Það er ljóst að á Íslandi í dag á frjálslyndi undir högg að sækja og andstæðingar hennar eru í mikilli sókn. Þetta má sjá allsstaðar og með því að láta breytingarnar gerast nógu hægt er sefjunarsjúkur almenningur ekki vakinn uppúr flatskjásfellihýsadraum sínum.
Öryggismyndavélum fer stöðugt fjölgandi sem þýðir að við eigum æ færri stundir án þess að fylgst sé með okkur. Þróunin er í átt að fjölgun á vélum frekar en fækkun.
Ríkisvaldið heldur uppi ríkisstofnunum (sem heita þó stofur eða stöðvar) sem hafa það markmið að segja eigendum og greiðendum þessarra sömu stofnanna hvað eigi að borða, hversu mikið eigi að hreyfa sig og hversu hratt eigi að aka.
Reglugerðir hrúgast upp og sífellt verður erfiðara að fóta sig í heimi skrifræðishyggjunnar. Við síðustu talningu þá þurfti 33 leyfi og stimpla til þess að opna kaffihús. Núna um helgina mætti svo „Víneftirlitið“ og tilkynnti nokkrum kaffihúsum að það væru of mörg borð úti á gangstétt!
Áfengisneysla fer líka illa í landann, fjöldi tjaldstæða er byrjaður að setja sér aldurstakmörk svo þeir þurfi ekki að sjá drukkið ungt fólk (engar athugasemdir við drukkið gamalt fólk að því er virðist). Verkalýðs (lýður rétta orðið hér) félagið VR hefur bannað fólki á aldrinum 18-20 ára að nota bústaði sína (sjá Deigluna fyrir skömmu)
Dans fáklædds fólks virðist vera einn mesti skaðvaldur samtímans ef marka má umræður undanfarinna missera og gengur vinna vel við að útiloka fólk frá því að stunda þessa iðju. Siðferði landsmanna batnar líklegast um 1,5 hektópasköl þegar það verður gengið í gegn og Oprah Winfrey mun fagna með landanum.
Internetlögregla er nýjasta hugmyndin og þykir snilld enda er henni beitt gegn barnaníðingum. Ef þú ert á móti internetlögreglu ert þú þannig orðinn stuðningsmaður barnaníðinga.
Núna síðast varð það synd að keyra bíl og eiga landsmenn að versla koltvísýringsaflátsbréf á heimasíðunni kolvidur.is (Deiglugrein um málið). Engin aflátsbréf eru til fyrir annan útblástur og aðra mengun en það hlýtur að styttast í það.
Frjálslynt fólk er í eðli sínu umburðarlynt gagnvart nágrönnum sínum, við þurfum þó að hafa varann á þegar sótt er jafn harkalega að réttindum okkar og raunin virðist vera í dag.
Ekki virðist vera vanþörf á.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021