Ef stjórnandi einkafyrirtækis óskar eftir meiri samkeppni er hann að öllum líkindum annaðhvort að reyna að bæta stöðu fyrirtækisins gagnvart samkeppnisyfirvöldum eða öðrum stjórnvöldum, eða þá að hann er genginn af göflunum. Því þótt samkeppni sé góð fyrir neytendur og stuðli að hagræðingu í rekstri, þá er mun erfiðara fyrir fyrirtæki að skila miklum hagnaði ef samkeppnisaðilar þrýsta verðinu niður.
Því var eftirtektarvert þegar Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, bað um aukna samkeppni. Ingimundur er auðvitað ekki stjórnandi einkafyrirtækis, heldur ríkisfyrirtækis, og hefur því ekki jafnþröng markmið og forstjórar einkafyrirtækja, sem eru ráðnir fyrst og fremst til að auka hag hluthafanna. Reyndar virðist hann hafa staðið sig vel á því sviði, því sú mikla endurskipulagning og hagræðing sem átt hefur sér stað á undanförnum árum innan Íslandspósts hefur að öllum líkindum aukið verulega verðmæti fyrirtækisins og hækkað líklegt söluverð þess ef og þegar það verður einkavætt.
En eigandi Íslandspósts, íslenska ríkið, hefur önnur markmið en að hámarka tekjur sínar, meðal annars þau að stuðla að virku og öflugu atvinnulífi og þjónustu á sem flestum sviðum. Sagan sýnir að einhver besta leiðin til þess er að auka samkeppni. Aukin samkeppni er líka óumflýjanleg, því samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins ber innan tíðar að afnema þann einkarétt sem nú er í gildi á póstdreifingu bréfa sem eru léttari en 50 grömm. Þótt fresturinn hafi nýlega verið aukinn þarf að afnema einkaréttinn eigi síðar en 2011.
Jafnvel þótt forstjóri Íslandspósts væri hikandi við að takast á við nýtt umhverfi, ættu Alþingi og samgönguráðherra að leggja áherslu á að einkarétturinn yrði afnuminn fyrr frekar en síðar. Þegar liggur fyrir að forstjórinn telur fyrirtækið tilbúið til að takast á við samkeppni og að „það sé heppilegt að afnema einkarétt á póstdreifingu sem allra fyrst,“ þá er ekki eftir neinu að bíða.
Alþingi ætti sem fyrst að breyta lögum um póstdreifingu þannig að fyrir liggi traust og skilvirkt regluverk sem hannað er til að styðja við póstdreifingu í samkeppnisumhverfi og getur staðið til framtíðar. Þegar slíkt regluverk liggur fyrir ætti að ganga í undirbúning að sölu á Íslandspósti. Hraði söluferlisins ætti að ráðast af aðstæðum og eftirspurn – hagstætt verð og gagnsætt söluferli ætti að vera aðalmarkmiði, og óþarfur flýtir er ekki heppilegur til að ná þeim markmiðum.
Íslandspóstur er vel rekið fyrirtæki og líklegt að margir vilji eignast það þegar að einkavæðingu kemur. Það er ekki eftirsóknarvert að einkavæða einkaréttinn á póstdreifingu, en þeim mun jákvæðara að einkavæða öflugt fyrirtæki í samkeppnisumhverfi.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020