Auglýsingar á borð við þessa hér á undan eru frekar algengar þessa dagana enda hefur veðrið verið eintóm gleði og hamingja, sól og sæla. Fyrirtæki víða um land hafa brugðið á það ráð að gefa starfsmönnum sínum frí vegna veðurs, því það hefur sýnt sig að veðrið hefur mikil áhrif á lundarfar fólks. Sólarljósið ertir svæði við gagnaugablöðku heilans og á þann hátt fer heilinn að framleiða gleðihormónið seritón….. og einstaklingar verða kátari fyrir vikið. Það skemmir ekki fyrir að það er bjart allann sólarhringinn. Því er algeng sjón að sjá fullt út af dyrum í ísbúðum, hjólreiðakappa á ferð og jafnt unga sem aldna í sundlaugum borgarinnar.
Það eru gömul sannindi og ný að veðurfar skiptir verslun miklu máli. Bjart veður virðist hafa þau áhrif að neytendur fara frekar í verslunarleiðangra. Sólin hefur því haft áhrif á verslun og sandalar og léttur sumarfatnaður eru að verða vinsælasta útsöluvaran. Í blíðskaparveðri eykst sala á grillkjöti og aukning hefur verið á hvít- og rauðvíni hjá ÁTVR í góða veðrinu. Algengt er að sjá troðfull kaffihús við Austurvöll auk fjölda fólks sem “huggar sig” með kaldan öl við hönd. Því var ég að velta því fyrir mér ættu fyrirtæki ekki öll að loka vegna veðurs? Ætti að leyfa fólki að fara heim eða á að hafa fastan opnunartíma og hámarksfjölda starfsmanna þegar ekkert er að gera sökum sólskinsveðurs?
Að mínu mati væri fínt að loka vegna veðurs þegar svona einmuna blíða stendur yfir því það er öruggt mál að þetta skilar sér í margfalt auknum afköstum þegar hann fer að rigna aftur.
Njótið veðursins og eigið gleðilega sólardaga það sem eftir lifir sumars.
- Fyrirtæki loka vegna veðurs - 5. júlí 2007
- Áhrif óhljóða á mannkynið - 26. janúar 2007
- Matarskattur lækkar loksins - 10. október 2006