Þorskurinn hefur löngum verið afar þýðingarmikill fyrir Íslendinga. Raunar svo djúpt ristir þessi sviplausi fiskur í þjóðarvitundina að eina stríðið sem við höfum háð snerist um þorskinn. Slík var ástríðan að litla Ísland hafði sigur á heimsveldi Breta í þeirri rimmu. Það lá því mikið undir þegar sjávarútvegsráðherra kynnti ákvörðun sína um þorskkvóta næsta árs.
Það er gömul saga og ný að best er að rífa plásturinn af í einum rykk. Ákvörðun ráðherrans um að fylgja ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar er skynsamleg og til marks um pólitískt þor. Hún markar upphafið að nýju uppbyggingartímabili í sjávarútvegi, þótt framundan séu auðvitað erfiðir tímar fyrir þá sem eru í greininni og byggðalög sem treysta mjög á útgerð og fiskvinnslu. Með því að fara einhvers konar millileið, eins og oft hefur verið gert, hefði ráðherra aðeins verið að fresta vandanum og standa í vegi fyrir þeirri nauðsynlegu uppbyggingu á stofninum sem þarf að eiga sér stað.
Það er sérstök ástæða í þessu sambandi til að vekja athygli á útreikningum fræðimanna við Háskóla Íslands sem hafa bent á að uppbygging þorskstofnsins muni taka ellefu ár og að unnt verði að veiða 300 þúsund tonn af þorski að loknu þessu uppbyggingarskeiði. Einnig kemur fram að ákvörðun um veiðar á 150 til 190 þúsund tonnum af þorski næstu sjö ár hefði þýtt sautján ára bið eftir góðum þorskafla og líkur á stofnhruni hefðu verið 43 prósent.
Þeir erfiðleikar sem framundan eru verða að skoðast í samhengi við stöðu íslensks efnahagslífs um þessar mundir. Staðan er afar góð hvert sem er litið og atvinnutækifærin mikil enda erum við í þeirri einstöku stöðu að atvinnuleysi er nánast ekki til staðar hér á landi, hagvöxtur mikill og kaupmáttaraukning hefur verið gríðarleg á undanförum áratug. Það eru því miklir möguleikar á að rétta úr kútnum og deyfa höggið sem fyrirsjáanlegt er útgerðir verði fyrir. Að sama skapi er staða ríkissjóðs nú með þeim hætti að sá tekjumissir sem verður vegna minni veiða er ekki líklegur til að valda miklum búsifjum. Ágóðinn af skynsamlegri efnahagsstefnu undanfarinna kjörtímabila felst nefnilega ekki bara í því að einhverjar afkomutölur líti vel út, heldur einmitt því að þjóðfélagið stendur ekki og fellur með hverju tonni af þorski sem dregið er á land. Í slíku árferði er unnt að taka ákvarðanir á grundvelli langtímahagsmuna en ekki skammtíma. Eins og áður sagði sýna útreikningar að minni sókn í stofninn núna mun styrkja hann og gera kleift að auka veiðar mjög verulega eftir að stofninn hefur tekið við sér. Þeir sem axla byrðarnar núna munu njóta ávaxtana þegar fram líða stundir.
Þá er ennfremur ástæða til að fagna því sérstaklega að við ákvörðun sína fór sjávarútvegsráðherra ekki eftir þeim mikla fjölda arfavitlausu hugmynda sem fram hafa komið að undanförnu. Þær hafa til að mynda gengið út á að hunsa ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar og fylgja óskilgreindri tilfinningu manna um hvað sé mikið af fisk í sjónum. Með fullri virðingu fyrir fiskinefjum okkar öflugu sjómanna, blasir það við að upplýsingar og ráðgjöf sérstakrar rannsóknarstofnunar, þar sem fræðimenn á heimsmælikvarða starfa, eru mun traustari grundvöllur slíkrar ákvörðunar. Þá hefur ekki staðið á tillögum frá stjórnmálamönnum sem vilja auka eigin áhrif við staðsetningu fiskveiðiheimilda um landið. Undirliggjandi tónn í þessum hugmyndum er að það séu stjórnmálamenn, en ekki markaðurinn og frjáls viðskipti, sem eigi að stýra því hvar og hvernig sé gert út.
En það er einmitt hið frjálsa framsal sem leiðir til hagræðingar í atvinnugreininni og gerir það að verkum að sjávarútvegur á Íslandi er arðbær og í fremstu röð en ekki ríkisrekin starfsemi eins og víða annars staðar. Allar hugmyndir um að breyta sjávarútveginum í risastórt byggðaþróunarverkefni eru einmitt skref í áttina að óarðbærum og óskilvirkum rekstri sem mun valda meiri vandræðum til lengra tíma litið.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021