Nú til dags eru það ekki bara föt sem fara á útsölur. Þú getur fengið þér glænýja dollara á góðu verði. Neytendasamtökin henda sér inn í umræðuna um gengisbundin lán og hafa þeir að mínu mat ekki bætt hana heldur gert hana óskiljanlega fyrir marga og birt villandi greinar á heimasíðu sinni. Gjaldeyrisstefna Neytendasamtakanna er ekki til fyrirmyndar.
Neytendasamtökin bera fram hræðsluáróður á heimasíðu sinni, sem samkvæmt skýru banni á síðunni má ekki vitna í. Því mun ég auðvitað ekki vitna beint í fréttina sjálfa eða heimasíðuna. Hins vegar tel ég þetta sem opinbera skoðun samtakanna og get því ekki séð neitt rangt í því að taka til umræðu skoðun þeirra sem hafa það markmið að vernda hagsmuni okkar neytenda. Ég veit ekki hver hagfræðingur þessara virðulegra samtaka er, en höfundur greiningarinnar á heimasíðu samtakanna sem ég vitna ekki í, hefur greinilega ekki gert heimavinnu sína. Neytendasamtökin ráðleggja okkur að greiða niður öll lán í erlendum myntum. Vita þeir um hvað þeir eru að tala?
Flestir þurfa til dæmis að taka lán í íslenskum krónum til að greiða upp lán sín í erlendum myntum. Það er oft frekar augljós ástæða fyrir því að fólk tekur lán í það fyrsta. Það er ekki einungis gert til gamans og eiga þessir aðilar ekki alltaf auðvelt með að greiða niður lán án þess að taka nýtt lán. Er það ekki þá það sem Neytendasamtökin eru að ráðleggja fólki að gera? Færa lánin úr erlendum myntum og yfir í íslenskar krónur? Uppgreiðslugjöld á láni geta verið allt frá 0,1% af lánsfjárhæð og upp í t.d. 5%. Eru verðtryggðu eða óverðtryggðu lánin í íslenskum krónum eitthvað betri? Skulum ekki gleyma nýju lántökugjaldi og hugsanlega öðrum gjöldum sem bætast við þegar nýtt lán í íslenskum krónum er stofnað. Neytendasamtökin fara að mínu mati með villandi hræðsluáróður sem er mjög óheppilegur. Samtökin taka til dæmis ekki til greina á hvaða gengi lánið var tekið í upphafi.
Hlutverk Neytendasamtakanna
Mín skoðun er sú að Neytendasamtökin hafa farið vel út fyrir svið sitt í þessu máli. Það gengur ekki að slík samtök taki sér leyfi til að birta einhverjar lauslegar greiningar sem eiga varla við rök að styðjast. Það má alveg vera að margt sé rétt í tölfræði samtakanna, en eins og með alla tölfræði og greiningu þá skiptir máli hvernig niðurstöður eru lagðar fram og orðalag ráðanna sem verið er að gefa.
Þróun gjaldmiðla
Segjum að við höfum tekið langtímalán í erlendum myntum árið 1993, og þá lán til 40 ára. Hefur þetta verið svona óhagstætt öll þessi ár? Hér fyrir neðan er tafla sem sýnir breytingu á gengi gjaldmiðla miðað við 1.ágúst árið 1993 annars vegar og 1.ágúst árið 2007 hins vegar.
Bandaríkjadalur USD 72,680 62,820 -13,57 %
Sterlingspund GBP 107,610 127,180 18,19 %
Kanadadalur CAD 56,540 58,970 4,30 %
Dönsk króna DKK 10,725 11,532 7,52 %
Norsk króna NOK 9,742 10,729 10,13 %
Sænsk króna SEK 8,736 9,259 5,99 %
Svissneskur franki CHF 47,680 52,110 9,29 %
Japanskt jen JPY 0,693 0,532 -23,21 %
SDR XDR 101,060 96,160 -4,85 %
USD hefur lækkað um 13,57%, Yen hefur lækkað um 23,21%. Svissneskur franki hækkaði hins vegar um 9,29% og GBP hækkaði um 18,19%. Á hinn bóginn hækkaði vísitala neysluverðs um 61% (eða úr 169,2 í ágúst 1993 í 273 í ágúst 2003). Þetta er frekar einfalt, það hefur verið hagstætt að vera með langtímalán í erlendum myntum. Auðvitað skiptir máli hvaða tímapunktar eru teknir varðandi gengisbreytingarnar en til lengri tíma er innlent verðlag, eins og það er mælt, að hækka langt umfram hækkanir gjaldmiðla. Vaxtamunurinn hefur líka verið verulegur og ekki er von á einhverjum miklum breytingum á þessu ef til lengri tíma er litið. Til dæmis spáir Landsbankinn áfram sterkri krónu.
Deiglupenninn Jón Steinsson ritaði pistil um gengisbundin lán og stöðu þeirra til skammtíma og langtíma. Þar tekur hann vel fram þá áhættu sem fylgir því að taka lán í erlendum myntum til skamms tíma en að slík lán er vænlegur kostur til lengri tíma. Þegar farið er í lántöku, þá ber manni ávallt að fara hægt og varlega í málin og meta stöðuna út frá eigin efnahagsástandi. Með gengisbundin lán verður lántaki að geta borið kostnað á tímabundnum sveiflum. Sækið ráð hjá aðilum sem bera þekkingu á gjaldeyrismálum og þá hjá einhverjum öðrum en hagfræðingum Neytendasamtakanna.
- Nafnlausi kröfuhafinn - 26. júní 2009
- Hello Europe! - 16. maí 2009
- Fjárframlög til stjórnmálaflokka - 11. apríl 2009