Kunnuglegt stef úr umræðunni er að lítill munur sé á stefnu stjórnmálaflokka og þetta sé meira og minna allt sami grauturinn. Sú fullyrðing er ekki alfarið úr lausu lofti gripin, jafnvel vinstrisinnuðustu flokkar í pólitíkinni í dag samþykkja t.d. markaðshagkerfið og frjálst atvinnulíf. Það kemur þó fyrir að settar eru fram skoðanir og sjónarmið sem eru algerlega laus við allar málamiðlanir og miðjumoð. Nýleg grein á Kistunni er gott dæmi um þetta en þar ritar Árni Daníel Júlíusson bókardóm um bókina Samfélagsleg áhrif verkalýðshreyfingarinnar. Framtíðarsýn á 21. öldinni.
Í bókardómnum eru raktar þær greinar sem skrifaðar eru í bókina en samhliða spyr Árni hvers vegna staða verkalýðshreyfingarinnar hér á landi sé eins og hún er. Greining greinarhöfunda í bókinni á stöðunni er að sú að verkalýðshreyfingin hér sé fagleg en hafi lítil pólitísk áhrif. Árni spyr sjálfur ýmissa áhugaverðra spurninga um ástæður þess að svo sé komið fyrir verkalýðshreyfingunni og róttækri vinstri stefnu hér á landi.
Ég gríp niður í vangaveltur nafna míns:
„Fulltrúar kapítalismans hafa rekið og reka áróður fyrir því að sósíalisminn hafi verið mistök og verkalýðsstéttin eigi ekki að láta sig dreyma um neitt annað en núverandi „neysluparadís“ og frjálst markaðskerfi.“
Og:
„Þetta mætti orða þannig að verkalýðsstéttinni hafi verið sagt upp störfum í kjarnaríkjum auðvaldsins á Vesturlöndum. Það var lausnin á lækkandi gróðahlutfalli auðmagns um 1970, sem aftur stafaði af of mikilli atvinnu, of háum launum og of góðu velferðarkerfi. Efnahagsleg lögmál kapítalismans leyfðu ekki að haldið væri áfram að byggja upp velferðakerfið.“
Árni segir upphaflegar kröfur verkalýðshreyfingarinnar enn vera í fullu gildi. Þetta kallar hann full félagsleg mannréttindi, sem eru nánar tiltekið réttur allra til húsnæðis, rétt kvenna til jafnstöðu á við karla, rétt allra til mannsæmandi afkomu og öryggis í starfi og rétt allra til þess að búa við félagslegt öryggi á sviði menntunar, heilbrigðismála og menntunarmála.
„Börn verkalýðsstéttarinnar eiga að hafa raunverulegt jafnrétti til náms á við börn millistéttarinnar, heilbrigðisþjónusta á að vera öllum aðgengileg og ókeypis og gamla fólkið á að búa við öryggi á ævikvöldinu.“
Stundum eru þeir sem hafa háleitar hugmyndir sakaðir um að setja ekki samtímis fram hugmyndir um hvernig skuli fjármagna þær. Árni Daníel er þó ekki í þeirra hópi, því um fjármögnun segir hann:
„Nóg er til af peningum og kannski nægir að þjóðnýta bara eitt af auðfyrirtækjum okkar til að framkvæma þetta allt.“
Maðurinn er ekki bara með hugmyndir um fjármögnun – hann er í þokkabót diplómatískur, sbr. að aðeins yrði þjóðnýtt eitt auðfyrirtæki. Ekki öll, ekki helming, bara eitt. T.d. bara einn banka. Hinir mættu vera til staðar áfram.
Eins og áður sagði reka svona beinskeyttar skoðanir ekki á fjörur netlesenda á hverjum degi. En það er ef til vill ástæða fyrir því að pólitískir áhugamenn af vinstri væng stjórnmálanna hættu að tala um þjóðnýtingu einkafyrirtækja og hafa jafnvel hætt að setja sig upp á móti einkavæðingu ríkisfyrirtækja.
Ástæðan er tiltölulega einföld. Hún er ekki sú að verið sé að auka ójafnrétti í þjóðfélaginu eða moka undir auðstéttina. Heldur þvert á móti vegna þess að með slíkum breytingum verða til aukin verðmæti í þjóðfélaginu sem allir njóta góðs af. Sá sem vill efla velferðarkerfið hlýtur að samþykkja að slíkt kosti peninga. Til þess verður verðmætasköpun að eiga sér stað í þjóðfélaginu og málið er ekki flóknara en svo fyrirtæki í frjálsri eign skapa meiri verðmæti fyrir sameiginlega sjóði okkar en ríkisrekin fyrirtæki og atvinnulíf sem er sligað vegna skattlagningar og reglna.
Besta dæmið um þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn á þingi síðasta vetur. Þar kemur fram hvað ríkið fær í sinn hlut í tekjuskatt frá bönkum og sparisjóðum. Árið 1994 fékk ríkið í sinn hlut um 200 milljónir frá þessum fyrirtækjum á ári. Árið 2006 fékk ríkið 11,3 milljarða frá þessum sömu fyrirtækjum. Það er m.ö.o. 55-földun á þeim tekjum sem ríkið hefur til umráða.
Það er reyndar önnur saga hvort æskilegt sé að ríkið tútni út af peningum. Svar vinstrimanna, sem vilja tryggja félagsmannréttindi og mannsæmandi afkomu allra, við þeirri spurningu hlýtur þó að vera jákvætt. Til þess að ríkið geti sinnt því hlutverki að byggja upp velferðarkerfið, sjá fólki fyrir heilbrigðisþjónustu og menntun á sanngjörnum kjörum og sinnt öðrum skyldum sem á því liggja, hlýtur ríkið að vilja haga reglum með þeim hætti að ríkið fái aukna fjármuni í kassann.
Þó það hljómi undarlega fyrir marga þá er öflugt atvinnulíf og góður efnahagur besta leiðin til að tryggja velferð þeirra sem á aðstoð þurfa að halda. Árangur Íslands í þessum efnum er óumdeildur. Við erum í toppsætum nánast allra þeirra lista sem bera saman lífsgæði þjóða.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021