Í dag eru allir stjórnmálaflokkar landsins og þorri þjóðarinnar á einu máli um að allir landsmenn eigi að hafa jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags. Pólitískar deilur um heilbrigðismál snúast að mestu um það hvers konar rekstrarform leiði til mestrar hagkvæmni og bestrar þjónustu í heilbrigðismálum. Hér er um einstaklega flókna spurningu að ræða og því ekki óeðlilegt að sitt sýnist hverjum.
En getur það gengið til lengri tíma að allir hafi jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags? Allar efnaðar þjóðir heims eyða nú æ stærri hluta þjóðartekna sinna í heilbrigðismál. Hlutur heilbrigðisþjónustu í VLF hefur aukist hægt og bítandi en algjörlega án afláts síðustu 50 árin. Og ekkert bendir til þess að sú þróun muni breytast. Raunar má færa sterk rök fyrir því að vægi heilbrigðisþjónustu í VLF muni halda áfram að aukast þar til við eyðum á endanum bróðuparti tekna okkar í heilbrigðisþjónustu.
Í þessu samhengi benti Kenneth Rogoff á eftirfarandi í nýlegum pistli:
“Eitt er að tryggja öllum jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu þegar útgjöld til heilbrigðismála eru 5% af VLF, eins og þau voru snemma á 6. áratuginum í Bandaríkjunum. Annað er að gera þetta sama þegar heilbrigðisútgjöld eru 16% af VLF ein og þau eru í dag og það mun vera enn vandasamara ef heilbrigðisútgjöld fara í 30% af VLF eins og sumir leiðandi hagfræðingar eins og David Cutler, Robert Hall og Charles Jones hafa haldið fram að muni gerast. Með heilbrigðismál sem 30% af VLF munu tilraunir til þess að viðhalda jöfnuði byrja að líkjast Marxisma.”
Ef vægi heilbrigðisútgjalda heldur áfram að vaxa mun á endanum þurfa að koma að því að einhver hluti heilbrigðisþjónustu verði veittur á frjálsum markaði án fjárstuðnings frá ríkinu. Það mun vera mikilvægt verkefni stjórnmálamanna á næstu áratugum að finna skynsamlega skiptingu milli þeirrar heilbrigðisþjónustu sem allir eiga að hafa aðgang að án tillits til efnahags og hins sem einungis þeir efnuðu munu geta leyft sér. Ef stjórnmálamenn framtíðarinnar horfast ekki í augu við þetta verkefni munu ókostir sósíalísks hagkerfis verða meira og meira áberandi.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009