Er ríkisrekinn áætlunarbúskapur lausnin?

Það er eðlilegt og rökrétt af hálfu stjórnvalda að fylgja ráðgjöf vísindamanna við ákvörðun heildarafla á þorski á komandi fiskveiðiári. Þeir sem nú geysast fram og telja minnkandi þorskafla kalla á heildarendurskoðun eða uppstokkun á fiskveiðistjórnunarkerfisins eru aftur á móti á algjörum villigötum.

Ef að líkum lætur mun ákvörðun sjávarútvegsráðherra um aflamark næsta fiskveiðiárs verða í samræmi við ráðgjöf Hafró. Þótt margt megi gagnrýni í starfsemi Hafró og þar með ráðgjöf stofnunarinnar, hafa ráðamenn engin betri gögn í höndunum til að byggja ákvörðun sína á. Það er því eðlilegt og rökrétt að fylgja ráðgjöfinni.

Fyrirsjáanlegur aflasamdráttur er slæmur og kemur hart niður á þeim sem byggja afkomu sína á þorskveiðum. Mikið er rætt um mótvægisaðgerðir til að taka af mesta höggið og aðrir tala um að staðan nú kalli á endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins.

Hvað mótvægisaðgerðirnar varðar, þá blasir nú við hinn rangláti skattur á sjávarútveginn,sem knúið var í gegn af Morgunblaðinu og fleirum með falsboðum um sátt, verði aflagt þegar í stað. Ekki nær nokkkurri átt að sjávarútvegnum sé einum atvinnuvega gert að bera slíkar byrðar. Með niðurfellingu gjaldsins minnkar skattheimta ríkisins af sjávarútvegi um einn milljarð. Það munar um minna, þótt þessi breyting ein og sér vegi ekki upp tekjutap af minni afla.

Þeir sem nú geysast fram og telja minnkandi þorskafla kalla á heildarendurskoðun eða uppstokkun á fiskveiðistjórnunar eru á algjörum villigötum. Ekki kemur á óvart að þar skuli Morgunblaðið fara fremst í flokki. Það ætti að vera augljóst hverjum manni að kvótakerfið býr ekki til fisk í sjónum, frekar en önnur fiskveiðistjórnarkerfi. Stærð þorskstofnsins ræðst auðvitað fyrst og fremst af veiðiálagi, auk þess hvernig samspili í lífríki hafsins er háttað. Þetta virðist mönnum ganga illa að skilja.

En það er ekki nóg með að menn kenni kvótakerfinu um ástand þorskstofnsins, heldur eru flutningar fólks úr dreifbýli líka kvótakerfinu „að kenna“. En af hverju flutti fólk frá Ströndunum og Borgarfirð eystra? Frjálst framsal aflaheimilda var ekki tilkomið þá. Fólk flutti frá þessum stöðum af því að tækifærin voru annars staðar. Þessi eiginleiki mannsins – að elta tækifærin en sitja ekki og bíða eftir þau komi – hefur tryggt vöxt og viðgang tegundarinnar frá upphafi vega. Menn tala hins vegar um þessa þróun hér á landi sem einhverjar náttúruhamfarir, kenna kvótakerfinu og telja sig geta spornað við þróunin með því að „endurskoða“ það eða stokka upp.

Morgunblaðið segir í leiðara dagsins að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir verði að hefja endurskoðun kvótakerfisins:

„Það gengur ekki lengur að leggja byggðir í rúst með því að milljarðar skipti um hendur á milli örfárra einstaklinga en fólkið skilið eftir atvinnulaust og eignalaust.“

Ef við snúum af þeirri braut að einstaklingar og fyrirtæki fari með afnotaréttinn af auðlindinni, þá verður útgerðin í höndum hins opinbera. Stjórnmálamenn munu taka ákvarðanir um hvort gert verði út frá einum stað og hversu miklu verði landað á öðrum. Morgunblaðið er því að leggja til ríkisstýrðan áætlunarbúskap í fiskveiðum Íslendinga. Það er kannski kominn tími til að Morgunblaðið tali umbúðalaust um skoðanir sínar í þessum efnum.

Staðreyndin er sú að íslenskur sjávarútvegur hefur aldrei verið eins vel rekinn og um þessar mundir. Vissulega standa fyrirtækin sig misjafnlega vel. Það hefur alltaf verið raunin með útgerð á Íslandi. Hagræðing hefur hins vegar aukist veruleg og aflaverðmætið hefur margfaldast frá því sem áður var. Offjárfesting og sóun, sem áður einkenndi þennan atvinnuveg, heyrir sögunni til. Ef ekki hefði komið til séreignarréttur með frjálsu framsali aflaheimilda hefði sú hagræðing ekki átt sér stað og efast má um að sjávarútvegurinn hefði staðið af sér aflasamdráttinn upp úr 1991 og óhagstæð ytri skilyrði á síðustu árum.

Sjónarmið þau sem Morgunblaðið heldur á lofti um grundvallarbreytingu á aflamarkskerfinu eru hættuleg þessari undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Þegar áfall dynja yfir verða menn að standa í fæturna. Aflasamdrátturinn nú má ekki verða til þess að menn gefi lyf sem eru verri en sjúkdómurinn – miklu verri.

Framundan eru erfið viðfangsefni. Tekjur þjóðarbúsins munu dragast saman og þó svo að Íslendingar hafi aldrei verið betur undir slíkan aflasamdrátt búnir, þá verður hann engu að síður tilfinnanlegur. Brýnasta verkefnið er að stórefla rannsóknir á auðlindum sjávar, t.a.m. með aðkomu fleiri aðila en Hafrannsóknarstofnunar. Of lengi hafa sjávarútvegsmál snúist um kosti og galla aflamarkskerfisins. Umræðunni hefur verið stjórnar af aðilum sem sjá ofsjónum yfir því að mögulega sé hægt að græða á útgerð á Íslandi.

Viðfangsefni framtíðar í sjávarútvegi eru þau helst að efla rannsóknir á lífríki hafsins, sérstaklega með tilliti til samspils ákveðinna stofna, að skoða áhrif veiðarfæra á fiskistofnana og umhverfi þeirra og að búa þessum atvinnuvegi umgjörð stöðugleika og lágmarksafskipta hins hins opinbera, svo hann geti haldið áfram að dafna.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)