af umfjöllunarþáttum tengdum íþróttinni.
Þetta er þó aðeins byrjunin því sjónvarpsstöðin Sýn mun síðan sýna Meistaradeildina, báðar ensku bikarkeppnirnar og landsleiki. Það er erfitt að segja til um hversu mikil yfirvinna er þarna í boði en hún er töluverð. Þess ber líka að geta að hér er aðeins verið að tala um knattspyrnutengda afþreyingu. Aðrar íþróttir skipa einnig stóran sess á Sýn og því á fjölhæfara íþróttaáhugafólk von á enn meira álagi en það sem fylgist aðeins með knattspyrnunni.
Svo gríðarleg hollusta við áhugamál er oft dýrum dómi keypt. Í fyrsta lagi munu 365 miðlar rukka viðkomandi um 7.227 krónur í hverjum mánuði fyrir aðgang að fyrrgreindum sjónvarpsstöðvum. Í annan stað fylgir oft mikil einangrun frá vinum og fjölskyldumeðlimum (öðrum en þeim sem deila áhuga viðkomandi). Og í þriðja lagi er hætta á töluverðu stressi og vanlíðan ef uppáhaldsliði viðkomandi gengur ekki sem skyldi.
Það er því ekki seinna vænna fyrir aðstandendur kappsfulls íþróttaáhugafólks að fara undirbúa sig fyrir komandi átök. Fyrsta boðorðið er að sjálfsögðu aðgát í nærveru svo tilfinningaríkra einstaklinga. Ráðlegast er að mikil kyrrð ríki í kringum helgidóminn og yfirleitt er best að tala ekki nema áhugamanneskjan eigi fyrsta orðið. Enn fremur er mikilvægt að stjana vel í kringum viðkomandi á milli leiktíma. Létt axlarnudd í hálfleik getur til að mynda forðað stresstengdri vöðvabólgu en þó verður að tryggja að því sé lokið að lágmarki 3 mínútum áður en leikur hefst að nýju.
Í lokin er best að ítreka að ekki skal nokkurn tímann hefja umræður um knattspyrnutengd málefni (nema aðstandandinn sé mjög vel að sér) og því síður að voga sér að gera tilraun til leiðréttingar á máli áhugafólksins. Þess konar innslög geta haft skelfilegar afleiðingar.
- Fimm til að fylgjast með - 17. ágúst 2011
- Raunveruleika útgáfan af FM (CM) afturkölluð af UEFA - 15. júlí 2011
- Þorláksmessa knattspyrnuaðdáenda - 10. júní 2010