Í upphafi er vert að minnast þess að Björgólfur festi kaup á West Ham United í nóvember 2006 og greiddi fyrir félagið í kringum 85 milljónir punda, þá að jafnvirði 11,4 milljarða íslenskra króna. Enn fremur yfirtók hann skuldir félagsins sem námu 22,5 milljónum punda, jafngildi ríflega 3 milljarða íslenskra króna. Samtals nam því fjárfestingin um 14,4 milljörðum króna.
Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og ófá pundin einnig. Ekkert lið í ensku úrvalsdeildinni, og því hugsanlega í heiminum, hefur eytt jafn miklum fjármunum í leikmannakaup á þessu ári og West Ham United. Í félagaskiptaglugganum í janúar fjárfesti félagið í alls fimm nýjum leikmönnum sem kostuðu samtals í kringum 16,5 milljónir punda (ríflega 2 milljarðar króna á núverandi gengi). Dýrasti leikmaðurinn (6 milljónir punda) sem liðið keypti í janúar var varnarmaðurinn Matthew Upson sem náði aðeins að spila 2 leiki eftir að hann kom til félagsins vegna þrálátra meiðsla.
Þrátt fyrir viðamiklar fjárfestingar átti liðið í stökustu vandræðum með að knýja fram jákvæð í úrslit í viðureignum sínum og háði blóðuga fallbaráttu fram á síðasta leikdag. Það fór þó betur en á horfði og liðinu tókst með naumindum að tryggja tilverurétt sinn meðal fremstu knattspyrnuliða Englands. Þó er hugsanlega ofsagt að liðið hafi tryggt tilveruréttinn, enda var það einna helst fyrir ótrúlegt einstaklingsframtak Carlos Tevez sem West Ham hélt sæti sínu í deildinni. Sá knái leikmaður er annar kapítuli í útgjaldaliðum félagsins en liðið fékk hæstu sekt í sögu enskrar knattspyrnu, 5,5 milljónir punda, vegna vafasamra félagaskipta leikmannsins síðasta haust. Það var þó fyrir tíma Björgólfs og Eggerts en engu að síður varð kostnaðarliðurinn þeirra.
Í sumar hafa þeir félagar opnað budduna aftur og hafa fram til þessa dags fjárfest í þremur nýjum leikmönnum að andvirði 20,6 milljóna punda. Þar á meðal ólátbelgnum og áhugakylfingnum Craig Bellamy, sem mun þiggja 70 þúsund pund á viku fyrir störf sín. Það er þó ólíklegt að þeir láti þar við sitja og nú gefa óstaðfestar heimildir til kynna að félagið hafi boðið 5,5 milljónir punda í Diomansy Kamara, leikmann West Bromwich Albion. Einnig er gaman að geta þess að Darren Bent mun hafa hafnað að ganga til liðs við félagið eftir að West Ham og Charlton, þáverandi atvinnuveitandi Bent, munu hafa samþykkt kaupverð uppá 17 milljónir punda.
West Ham hefur þó ekki eingöngu fjárfest í sumar en þeir hafa hingað til selt tvo leikmenn, þar á meðal fyrirliðann Nigel Reo-Coker, fyrir samtals um 9,5 milljónir punda.
Það er áhugavert að taka saman þessi útgjöld en þau ættu að liggja svona fyrir:
Kaup á félagi: 88,5 milljónir punda (11.400 milljónir króna)
Yfirtaka skulda: 22,5 milljónir punda (3.000 milljónir króna)
Leikmannakaup: 37,1 milljón punda (4.547 milljónir króna)
Sekt: 5,5 milljónir punda (674 milljónir króna)
Sala leikmanna 9,5 milljónir punda (1.164 milljónir króna
Heildarútgjöld: 144,1 milljón punda (18.457 milljónir króna)
Samkvæmt þessum mjög svo grófu útreikningum má sjá að heildarkostnaður við þá liði sem hér eru teknir fyrir slagar í tæplega 18,5 milljarða íslenskra króna. Þess má geta að hagnaður Landsbankans árið 2005 nam 25 milljörðum króna.
Þeir skvetta skyrinu sem eiga það.
- Fimm til að fylgjast með - 17. ágúst 2011
- Raunveruleika útgáfan af FM (CM) afturkölluð af UEFA - 15. júlí 2011
- Þorláksmessa knattspyrnuaðdáenda - 10. júní 2010