Nú er staddur hér á landi hópur fólks, eitthvað um tuttugu manns að því er virðist vera, sem hafa horn í síðu tiltekins iðnaðar og ákveðinnar tegundar af orkuöflun. Undir merkinu ‘Saving Iceland’ fer þessi hópur um og boðar eyjaskeggjum hér fagnaðarerindi sitt.
Fjölmiðlar hafa veitt þessum söfnuði óskaplega athygli og fer þar fremst í flokki Morgunblaðið, kirkja skandífasismans. Á forsíðu blaðsins er slegið upp frétt af aðgerðum hópsins við álverið að Grundartanga í gær.
Undanfarin ár hefur átt sér stað gagnleg umræða um gildi umhverfisverndar og þeirra verðmæta sem falin eru í óspilltri náttúru. Náttúruverndarsinnar hafa látið til sín taka í flestum stjórnmálaflokkum og umhverfismálin voru ofarlega á baugi í nýafstöðnum kosningum.
Sannir náttúruverndarsinnar eiga hins vegar enga samleið með því hampreykjandi hippapakki sem nú gerir landanum lífið leitt. Raunin er sú að athæfi þessa hóps veikir málstað þeirra sem bera hag umhverfisins sannarlega fyrir brjósti og hafa haldið uppi málefnalegri umræðu þar að lútandi á síðustu misserum.
Af sama meiði er hið ógeðfellda uppátæki Als Gores og félaga í skemmtanabransanum að slá sig til riddara í nafni umhverfisverndar með tónleikahaldi um víða veröld. Hverjum þeim sem fylgdist með þeim ósköpum gat ekki dulist tvískinningurinn og yfirborðsmennskan sem þar draup af hverjum manni.
Fjölmiðlar eru hins vegar mjög uppteknir af svona löguðu og lepja gagnrýnislaust upp hamfararaus og heljarspár þessara sjálfskipuðu verndara mannkyns. Tvískinningurinn er æpandi þegar hingað til lands kemur fólk að hamast gegn nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa.
Ekki verður deilt um rétt þessara vesalinga til að halda á lofti sínum skoðunum, hann er vissulega til staðar. Það sem gagnrýna má og gagnrýna ber í þessu sambandi er auðvitað fyrst og fremst sú athygli sem fjölmiðlar sýna þessum fíflagangi.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021